Skip to main content
Fréttir

Markmið félagsins

By 16. febrúar, 2004No Comments

Samtökin ´78, félag lesbía og homma á Íslandi, voru stofnuð vorið 1978. Markmið félagsins er að vinna að því að lesbíur, hommar og tvíkynhneigðir verði sýnileg og viðurkennd og að samkynhneigðir og tvíkynhneigðir njóti jafnréttis á við aðra í íslensku samfélagi. Það er gert með því að berjast fyrir margvíslegum mannréttindum lesbía, homma og tvíkynhneigða og efla fræðslu um reynslu þeirra og sérkenni, eftir þeim leiðum sem árangursríkastar þykja hverju sinni, svo sem á vettvangi löggjafarvaldsins, í opinberu fræðslukerfi, með útgáfu og í fjölmiðlum. Einnig leitast félagið við að skapa lesbíum og hommum félagslegan og menningarlegan vettvang í því skyni að styrkja sjálfsvitund þeirra, samkennd og samstöðu um sérkenni sín. Samtökin ´78 eiga samstarf við önnur félög lesbía og homma hérlendis og erlendis sem stefna að sömu markmiðum og jafnframt styðja þau önnur félagasamtök sem vinna að lýðréttindum og leita stuðnings þeirra.

Kjarninn í mannréttindakröfu samkynhneigðra og tvíkynhneigðra um allan heim snýst um persónulegt frelsi og tilfinningafrelsi – frelsi til að haga lífi sínu í samræmi við eigin ástarhneigð. Slíkt frelsi er í eðli sínu helgur réttur hvers manns í samfélagi sem vill kenna sig við mannréttindi, ekki síður en ritfrelsi, málfrelsi eða félagafrelsi. Sú var tíðin að lesbíur, hommar og tvíkynhneigðir á Íslandi sáu sig hópum saman neydd til þess að yfirgefa land og setjast að erlendis vegna þess að réttur þeirra til ásta með eigin kyni var fótum troðinn, hæddur og lítilsvirtur. En nýir tímar hafa fært þeim frelsi og öryggi umfram það sem þekkist víðast hvar í heiminum. Eftir langa baráttu virðir íslensk löggjöf nú mannréttindi samkynhneigðra og tvíkynhneigðra í meira mæli en dæmi eru um meðal flestra ríkja heims, og mikill meirihluti almennings sýnir þeim sömu mannvirðingu og öðrum íslenskum þegnum.

Leave a Reply