Það skiptir nefnilega öllu máli fyrir hverja manneskju að finna tilfinningalífi sínu skjól á þeim árum þegar það eru hvað viðkvæmast og brothættast, þegar svo auðvelt er að spilla sálarró og hamingju ungrar manneskju með einu vondu orði. Um leið skiptir það gríðarlegu máli að unglingur fái dafnað og komist til þroska í návist við upprunafjölskyldu sína og eigi þar stuðning. Að telja sig tilneyddan til að flytja eða flýja á mölina áður en sjálfstæði og þroski bjóða upp á slíkt er illt hlutskipti.
Viðmiðið er einfalt og skýrt. Við verðum að búa samkynhneigðum unglingum sama möguleika og öðrum að komast til þroska í því umhverfi sem viðkomandi þekkir best. Sennilega er þetta einn höfuðvandi uppeldismála okkar daga. Í rannsóknum mínum með íslenskum hommum kunna flestir þeirra að segja frá mikilli angist, jafnvel ofbeldi og einelti á unglingsárum. Og nær allar vondu sögurnar eru ættaðar úr dreifbýlinu, sveitum og smærri bæjarfélögum þessa lands.
Þorvaldur Kristinsson á ráðstefnu um samkynhneigða unglinga, apríl 2005.