Það er skammt stórra högga á milli hjá Samtökunum ’78 þessa dagana.
Næstu helgi er Menningarnótt haldin hátíðleg í Reykjavík og ætlum við að hafa opið hús frá kl 14-22 í félagsmiðstöð samtakanna að Laugavegi 3. Húsið er opið þeim sem vilja kynna sér þá fjölbreyttu starfsemi sem fram fer í húsinu og nú er upplagt tækifæri að draga fjölskyldu og vini með sér í Regnbogasalinn og kynna þeim starfið.
Þetta verður fyrst og fremst opið hús og kynning á starfsemi en einnig er ætlunin að hafa uppákomur seinni partinn og um kvöldið. Meðal annars mun nýstofnaður Hinsegin kór taka lagið… Dagskráin verður birt á vefsíðu S78 þegar nær dregur.
Þá er nýlokið Hinsegin dögum í Reykjavík þar sem S78 voru mun sýnilegri en undanfarið. Mannréttindaverðlaun Samtakanna ’78 voru afhent við opnunarhátíðina í Háskólabíó og má sjá verðlaunahafana á mynd hér að neðan ásamt Árna Grétari Jóhannssyni framkvæmdastjóra og Guðmundi Helgasyni formanni en þeir afhentu verðlaunin.
Verðlaun hlutu: HIV-Ísland, Alnæmissamtökin í flokknum „Hópur, félag eða fyrirtæki“ Svavar G. Jónsson, formaður veitti verðlaununum viðtöku. Í flokknum „einstaklingur utan félags“ Dr. Sigrún Sveinbjörnsdóttir, lektor við Háskólann á Akureyri og í flokknum „einstaklingur innan félags“ Páll Óskar Hjálmtýsson. Verðlaunahafar hlutu gullmerki Samtakanna ’78 ásamt innrömmuðu viðurkenningarskjali og blómvendi.
Á laugardeginum gekk hópur félagsmanna ásamt fólki úr stjórn og trúnaðarráði í göngunni sjálfri með skilti sem minntu á áfanga í sögu okkar hér á Íslandi. Í myndatexta í einu dagblaðanna eftir hátíðina mátti lesa að Anna Kristjánsdóttir hafi sent stjórnvöldum skýr skilaboð en textinn á skiltinu hennar var „2012 – Lög um stöðu trans fólks samþykkt á Íslandi…?“ Það er von okkar að við höfum einmitt náð að senda skýr skilaboð til stjórnvalda sem og almennings um að Samtökin ’78 berjist fyrir réttarbótum hinsegin fólks og muni halda áfram að gera það um ókomna tíð.
Þá fengum við leyfi hjá Hinsegin dögum fyrir sölutjaldi þar sem fólk gat fengið sér hressingu, keypt merki til styrktar S78 og gengið í samtökin. Afraksturinn er dágóð búbót fyrir okkar fjárvana samtök.