Skip to main content
Uncategorized

Minningardagur trans fólks

By 20. nóvember, 2014No Comments

„Trans“ er stytting á hugtakinu „transgender“ sem er regnhlífarhugtak og notað um mikinn fjölda fólks. Þetta fólk á það sameiginlegt að ögra viðteknum hugmyndum um kyn eða upplifa sig á einhvern hátt á skjön við það kyn sem því var úthlutað við fæðingu. Hér getur verið um að ræða einstaklinga sem undirgangast einhverskonar kynleiðréttingu (e. transsexual), einstaklinga sem klæðast fötum af öðru kyni (e. crossdressers), einstaklinga sem upplifa sig ekki eingöngu sem karl eða konu; sem karl og konu, sem fljótandi á milli kynja – eða algjörlega utan þeirra (e. genderqueer & non-binary). Listinn er engan veginn tæmandi og til eru ótal fleiri og ítarlegri skilgreiningar á kynvitund einstaklinga sem rúmast undir „transgender“ regnhlífinni. Þetta er mikilvægt að hafa í huga þegar talað er um trans fólk.

Þolendur fordóma, útskúfunar og ofbeldis

Minningardagur trans fólks er haldinn til að minnast þeirra sem hafa orðið fyrir fordómum, ofbeldi og jafnvel verið myrtir fyrir kynvitund sína. Dagurinn er haldinn víða um heim og var fyrst haldinn árið 1998 af Gwendolyn Ann Smith til að minnast trans konunnar Ritu Hester sem var myrt í Allston, Massaschusetts í Bandaríkjunum í nóvember sama ár.

Dagurinn er þó ekki eingöngu haldinn til að vekja athygli á slæmri stöðu trans fólks erlendis eða minnast þeirra sem verða fyrir hræðilegum fordómum úti í hinum stóra heimi. Þannig hefur Trans-Ísland undanfarin ár efnt til viðburðar í tilefni dagsins og tengt við íslenskan veruleika. Trans fólk verður nefnilega einnig fyrir miklum fordómum og mismunun hérlendis og má jafnvel sæta ofbeldi vegna kynvitundar sinnar. Nauðsynlegt er að vekja athygli á þeirri staðreynd og minnast þeirra sem fyrir óréttinu verða. Horst Gorda var einn þeirra. Hann lést við ömurlegar aðstæður síðasta vetur eftir áralanga og harða baráttu við fordóma, útskúfun og ósveigjanlegt kerfi sem neitaði honum um að fá að lifa með reisn.

Frá árinu 2008 hafa Evrópusamtökin Transgender Europe (TGEU) haldið úti skrá yfir þá einstaklinga sem myrtir eru fyrir kynvitund sína ár hvert. Frá því að samtökin hófu skráninguna hafa alls 1.612 einstaklingar í 62 mismunandi löndum verið myrtir – þar af 226 síðasta árið. Þetta eru aðeins þau tilfelli sem eru skráð og má því ætla að rauntölur séu hærri. Sjálfsvíg eru ekki inni í þessum tölum en rannsóknir benda til gríðarlega hárrar sjálfsvígstíðni trans fólks sem skrifa má á fordóma, útskúfun og lélegan eða jafnvel engan aðgang að heilbrigðisþjónustu. Hægt er að lesa nánar um þetta í fréttatilkynningu Transgender Europe.

Baráttan gegn fordómum og stofnun Trans-Ísland

Samtökin Trans-Ísland voru stofnuð árið 2007. Þau hafa æ síðan verið helsti málsvari trans fólks á Íslandi og vinna náið með Samtökunum ‘78. Á Íslandi hefur baráttan snúist um að vekja almenning til vitundar, að tryggja trans fólki aðgang að heilbrigðiskerfinu, að hvetja fólk til að tileinka sér rétta orðanotkun og að sporna gegn fordómum og mismunun.

Trans fólk á Íslandi er skv. lögum haldið „kynáttunarvanda“ sem í heilbrigðiskerfinu telst til geðsjúkdóma. Trans-Ísland og Samtökin ‘78 mótmæla þessari sjúkdómsvæðingu transfólks og beita sér fyrir afnámi hennar. Þessari sjúkdómsvæðingu má líkja við sjúkdómsvæðingu samkynhneigðra en það var ekki fyrr en 17. maí árið 1990 sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin tók orðið samkynhneigð af lista sínum yfir geðsjúkdóma. Trans fólk í dag er því að mörgu leyti að berjast við sömu norm, gildi og reglusetningu og samkynhneigðir börðust við hér áður fyrr.

Orðanotkunin

Við höfum öll okkar kynvitund – það hvernig við upplifun kyn okkar. Þegar málefni transfólks ber á góma notar fólk iðulega orð á borð við „kynskiptingar“ og „að skipta um kyn“. Slík orðanotkun nær illa utan um upplifun þeirra sem að undirgangast kynleiðréttingu. Það að skipta er eitthvað sem maður getur gert oftar en einu sinni og lýsir því að taka eitthvað og fá eitthvað eða setja eitthvað annað í staðinn. Þegar einstaklingur undirgengst kynleiðréttingu er ekki um slíkt að ræða. Viðkomandi er einfaldlega að láta leiðrétta líkama sinn að kynvitund sinni. Þetta þýðir sumsé að einstaklingur sem t.d. leiðréttir kyn sitt í karl hefur í raun alltaf verið karl og er að leiðrétta líkama sinn að því. Frekar upplýsingar um orðanotkun má finna hér.

Burt með sjúkdómsvæðingu og forræðishyggju

Að lokum. Trans fólk á ekki að þurfa að sæta meðferð og greiningu sérfræðinga sem gengur út á það að sannfæra þá einstaklinga um eigin kynvitund og ágæti. Það á ekki að þurfa að sæta meðferð og greiningu sem snýst um að styrkja samfélagið í trúnni á viðteknar og íhaldssamar hugmyndir um kyn. Núverandi lög ganga út frá því að eingöngu séu til tvö kyn og að viðkomandi verði að passa inn í annan hvorn þessara flokka. Þar með útiloka þau stóran hóp trans fólks sem hefði hugsanlega þörf fyrir hormónameðferðir, nafnabreytingar og aðgerðir, án þess þó a
ð það vilji þröngva sér inn í ríkjandi hugmyndir um kyn.

Það vald sem heilbrigðiskerfið hefur yfir lífi trans fólks er gríðarlega mikið. Líf trans fólks er því í höndum teymis sem hefur hvorki neina sérstaka menntun á sviði trans- og/eða kynjafræða, né eru á einhvern hátt trans fólk sjálft. Það er von okkar að íslensk stjórnvöld fjarlægi þær gríðarlegu hindranir sem trans fólk mætir. Hættum sjúkdómsvæðingunni.

Færum trans fólki forræði yfir eigin lífi.

Leave a Reply