Skip to main content
Uncategorized

Nokkrir dropar á botninn í kampavínsglasi

By 1. janúar, 1998No Comments

Sunnudagurinn 30. nóvember 1997 var tíðindalítill ef marka má íslensk dagblöð. Í fréttum var þetta helst: Salmonellusýking meðal íslenskra Kúbufara og átök ellilífeyrisþega við gassölufyrirtæki í Essex á Englandi sem lauk með því að öldungarnir lokuðu starfsmann fyrirtækisins inni þar til þeir höfðu náð rétti sínum. Gleðitíðindi einkalífsins eru sjaldan talin fréttnæm, til dæmis ekki þau að klukkan 22:32 þetta kvöld leit lítil stúlka ljósin á Landspítalanum.

En allt er afstætt á henni jörðu, og sú litla reyndist stærðarinnar kvenmaður þegar hún var borin saman við granna sína á vöggustofu fæðingardeildarinnar, heilar 16 merkur á þyngd og 54 sentímetrar á lengd. Á vögguskrá stofnunarinnar var móðirin skráð Hanna Rún Þór en yfir orðið Faðir er strikað og þar stendur: Maki Anna Auðuns. Þær hófu sambúð fyrir hálfum öðrum áratug, staðfestu samvist sína árið 1996 og á jólum 1997 báru þær dóttur sína til skírnar í Hallgrímskirkju þar sem hún hlaut nafnið Arna Sigríður Þór. Hanna Rún og Anna eru gott dæmi um þá nýju kynslóð samkynhneigðra sem tekur lífið í eigin hendur og leitar að hamingjunni í stað þess að láta aðra skilgreina hana fyrir sig.

Anna: „Einhvers staðar innra með okkur var hann alltaf til staðar, draumurinn um að eignast barn og ala það upp. Sjálf hef ég annast börn á leikskóla árum saman og veit hvað þau gefa mér og veit hvers ég er megnug svo að litlum krökkum megi líða vel. Fyrst eftir að við Hanna tókum saman höfðum við þetta stundum á orði: „Þegar við eignumst börn.“ Svo liðu árin og smám saman hét það: „Ef við eignumst börn.“ En ég sætti mig aldrei við barnleysið. Og svo kom tækifærið allt í einu til okkar og þá tókum við bara þessari áskorun frá lífinu. Einhvern tíma fyrir löngu hafði ég lesið í DV um konu í Suður-Afríku sem frjóvgaði sig með nokkrum dropum sæðis sem karlmaður hafði fært henni í kampavínsglasi, og gott ef hún var ekki dreginn fyrir dómstóla af þeim sökum. Og alltaf var þessi hugmynd ljóslifandi einhvers staðar í höfðinu á mér. Að það þyrfti í rauninni ekki meira til en nokkra dropa í botninn á kampavínsglasi!“

Hversdagslegur aðdragandi

Hanna Rún: „Aðdragandinn var nú svo hversdagslegur að það tekur varla tali. Við vorum hjá vinum okkar í boði og þar var staddur karlmaður sem við könnumst við. Nú, nú, það var farið að tala um barneignir lesbía og við sögðum frá því að það hefði alla tíð verið draumur okkar að eignast börn. Þá sagði þessi ágæti maður að frá sinni hálfu væri þetta lítið mál, hann skyldi hjálpa okkur til þess með sæðisgjöf. Hann var sammála því að hann yrði hvergi skráður faðir barnsins og gerði engar kröfur til þess, en hann var að fara úr landi svo þetta varð að gerast í snatri ef af átti að verða. Þannig stóð á að ég átti möguleika á að verða ófrísk og hálfum mánuði eftir að að hann færði mér sæði sitt í glasi fékk ég þungunina staðfesta. Það er svolítið erfið bið og mikil spenna fylgdi þessu því þegar maður hefur lagt af stað í siglinguna þá er erfitt að sætta sig við að ekkert verði úr ferðinni.“

Ef báðar hefðu átt möguleika á því að verða ófrískar um sama leyti, hefði þá valið ekki orðið ykkur erfitt?

Anna: „Mér fannst alltaf að Hanna hlyti að koma fyrst. Ég er nú einu sinni miklu nátengdari börnum en hún, barnauppeldi hefur hingað til verið mitt ævistarf. Auðvitað fannst mér þetta svolítið erfitt á köflum meðan á meðgöngunni stóð, það var ekki laust við að ég yrði pínu afbrýðisöm yfir að hún skyldi hljóta þessa reynslu en ekki ég. Meðganga er nokkuð sem enginn veit hvað er fyrr en á reynir. En þar með er ekki sagt að ég eigi ekki eftir að prófa þetta líka. Ætli það séu ekki svona 90% líkur á að Arna Sigríður eignist systkini þegar fram í sækir.“

Mikil lukka með barnabarnið

Nú hafið þið brotið blað í sögunni og þeir sem það gera komast varla hjá því að mæta fordómum. Hvernig var ykkur tekið?

Anna: „Jú, auðvitað fær maður skrýtin og stundum óþægileg viðbrögð, sérstaklega þegar fréttirnar koma fólki að óvörum. Þá missir það eitt og annað út úr sér. Kona ein byrjaði á því að lýsa því yfir að „svona fólk ætti nú bara ekki að fá að eignast börn“. Svo bráði af henni og hún átti eftir að reynast okkur afskaplega vel. Mér finnst samkynhneigt fólk ekki mega taka fyrstu viðbrögð fólks eins mikið inn á sig og það gerir, ég held að flestir sjái eftir ógætilegum orðum og vilji í rauninni bæta fyrir þau ef þeir finna að fordómarnir hafa tekið völdin eitt augnablik. Það er líka mjög ólíkt okkur Hönnu að festa okkur við neikvæð viðbrögð. Maður ergir bara sjálfan sig á því – engan annan.“

Hanna Rún: „Mestu máli skiptir að foreldrar okkar tóku þessu skínandi vel og það ríkir mikil lukka með barnabarnið. Pabbi og mamma urðu fyrst svolítið ráðvillt, höfðu víst aldrei búist við þessu. Það er nú einu sinni svo svo að foreldrar lesbía og homma hafa „sætt sig við“ að lítið verði um barnabörnin úr þeirri áttinni og þeir þurfa að skoða málið upp á nýtt þegar svona gerist. En það gerðist líka margt merkilegt í lífi pabba og mömmu við þennan atburð. Við fæðinguna sáu mæður okkar betur en nokkru sinni fyrr hvað við Anna erum nátengdar og sambandið sterkt. Og þegar pabbi hafði í nokkra daga fengið að venjast þessari nýju tilhugsun, að stelpan hans væri að verða móðir, þá varð hann hinn kátasti. Ég held að hann sé ofboðslega stoltur afi þessa dagana.“

Gerðuð þið ykkur grein fyrir hversu stórt skref þetta er meðal samkynhneigðs fólks á Íslandi?

Hanna Rún: „Nei, biddu fyrir þér! Ef maður áttaði sig á því hvað skrefin manns fela í sér þá sæti maður ábyggilega kyrr á sínum rassi. Það var eiginlega ekki fyrr en við fórum á fyrirlestur og umræðufund hjá Mannréttindastofu Íslands um rétt samkynhneigðra til barneigna að við sáum hvílíkir brautryðjendur við vorum – svona alveg óvart. Þar talaði Hrefna Friðriksdóttir lögfræðingur um málið og fundargestir lýstu skoðunum sínum. Og þarna sátum við sem höfðum tekið okkur sjálfsagðan rétt til að eignast barn, rétt sem satt að segja er mjög umdeildur.“

Börnunum haldið í felum

Anna: „Ég vil nú ekki meina við höfum komið beint af fjöllum í þessum málum. Það hefur verið þó nokkur upplýsandi umræða í gangi meðal íslenskra lesbía og homma síðustu árin. Sjálf mætti ég á fundi um tíma í foreldrahópi sem starfar á vettvangi Samtakanna ´78. Flestir í hópnum áttu börn, en þarna kom ég og sagði bara: „Ég vinn á leikskóla, ég á engin börn, en mig langar til að verða móðir.“ Þannig varð ég hluti af hópnum. Maður má nefnilega ekki gleyma því að í samfélagi homma og lesbía er allt fullt af börnum. Býsna mörg okkar eignast börn áður en við horfumst í augu við það hver við erum. Í þessum hópi var til dæmis rætt um það hvernig við tökum á ýmsum erfiðleikum sem koma upp þegar maður ætlar að lifa opinskátt og heiðarlega sem lesbía eða hommi og ala um leið upp börn með fullri reisn. Þetta er erfitt og stundum sárnar mér fyrir hönd barnanna. Það er eins og þau njóti ekki fullrar virðingar. Þó að við komum sjálf úr felum þá höldum við börnunum okkar í felum, stundum leynum við þeim á okkar vettvangi, kannski af ótta eða „tillitssemi“ við barnsmóðurina eða barnsföðurinn. Ég sé til dæmis homma í kringum mig sem eru með börnum sínum aðra hve
rja helgi, og þá helgi passa þeir sig á því að gera ekkert til að minna heiminn á að þeir eru nú einu sinni hommar. Þetta er ekkert annað en sjálfskúgun. Það er ekki nóg að koma sjálfur út úr skápnum, ef maður á barn verður maður líka að koma út úr skápnum sem samkynhneigt foreldri.“

Hvað er nú erfiðast við þessa reynslu sem þið hafði gengið í gegnum?

Hanna Rún: „Þetta er nú búin að vera svo góð reynsla að allt það neikvæða, það bara gleymist. Eiginlega hefur meðgangan og fæðingin verið miklu meira gefandi en okkur grunaði. Einstaka skrýtnar uppákomur eru aðallega fyndnar, eins og til dæmis konan sem hljóp út úr húsi þegar hún frétti hvernig Arna Sigríður hefði orðið til og öskraði: „Þú skalt ekki halda að þú getir logið svona að mér.“ Maður spyr sjálfa sig hvort konur geti virkilega verið svona fáfróðar um líkamsstarfið að þær trúi því ekki hvernig dóttir okkar varð til. Ég spyr mig bara að því hvort íslenskar konur þurfi á fræðslunámskeiði að halda um það hvernig þær geti frjóvgað sig?“

Maður leynir börn sín ekki staðreyndum lífsinsAnna: „Ég var eiginlega sárust yfir öllum þessum spurningum: „Heyrðu, hver er pabbinn? Er hann hommi?“ Ég hélt að fólk skildi að þegar þessum sæðisdropum sleppir þá þarf ekki að vera neinn faðir inni í myndinni, ekki frekar en fólk kærir sig um. Og svo kom spurningin: „Ætlarðu ekki í feðraorlof, ha?“ Kjarni málsins er sá að við erum tvær mæður að þessu barni þó að aðeins önnur okkar sé hin líffræðilega móðir. En saman berum við ábyrgðina og saman ætlum við að njóta ánægjunnar. Aftur á móti þarf Arna Sigríður ekkert að velta vöngum um uppruna sinn og tilurð þegar hún stækkar, hún fær að vita allt það sem hún vill vita, eftir því sem hún fær þroska til. Maður hefur ekkert nema illt upp úr því að ljúga að börnum og leyna þau staðreyndum lífsins. Í vinnunni sagði ég börnunum frá því sem var að gerast og þeim fannst það ekkert skrýtið. Það fannst sumum foreldrunum aftur á móti og voru hissa á að ég skyldi segja þeim frá þessu eins og sjálfsögðum hlut, sem það auðvitað er.“

Nú liggur fyrir Alþingi stjúpættleiðingarfrumvarp sem skiptir miklu máli fyrir samkynhneigðar fjölskyldur. Þið bíðið auðvitað spenntar eftir því að það mál komst á hreint?

Anna: „Jú, heldur betur. Þó að Arna Sigríður sé tilgreind undir nafni okkar beggja á skattskýrslunni, þá liggur réttur minn og skylda gagnvart henni ekki ljós fyrir nema ég geti ættleitt hana. Ég neita því ekki að hér verð ég að treysta á Samtökin ´78 til að vinna málinu fylgi. Ef stjúpættleiðingarfrumvarpið verður ekki að lögum á næstunni þá hljótum við að sækja réttinn fyrir dómstólum. Þetta snýst nú einu sinni um líf og öryggi lítillar stelpu.“

Eftirmáli

Eftir að þetta viðtal birtist hefur margt gerst til þess að tryggja félagslegt öryggi Örnu Sigríðar og barna í hennar stöðu. Lögum um staðfesta samvist fólks af sama kyni var breytt vorið 2000 og í þau aukið við ákvæðum um stjúpættleiðingu barna sem rætt er um hér að ofan. Þær Hanna Rún og Anna sóttu rétt sinn og nú á Arna Sigríður tvær mæður fyrir lögum.

Texti: Þorvaldur Kristinsson.

Copyright © Þorvaldur Kristinsson 1998
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply