Undanfarið hefur mátt merkja aukningu ofbeldis í garð homma og þeirra sem taldir eru hommar sem og transgender einstaklinga. Sum af þessum málum hafa ratað í fjölmiðla á meðan önnur hafa ekki farið eins hátt en borist til heyrna forsvarsmanna Samtakanna ´78 eftir öðrum leiðum. Eitt alvarlegasta afbrotið átti sér stað sl. sumar þegar 16 ára piltur gerði tilraun til þess að myrða 25 ára karlmann sem hann hafði stofnað til kynna við á spjallrás fyrir homma.
Að sögn piltsins „langaði hann að prófa að drepa mann” og hafði hann farið gagngert inn á spjallrás til að „veiða homma” þar sem hann taldi að þeir væru „auðveld bráð”. Árásin átti sér stað í Laugardal þangað sem viðkomandi kom akandi, en þeir höfðu numið staðar og brugðið sér út úr bílnum þegar pilturinn stakk manninn í bakið með hnífi. Árásin var tilefnislaus. Karlmaðurinn komst af vettvangi af sjálfsdáðum og hnífstungan reyndist ekki eins alvarleg og talið var í fyrstu. Pilturinn var dæmdur í gæsluvarðhald og sætti geðrannsókn.
Í nóvember var ráðist á mann á sjötugsaldri við Öskjuhlíð. Hann var á ferð í bíl sínum á Flugvallarvegi þegar fjórir menn stöðvuðu hann, spurðu hvort hann væri samkynhneigður og réðust svo á hann. Maður hlaut alvarlega áverka á andliti og missti fjórar tennur. Fórnarlambið og árarásarmennirnir þekktust ekki og hefur einn ofbeldismanna viðurkennt verknaðinn og hlotið dóm. Síðan þessi árás var gerð hafa fréttir borist af tveimur ámóta árásum í eða við Öskjuhlíð en ekki er vitað hvort þær hafa verið kærðar til lögreglu.
Á nýársnótt var ráðist á tvo karlmenn sem voru á leið á dansleik Samtakanna ´78 í miðborg Reykjavíkur. Fyrst var að þeim sótt með svívirðingum um kynhneigð þeirra en síðan gengið í skrokk á þeim með hnefahöggum og spörkum . Misstu báðir meðvitund og fólk sem kom aðvífandi kallaði á lögreglu sem flutti þá á slysadeild en mennirnir hlutu slæma höfuðáverka. Árásin var kærð en ekki hefur tekist að hafa uppi á ofbeldismönnunum.
Morðtilraun höfð í flimtingum í Séð & heyrt
Í febrúar átti sér stað alvarleg árás í Hafnarfirði. Þar gerði að því best verður séð gagnkynhneigður karlmaður tilraun til þess að myrða unga transgender konu. Hann tók hana hálstaki og reyndi að kyrkja hana er hann komst að því að hún var transgender. Vinum hennar tókst að forða morði með því að berja íslenska karlmanninn í höfuðið með járnstöng svo hann sleppti takinu. Í kjölfar þessa alvarlega ofbeldisglæps fylgdi afar ósmekkleg fjölmiðlaumfjöllun, og þá sérstaklega af hálfu Eiríks Jónssonar blaðamanns á tímaritinu Séð & heyrt. Undir fyrirsögninni „Kærastan með typpi!” er gert góðlátlegt grín að þeirri stöðu sem upp kom. Þar er talað um „kvennafar sem snerist upp í andhverfu sína”, „að konan væri karlmaður” og eftirfarandi haft eftir árásarmanninum: „Við vorum komin langt á leið þegar mér varð ljóst að þetta var karlmaður sem var með mér í rúminu. Þá reyndi ég að kyrkja hann og hefði líklega tekist það ef annað fólk sem var í samkvæminu hefði ekki gripið inn í”. Þá er staðhæft að fórnarlambið hafi þóst vera önnur manneskja en hún er, en slíkt er ekki hægt að sanna með viðtali við árásarmanninn einan og því úr lausu lofti gripið. Fyrir utan það hversu ósmekkleg umfjöllun blaðsins er um svo alvarlegan glæp má beinlínis túlka hana sem hvatningu um ofbeldi gagvart transgender fólki. T.d er vitnað til árásarmannsins undir lok fréttarinnar: „Hvað hefðuð þið gert í mínum sporum? Svona sviksemi kemur öllum úr jafnvægi.” Að sama skapi er ofbeldismanninum hampað í fréttinni sem hörkutóli sem „geti verið grjótharður þegar því er að skipta” og haft eftir honum að jafnvel lögreglan hafi verið „skilningsrík”.
Anna Jonna Ármannsdóttir, sem er ein af forsvarskonum nýstofnaðra hagsmunasamtaka transgender fólks á Íslandi, kom af þessu tilefni alvarlegum athugasemdum á framfæri við tímaritið Séð & heyrt með ósk um að afsökunarbeiðni gagnvart fórnarlambinu og athugasemdir um fréttina fengjust birtar í blaðinu. Þeim óskum hafnaði ritstjórinn Mikael Torfason alfarið og vísaði allri gagnrýni á bug. Hins vegar sá ritstjórinn sig knúinn til þess að biðja ofbeldismanninn afsökunar í næsta tölublaði á því að hafa kallað fórnarlamb hans „kærustu”! Félagið Trans-Ísland og Samtökin´78 hafa kært umfjöllun blaðsins til siðanefndar Blaðamannafélags Íslands.
Aukið ofbeldi og viðbrögð við því
Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu hefur alvarlegt ofbeldi færst í aukana almennt, en aukið ofbeldi í garð samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks er engu að síður áhyggjuefni. Þau mál sem hér hafa verið nefnd eru því miður ekki tæmandi upptalning. Eins sorgleg og þau hvert um sig eru hafa þau hins vegar vakið upp nokkra umræðu innan hópsins sem aftur hefur leitt til þess að fleiri mál hafa borist forsvarsfólki Samtakanna ´78 til eyrna. Ljóst er að ýmsir í okkar röðum standa veikt að vígi og veigra sér við því við að kæra eða leita sér hjálpar, oft á tíðum vegna þess að þeir óttast að mæta ekki skilningi hjá y
firvöldum eða að upp komist um kynhneigð þeirra. Af þessum sökum þarf að huga sérstaklega að vernd þessara hópa og byggja upp gott samstarf við lögreglu, félagsmálayfirvöld og aðra sem koma að þessum málum. Þá er mikilvægt að koma upplýsingum á framfæri til okkar fólks um það hvernig brugðist skuli við ofbeldi, hvert hægt sé leita eftir hjálp, hvernig kæruferli ganga fyrir sig og fleira því viðkomandi.
Greinin birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í apríl 2007