Skip to main content

Lög um kynrænt sjálfræði tóku gildi 2019 og frá ársbyrjun 2021 hefur staðið til boða hlutlaus kynskráning í þjóðskrá. Það vantar þó upp á innleiðingu laganna með uppfærslu reglugerða svo að lögin hafi tilætluð áhrif og verði eitthvað meira en fögur orð á blaði. Enn er stofnunum og vinnustöðum af ákveðinni stærð til dæmis meinað að gera salernisaðstöðu sína kynhlutlausa, því samkvæmt reglugerðum verða salerni að vera kyngreind. Þetta er þrátt fyrir fjölda fyrirspurna og ákall frá meðal annars Reykjavíkurborg, stúdentahreyfingunni, frá hagsmunasamtökum hinsegin fólks og innan þingmannaliðsins.

Umhverfis- og auðlindaráðherra hefur til að mynda verið með breytingar á reglugerð varðandi almenningssalerni í vinnslu í langan tíma en félags- og barnamálaráðherra virðist lítið ætla að gera varðandi reglur um vinnustaði. Þá ber forsætisráðherra heildarábyrgð á innleiðingu laga um kynrænt sjálfræði samhliða jafnréttismálunum. Það er löngu orðið tímabært að uppfæra reglugerðir í samræmi við breytta tíma og ný lög sem þegar gera ráð fyrir fleiri kynjum en kynjatvíhyggjan gerir.

Um þessar mundir standa yfir ríkisstjórnarmyndunarviðræður og vilja undirrituð hvetja til þess að það verði ávarpað í stjórnarsáttmála að lög um kynrænt sjálfræði verði að fullu innleidd. Það skiptir máli að aukin réttindavernd skili sér í því sem mætir fólki á hverjum degi og hefur því umfangsmikil áhrif á lífsgæði.

Reykjavíkurborg, stúdentahreyfingin og hagsmunasamtök hinsegin fólks hafa beitt sér fyrir því að þessum reglugerðum verði breytt svo að starfsfólk, nemendur og íbúar af öllum kynjum upplifi sig velkomin innan háskóla- og borgarsamfélagsins. Ókyngreind salerni eru mikilvæg rými fyrir breiðan hóp fólks, sem hefur kyntjáningu sem skarast á við samfélagsleg viðmið, hvort sem manneskjan er trans, intersex, kynsegin eða sískynja. Hinsegin fólk með ódæmigerða kyntjáningu mætir mikilli hliðvörslu í kynjuðum rýmum sem gera aðeins ráð fyrir kvenkyni og karlkyni. Það birtist meðal annars í formi öráreitni og fordóma. Kynjuðu rýmin eru óörugg rými fyrir margt hinsegin fólk. Það er okkar ósk að geta boðið upp á ókyngreind salerni og að þau verði ætíð viðmiðið. Til þess að svo megi verða þarf að bregðast við þessum óskum tafarlaust.

Hugmyndir og skilaboð sem ríkið setur fram skipta máli og þegar jafn framsækin og mikilvæg lög og lög um kynrænt sjálfræði líta dagsins ljós þá skiptir máli að hugmyndafræðin og þekkingin sem að baki þeim búa hafi raunveruleg áhrif; á aðra löggjöf, á reglugerðir, á umhverfi og skipulag og daglegt líf þeirra sem lögin snerta. Ríkisstjórnin má ekki vanmeta áhrif sín á þessum sviðum, en í raun komumst við undirrituð ekki lengra í því að bæta stöðu trans fólks og intersex fólks í ákveðnum málum án þess að fá grænt ljós frá ríkisstjórninni. Við óskum hér með eftir þessu græna ljósi og beinum sjónum okkar sérstaklega að umhverfis- og auðlindaráðherra, félags- og barnamálaráðherra og forsætisráðherra sem bera beina ábyrgð á ofangreindum reglugerðum og svo málaflokknum í heild sinni.

Í framhaldinu munu undirrituð óska eftir samtali við viðeigandi ráðuneyti um nauðsynlegar úrbætur.

Með kveðju,

Q – félag hinsegin stúdenta

Stúdentaráð Háskóla Íslands

Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands

Femínistafélag Háskóla Íslands

Mannréttinda-, nýsköpunar- og lýðræðisráð Reykjavíkur

Samtökin ‘78

Trans Ísland