Andi kærleikans, María og samkynhneigðir
Akureyrarkirkja, 25. mars 2007 – boðunardagur Maríu
Ó, Jesú gef þinn anda mér, allt svo verði til dýrðar þér, uppteiknað, sungið, sagt og téð. Síðan þess aðrir njóti með. Amen.
Náð sé með yður og friður, frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi.
Í dag eru níu mánuðir til jóla. Ung kona varð ófrísk. Engill kom til hennar og sagði: Þú munt þunguð verða. Drottinn er með þér. Heilagur andi mun koma yfir þig. Óvenjuleg tíðindi voru flutt inn í afsakaplega hversdagslegar aðstæður. Skilaboð taka sér bólstað hjá fátækri stúlku. Fyrsti vísir að kirkju verður til. Í dag ómar lofsöngur svo heyra má heimur.
Söngur: Lofsöngur ómar svo heyra má heimur
heilagan óðinn af vörum Guðs móður,
andsvarið hennar við himinsins boðum:
Mín önd dásamar Drottin,
hans miskunn varir um eilíf ár
með öllum þeim, sem elska hans nafn.
Hallelúja, hallelúja.
Andsvarið hennar. Hvernig brást María við tíðindunum? Líkt og við flest mundum eflaust gera við það að fá stórfrétt. Hún varð furðu lostin í fyrstu. En María hugleiddi orðin. Upplifun og orð sem snerta við strengjum gefa alltaf tilefni til að staldra við og íhuga. Það er ekki alveg tilviljun að María hefur verið kölluð móðir allra trúaðra. Hún gerði líka það sem er svo mannlegt og eðlilegt í aðstæðunum. Hún spurði spurninganna. Af hverju? Hver er tilgangurinn? Hvernig má þetta verða?
Við efumst, þess vegna spyrjum við. Af hverju ég? Frásögnin af boðun Maríu er vitnisburður um Guð sem er að verki. Hann þráir samfélag við manneskjuna og elskar án skilyrða. Fátæk, ólétt og ógift stúlka hafði nú ekki beinlínis sterka stöðu. Samfélagið var afar karlmiðlægt og fyrirleit stúlku eins og Maríu. En hjá henni var pláss. Andinn spyr einskis. Hann blæs þar sem hann vill. Inn í óvæntar kringumstæður, venjulegar aðstæður, inn í líf fólks. Viðbrögð engilsins við efasemdum og spurningum Maríu var einfalt. Guði er enginn hlutur um megn. Og andsvarið við boðum himinsins er lofsöngur:
Söngur: Samstillt í trúnni með systrum og bræðrum
syngjum vér orð sem María gaf vængi,
fagnandi hlýðin Guðs heilaga anda.
Mín önd dásamar Drottin…
María gaf orðunum vængi. Þetta er vel sagt. Og það ætti að vera hlutverk kirkjunnar á öllum tímum að gefa orðunum vængi. Guð tekur sér stöðu á meðal fólks sem er alla vega statt í lífinu. Og andi hans leitar inn á við. Þess vegna á frásögnin af englinum og Maríu ennþá erindi við samtímann. María opnaði hjartað upp á gátt. Við tók meðganga sem litlar sögur fóru af og svo fæðingin í fjárhúsinu í Betlehem. Þá færist sviðsljósið frá Maríu yfir á drenginn sem átti eftir að eiga viðburðaríka en stutta ævi. Þar fylgir María syni sínum allt til enda, á meðan hann gekk um starfaði, læknaði, kenndi og vann kraftaverk. En líka þegar fólkið hafnaði honum, píndi hann og smáði. Þá var María nærri, horfði upp á son sinn hæddan og deyddan á krossi. Veg sorgar, haturs og grimmdar og vonleysis mátti María upplifa í gegnum barnið sitt. En hún átti líka eftir að upplifa birtu páskanna. Von sem staðfesti orðin sem lagt var upp með. Guði er enginn hlutur um megn.
Í gegnum tíðina hefur Maríu iðulega verið lýst með orðum eins og hlýðin, blíð, mild, undirgefin. Eiginleikar sem gjarnan er vitnað til í góðri trú en stundum líka til að viðhalda ríkjandi ástandi. Kirkjan hefur tekið undir með tíðarandanum í áranna rás sem er karlmiðlægur veruleiki. Þar hefur myndinni af Maríu gjarnan verið teflt fram og því fremur haldið að konum en körlum að feta í fótspor hinnar undirgefnu og hlýðnu. Konan skuli vera á sínum bás.
En tímarnir breytast, samfélagið og kirkjan líka. Mikilvæg skref í átt til aukins jafnréttis hafa verið stigin, þótt enn sé langt í land. Af 63 þingmönnum þjóðarinnar eru aðeins 23 konur, tveir af hverjum þremur fulltrúum á Kirkjuþingi eru karlar, forstjórar stærstu bankanna í landinu eru allir karlar og fyrir sömu vinnu er enn mun líklegra að þú fáir talsvert lakari laun en karlinn við hliðina á þér bara fyrir það eitt að þú ert kona. Kirkjan er mikilvæg rödd inn í þessa umræðu því hún hefur mikilvægan boðskap fram að færa. Það er tímabært að hefja Maríu af þeim stalli sem hún hefur stundum verið sett á af kynslóðunum. Saga Maríu vitnar um hugrakka konu sem tók að sér óvenjulegt hlutverk og kallaði ekki allt ömmu sína. Hún tók hlutunum með æðruleysi og auðmýkt. Enn er því rík ástæða til að halda á lofti þeirri fyrirmynd sem María gaf með lífi sínu. Hvernig hún, fyrirlitin af samfélaginu, tók að sér þýðingarmikið verkefni. Kjörkuð gekk hún leiðina á enda, þrátt fyrir mótlæti og andstreymi. Og það er til eftirbreytni. Ekki bara í jafnréttisumræðu samtímans heldur líka í umgengni okkar hvert við annað. Umhyggjusöm manneskja sem er trú köllun sinni er fyrirmynd handa lifandi kirkju. Konan sem lét ekki bugast af óréttlátu þjóðfélagskerfi sem áleit hana réttdræpa og dæmdi son hennar til dauða fyrir guðlast – hún á erindi við karla jafnt sem konur enn þann dag í dag. Og enn blæs andi kærleikans.
Söngur: Orðið var&e
th; maður, það undur vér tignum.
Andi þinn, Guð, sem Maríu var gefinn,
veki oss lofsöng, er varir um eilífð.
Mín önd dásamar Drottin …
Bandaríska skáldið Walt Whitman orti seint á 19. öld fallegt en afar umdeilt ljóð. Það ber heitið Í mergðinni og er í þýðingu Þorsteins Gylfasonar:
Meðal manna og kvenna í mergðinni
greini ég einn sem gefur mér guðdómleg merki á laun
og þekkir engan annan, enga foreldra, eiginkonu, eiginmann,
bróður, barn sem sé nær sér en ég er,
sumir eru agndofa, en ekki þessi eini – hann þekkir mig.
Já, elskhugi og fullkomni jafningi,
ég ætlaðist til að þú fyndir mig svona eftir óljósum krókaleiðum,
og þegar við mætumst ætla ég að finna þig eins í þér.
Andi kærleikans blæs víða. Kærleikurinn leitar ekki síns eigin heldur einhvers til að elska. Að finna ástina, elskhuga og fullkominn jafningja, er vitnisburður um dýrð Guðs í heiminum okkar. Lífsförunautur sem vill elska, njóta og erfiða með manni er gulls í gildi. Við lærum betur að þekkja okkur sjálf, okkur er kennt að elska alveg á nýjan hátt. Hinn óvenjulegi getnaður sem lýst er í frásögninni af boðun Maríu leiðir líka hugann að mismunandi leiðum í samtímanum fyrir foreldra að eignast barn. Ættleiðing og tæknifrjóvgun hafa gefið fólki nýja von og ómælda hamingju. Fátt gefur jafn mikið og barn inn í líf foreldra sinna. Fjölskyldumynstur eru mismunandi. Við erum ólík en eigum að hafa sömu möguleika og njóta jafnræðis óháð því hvernig við erum. Þess vegna sætir það nokkurri furðu hve lengi samfélagið hefur verið að viðurkenna samkynhneigða og hjúskap þeirra. Ást þeirra og sambúð er sett skör lægra. En af hverju? Stundum þegar umræðan kemst á flug eða þegar þögnin er nánast óbærileg þá er ekki hægt annað en að vera fullur efasemda. Blæs andi kærleikans?
Elías Mar orti út frá frásögn af tveimur karlmönnum sem urðu fyrir barðinu á fordómum heimsins á árum áður. Saga þeirra endaði á því að annan þeirra tók út af togara og hann týndist í hafi. Það varð kvekjan að ljóðinu.
Þeir týndust í hafið,
haf þagnarinnar og gleymskunnar
undir svörtu loftum fordómanna.
En hvaðeina hefur sinn tíma,
og jafnvel haf þagnar og gleymsku
skilar feng sínum
á þessa ókunnu strönd
í dögun nútíma og framtíðar.
Hér stíga þeir upp úr bylgjunum
síungir
síkvikir í skini morgunsins.
Ljóma nýrrar aldar
slær á brosmild andlit þeirra.
Hönd í hönd leiðast þeir í átt til okkar
til að búa hjá okkur
alltaf héðan í frá,
endurheimtir úr hafi.
Réttarbætur á málefnum samkynhneigðra sem lögfestar voru nýlega með þverpólitískri sátt á Alþingi Íslendinga eru mikið fagnaðarefni. Baráttan hefur borgað sig. Löng meðganga og hik þjóðkirkjunnar í málefnum samkynhneigðra eru stílbrot á þessum áfangasigri. Í stað þess að vera leiðandi og draga vagninn, hefur þjóðkirkjan orðið dragbítur í mikilvægri réttindabaráttu. Þeirri þróun verður vonandi snúið við áður en langt um líður. Það er einhver mesti styrkleiki þjóðkirkjunnar að rúma ólíkar skoðanir. En kirkjan má ekki vera fjarverandi, utan þjónustusvæðis eða með allar rásir uppteknar þegar kemur að viðkæmum málum sem snerta líf fólks. Það er nefnilega ekki tíðarandinn sem ógnar kirkjunni eins og stundum er látið í veðri vaka, hættan kemur úr hennar eigin ranni. Því kirkja sem er of upptekin af fortíðinni og heldur á lofti úreltum mannskilningi á það á hættu að verða viðskila samtíma sinn, manneskju dagsins í dag og morgundagsins. Þjóðkirkjan er ekki eitt heldur margt, fjölbreytnin ræður þar ríkjum. Þess vegna rýfur það ekki einingu hennar þótt iðkun og túlkun á mannasetningum, helgisiðum eða kirkjulegum athöfnum séu mismunandi. Samstaðan snýr að sakramentunum, skírn og heilagri kvöldmáltíð og boðun fagnaðarerindisins um Jesú Krist. Virk skoðanaskipti, lifandi og gagnrýnin umræða eru heilbrigðismerki á kirkju.
Fjöldi presta, fjöldi fólks í þjóðkirkjunni vill að hjónabandið verði líka sáttmáli samkynhneigðra. Hjúskapur er skjól utan um elskhuga og fullkomna jafningja, band ástar og trúfesti á milli tveggja einstaklinga sem hafa valið hvor annan. Andspænis lausung, rótleysi og firringu er mikilvægt að hlúa að hjónabandinu sem einni af mikilvægstu grunnstofnun í samfélaginu. Og þar eiga sannarlega samleið pör, samkynhneigð og gagnkynhneigð, því hjónaband á ekki að snúast um kynhneigð heldur kærleika. Hjúskapur er máttarstólpi heimilis og öryggi utan um börnin okkar. Fræðsla og opin umræða um kynhneigð og ólík fjölskyldumynstur þurfa að eiga sér stað á öllum skólastigum, á heimilunum og á vettvangi kirkjunnar. Og þetta er ekki tímabundið átaksverkefni heldur stöðugt viðfangsefni. Í þessu eins og svo mörgu er þögnin er versti óvinurinn.
Boðskapur frelsarans er boðskapur um frelsi undan misrétti, kúgun og hleypidómum. Guð viðurkennir manneskjuna eins og hún er, óháð kyni, kynhneigð, litarhætti eða þjóðerni. Það er þessi skilyrðislausa umvefjandi elska sem gerir erindi kirkjunnar svo mikilvægt. Jafnréttisboðskapur í sinni tærustu mynd. Trú frelsara sínum hlýtur kirkjan að vera sív&
ouml;kul, tilbúin að endurmeta mannasetningar, hefðir og venjur standist þær ekki kröfur kærleikans og réttlætisins. Hjáleiðir frá boðskapnum, þögn eða gleymska eru skæling á innihaldinu. Kirkjan á upphaf sitt hjá Maríu guðsmóður, þegar hún opnaði hjartað upp á gátt. Í því er fordæmið fólgið. Lofsöngur Maríu er leiðin út úr ógöngum þagnar og ótta. Guði er enginn hlutur um megn.
Hönd í hönd leiðast þeir í átt til okkar
til að búa hjá okkur
alltaf héðan í frá,
endurheimtir úr hafi.
Söngur: Mín önd dásamar Drottin,
hans miskunn varir um eilíf ár
með öllum þeim, sem elska hans nafn.
Hallelúja, hallelúja.
Dýrð sé Guði, föður, syni og heilögum anda. Svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda. Amen.
Náðin Drottins vors Jesú Krists, kærleiki Guðs og samfélag heilags anda sé með oss öllum. AMEN.