Skip to main content
search
Uncategorized

Q-ið er hinsegin

By 15. apríl, 2008No Comments

Á aðalfundi félagsins í lok mars var tekin sú ákvörðun að breyta nafninu til frambúðar, úr FSS yfir í Q. Kom þessi breyting í kjölfar endurskilgreiningar á undirtitli félagsins nokkrum mánuðum fyrr, úr ,,félagi samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og trans stúdenta” í ,,félag hinsegin stúdenta”.

Þótti þessi nafnbreyting tímabær, ekki aðeins vegna stefnubreytingarinnar úr STT í hinsegin og því rofinna tengsla milli skammstöfunar og nafns, heldur einnig vegna endurskipulagningar sem nú fer fram innan félagsins. Í sumar mun birtast endurnýjað félag byggt á gömlum og traustum grunni, með nýtt útlit og skýrari stefnu.

Stórt skref stigið

Stefnubreytingin frá STT yfir í hinsegin er stórt skref og felur í sér ákveðna pólitíska afstöðu gagnvart þeirri hagsmunabaráttu sem við erum hluti af. Hvatningin og hugmyndafræðileg undirstaða hennar hefur aðallega fengist í gegnum ANSO, samband hinsegin stúdentafélaga á Norðurlöndunum, og er í takt við þær breytingar sem flest systurfélaga okkar eru einnig að ganga í gegnum.  Hún felst í því að gömlu stimplarnir, samkynhneigðir, tvíkynhneigðir og trans, eru lagðir til hliðar á þessum vettvangi og í staðinn er einblínt á það sem sameinar okkur öll í einum málstað, þ.e. að eitthvað í fari okkar er í andstöðu við það sem samfélagið ætlast til, á skjön við hið gagnkynhneigða forræði, kerfi ótalmargra breyta þar sem aðeins þröng einkunn/afstaða þykir ,,venjuleg” hverju sinni. Og á meðan við erum ekki hluti af því sem er ,,venjulegt”, þá munum við alltaf vera utanveltu og öðruvísi, verða fyrir beinum og óbeinum fordómum, og jafnvel vera með öllu ósýnileg. Því dugar ekki að vera ,,tekin í sátt” eða bara ,,sýnt umburðarlyndi” heldur þarf að ráðast að rót vandans, sem felst í tilhneigingu samfélagsins til að draga fólk í dilka og halda uppi staðalímyndum sem enginn passar inn í.

Þurfum ekki á afmörkuðum skilgreiningum að halda

Félög sem taka upp þessa hugmyndafræði þurfa ekki á afmörkuðum skilgreiningum á félagsmönnum sínum að halda, það er í raun það sem við viljum vinna gegn. Undirstaðan að öllu þessu er að hver manneskja er einstök og á ekki að þurfa að flokka sjálfa sig fyrir einn eða neinn. Við erum eins og við erum.

Einstakt, einfalt og eftirminnilegt

Hugmyndin á bakvið hið nýja nafn ,,Q – Félag hinsegin stúdenta” er í raun sáraeinföld. Nafnið er einstakt, bæði einfalt og eftirminnilegt, og þótti þar að auki ákaflega viðeigandi í ljósi hugmyndafræðinnar á bakvið félagið.  Þessi annkannalegi stafur sem er frekar fjarlægur íslendingum varð ekki aðeins fyrir valinu vegna þess að hann vísar í alþjóðlega hugtakið fyrir hinsegin, Queer, heldur vegna þess að á Íslandi er hann, samkvæmt skilgreiningunni, hinsegin! Hvernig þá? Jú, því að hann er hvergi að finna í íslenska stafrófinu eða í málnotkun, en engu að síður þekkja hann allir, kunna framburðinn á honum og hafa hann þar að auki á lyklaborðinu hjá sér. Þannig er þessi stafur óvenjulegur og öðruvísi, en engu að síður ómissandi. Q-ið stendur ekki aðeins fyrir hinsegin, það er hinsegin.

Margt á döfinni

Eins og áður segir er margt á döfinni hjá félaginu. Við vinnum núna að nýrri vefsíðu og öðru kynningarefni og ætlunin er að hafa það tilbúið í byrjun sumars. Í ágúst heldur Q ráðstefnu í samstarfi við ANSO sem ber heitið ,,A Queer Wonderland” eða ,,Hinsegin Undraland” og koma þáttakendur frá Norðurlöndunum, Eystrasaltslöndunum og Póllandi. Þar er markmiðið að velta fyrir sér spurningunni um hvernig draumasamfélagið okkar lítur út, og útfrá þeim vangaveltum reynum við að útbúa vegvísi um hvert við viljum stefna í framtíðinni. Ráðstefnan verður haldin í vikunni fyrir Hinsegin Daga og verða fjölmargir atburðir og fyrirlestrar opnir fyrir almenning.

Næsta vetur er síðan ætlunin að koma starfinu aftur á fullt eftir frekar viðburðalítinn vetur sem nú er að líða. Við ætlum að sinna fræðslu, alþjóðastarfi og félagsmálum eftir bestu getu og því í nógu að snúast og margt að gera fyrir alla sem taka þátt.

Brynjar Smári
Þessi grein birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í apríl 2008

Leave a Reply