Símaráðgjöfin – 552 7878
Til að taka fyrsta skrefið og nálgast sína líka finnst mörgum mikilvægt að geta rætt um líðan sína og tilfinningar í síma. Símtal til Samtakanna ´78 er oft fyrsta tækifærið til að ræða tilfinningamálin án þess að þurfa að koma fram og segja hver maður er. Hrafnkell Tjörvi Stefánsson, framkvæmdastjóri Samtakanna ´78, hefur langa reynslu af því að ræða við fólk sem veltir fyrir sér eigin kynhneigð og finnst þægilegt að nota símann til að spyrja og fræðast um líf og tilfinningar samkynhneigðra áður en lengra er haldið. Eins færist það í vöxt að aðstandendur notfæri sér símaráðgjöfina vegna þeirra fjölmörgu spurninga sem geta vaknað. Hrafnkell veitir einnig upplýsingar um réttindi samkynhneigðra og leitast við að leiðbeina þeim sem brotið er á vegna kynhneigðar. Hann svarar í síma 552 7878 á skrifstofutíma og fer með öll samskipti sem trúnaðarmál. Símtölin leiða oft til þess að viðkomandi pantar viðtal hjá félagsráðgjöfum Samtakanna ´78.
Á Spurt og svarað getur þú borið upp spurningar og fengið svör.
Félagsráðgjafar
Á vettvangi Samtakanna ´78 starfa félagsráðgjafarnir Anni G. Haugen og Guðbjörg Ottósdóttir, og bjóða upp á viðtöl. Þau eru einkum ætluð samkynhneigðu og tvíkynhneigðu fólki, en aðstandendur þeirra óska einnig oft eftir viðtali til að ræða um sínar tilfinningar og öðlast þekkingu á heimi samkynhneigðra og tvíkynhneigðra. Auk þess geta félagsráðgjafar, námsráðgjafar og sálfræðingar vísað fólki til félagsráðgjafa Samtakanna ´78 eða haft samband við þá til þess að fræðast um félagslega stöðu og tilfinningar lesbía, homma og tvíkynhneigða. Ástæðurnar fyrir því að óska eftir viðtali hjá félagsráðgjafa eru margvíslegar, en óneitanlega eru þær oft litaðar af kvíða, angist og sektarkennd sem erfitt getur verið að ræða um við nánustu aðstandendur og vini. Hvernig á ég að segja öðrum frá samkynhneigð minni, hvernig tekst ég á við kvíða minn, hvernig á ég að glíma við áhyggjur af barni mínu, hvaða leiðir eru færar samkynhneigðum sem vilja eignast börn? Og er þá fátt eitt nefnt af slíkum spurningum. Einnig leiðbeinir félagsráðgjafinn fólki um kerfið, réttindi þess og fleira. Mest er hægt að biðja um þrjú viðtöl í sömu lotu og því ekki boðið upp á meðferð. Ef þörf krefur geta félagsráðgjafarnir hins vegar veitt upplýsingar um áframhaldandi meðferð hjá öðrum sérfræðingum. Viðtölin eru ókeypis og einungis er hægt að panta viðtal hjá framkvæmdastjóra félagsins.
Fræðslufulltrúi
Sara Dögg Jónsdóttirer fræðslufulltrúi Samtakanna ´78. Hún er kennari að mennt og starf hennar beinist einkum að því að fræða og aðstoða þær starfsstéttir sem sinna uppeldi, menntun og sálgæslu. Sara býður upp á fundi og umræður með kennurum, námsráðgjöfum og skólastjórnendum á grunnskóla- og framhaldsskólastigi.
Í yfir tvo áratugi hafa Samtökin ´78 boðið upp á fræðslufundi fyrir nemendur í grunn- og framhaldsskólum. Þeir fela það í sér að fræða og upplýsa nemendur um það hvað það er að vera samkynhneigður eða tvíkynhneigður og hvernig beri að taka á umræðum um samkynhneigð og tvíkynhneigð. Slíkir fundir hafa reynst afar vel enda eru í hverjum skóla nemdendur sem eru eru að gera sér grein fyrir kynhneigð sinni. Þá er ekki síður mikilvægt að upplýsa gagnkynhneigða nemendur um það hvernig þeir geta best stutt við bakið á samkynhneigðum og tvíkynhneigðum vinum og skólafélögum sínum.
Fræðslufundirnir kosta 4000 krónur.