Í tilefni af Evrópuári jafnra tækifæra hafa Samtökin ´78 í samvinnu við félags- og tryggingamálaráðuneytið gefið út bæklinginn undir yfirskriftinni „Reaching out“ . Hann er ætlaður samkynhneigðu, tvíkynhneigðu og transgender fólki sem búsett er á Íslandi en sem hefur ekki íslensku að móðurmáli. Á Íslandi býr töluvert stór hópur fólks sem kemur frá löndum þar sem félagsleg og lagaleg staða hinsegin fólks er óljós og ótrygg. Markmið bæklingsins er að ná til þessa hóps og upplýsa hann um lagalega og félagslega stöðu sína hér á landi.
Í tilefni af Evrópuári jafnra tækifæra hafa Samtökin ´78 í samvinnu við félags- og tryggingamálaráðuneytið gefið út bæklinginn undir yfirskriftinni „Reaching out“ . Hann er ætlaður samkynhneigðu, tvíkynhneigðu og transgender fólki sem búsett er á Íslandi en sem hefur ekki íslensku að móðurmáli.
Á Íslandi býr töluvert stór hópur fólks sem kemur frá löndum þar sem félagsleg og lagaleg staða hinsegin fólks er óljós og ótrygg. Markmið bæklingsins er að ná til þessa hóps og upplýsa hann um lagalega og félagslega stöðu sína hér á landi. Í bæklingnum eru ýmis úrræði tilgreind fyrir þá sem þurfa á aðstoð að halda, svo sem hvar hægt er að leita sér hjálpar auk annarra gagnlegra upplýsinga sem snerta hinsegin fólk almennt. Samtökunum ´78 eru gerð skil og þeirrar þjónustu sem þau veita. Bæklingurinn er á fjórum tungumálum; pólsku, litháísku, ensku og tailensku og kemur út í 5.000 eintökum.
Fjölmargar stofnanir og félagasamtök tóku þátt í Evrópuári jafnra tækifæra, en verkefninu er ætlað að berjast gegn hvers konar mismunun og fagna því að ekki eru allir eins, með það að markmiði að samfélagið verði umburðarlyndara og víðsýnna. Dýrmætasta auðlind Evrópu er fjölbreytileiki fólksins. Hins vegar eru margir sviptir rétti til jafnra tækifæra vegna kynþáttar, uppruna, trúar, lífsskoðunar, fötlunar, kyns, aldurs og kynhneigðar. Með bæklingnum leggja Samtökin ´78 sitt af mörkum til þess að vinna að víðsýnna og upplýstara samfélagi og tryggja að fólk búsett á Íslandi en sem ekki hefur íslensku að móðurmáli fái notið fyllstu réttinda sinna í íslensku samfélagi.
Mynd: Frosti Jónsson formaður Samtakanna ´78 afhenti Jóhönnu Sigurðardóttur félagsmálaráðherra fyrsta eintakið af bæklingnum.