Skip to main content
Uncategorized

Regnbogafáninn

By 22. janúar, 2001No Comments

Árið 1978 hannaði og saumaði San Francisco-búinn Gilbert Baker fána með röndum regnbogans. Litirnir áttu að tákna samfélag samkynhneigðra. Á tuttugu árum hefur fáninn orðið þekktari sem tákn þeirra en bleiki þríhyrningurinn sem um langt skeið hefur verið notaður í réttindabaráttunni.

Sögu bleika þríhyrningsins má rekja til Þýskalands nasismans þegar hommar voru látnir bera merki með bleikum þríhyrningi í fangabúðum nasista. Árið 1989 vakti regnbogafáninn þjóðarathygli í Bandaríkjunum þegar leigjandi vann mál gegn leigusala sem hafði bannað honum að flagga fánanum af svölum íbúðar sinnar í Vestur-Hollywood. Nú er regnbogafáninn viðurkenndur af Alþjóðlegu fánanefndinni og blaktir við hún á hátíðisdögum samkynhneigðra um allan heim.

Litir hafa löngum verið mikilvægir í sögu lesbía og homma. Á Viktoríutímanum í Englandi var græni liturinn tengdur við samkynhneigð. Fjólublár varð tákn fyrir baráttu samkynhneigðra seint á sjöunda áratugnum og vinsælt slagorð þeirra tíma var „Purple Power“. Bleikt er eins og áður var nefnt liturinn í bleika þríhyrningnum og hefur líka á ýmsum tímum átt samleið með samkynhneigðum. Gilbert Baker notaði upphaflega átta liti í fánann sinn: bleikan, rauðan, appelsínugulan, gulan, grænan, bláan, indigo og fjólubláan. Baker sagði þessa liti tákna kynhneigð, líf, lækningu, sól, náttúru, list, jafnvægi og anda, og að þeir vísuðu í landið handan regnbogans í Galdrakarlinum í Oz. Þegar Baker hélt af stað með fyrsta fánann sem hann hafði saumað og litað í höndunum í fánaverksmiðju til þess að láta fjöldaframleiða hann, reyndist liturinn „hot pink“ ekki vera fáanlegur. Fyrsta útgáfa fánans var því með sjö röndum.

Kristín Ómarsdóttir og Þröstur Brynjarsson

Tilvitnun er heimil sé heimildar getið

 

Leave a Reply