Skip to main content
search
Uncategorized

Predikun í Regnbogamessu 2005

By 22. maí, 2005No Comments

Sunnudaginn 22. maí 2005 var haldin svokölluð Regnbogamessa í Laugarneskirkju. Þar sameinuðust söfnuðirnir þrír umhverfis Laugardalinn – Langholts-, Ás- og Laugarnessöfnuðir – í almennri kvöldmessu og kölluðu lesbíur og homma og fjölskyldur þeirra sérstaklega til þessarar stundar. Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf, ÁST, stóð einnig að athöfninni. Regnboginn táknar sáttmálann milli Guðs og manna, hann brúar bilið á milli manna sem fordómar og hræðsla valda, hann felur í sér fyrirheit fjölbreytileikans og hann táknar samfélag samkynhneigðra.

Þetta var önnur Regnbogamessan sem haldin er í Reykjavík og í athöfninni predikaði Hildur Eir Bolladóttir, en hún lauk guðfræðiprófi frá Háskóla Íslands vorið 2005 og birtist ræða hennar hér.

 

Guðspjall dagsins
Jóhannes 14. 15–21.
Ef þér elskið mig, þá munuð þér halda boðorð mín. Og ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir. Þér þekkið hann af því að hann dvelur hjá yður og er í yður. Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar. Innan skamms mun heimurinn ekki sjá mig framar, en þér munuð sjá mig, því að ég lifi og þér munuð lifa. Á þeim degi munuð þér komast að raun um, að ég er í föður mínum, og þér í mér og ég í yður.

Náð sé með yður og friður frá Guði föður vorum og Drottni Jesú Kristi. Amen.
Ég elska þig, sagði Guð við þig, þegar hann sendi Orðið inn í heiminn. Því Orðið varð hold, hann bjó með okkur, fullur náðar og sannleika.

Ég elska þig, sagði Guð, þegar Orðið bar krossinn upp Golgatahæð.

Ég elska þig, sagði Guð, þegar hann sendi þér heilagan anda til þess að þú sem kirkja mættir tala sannleikann inn í samtímann.

Í texta guðspjallsins horfum við á fyrstu móttakendur Orðsins standa skelfingu lostin frammi fyrir verkefni sem þau telja sig ekki valda. Ég mun biðja föðurinn, og hann mun gefa yður annan hjálpara, að hann sé hjá yður að eilífu, segir Kristur, anda sannleikans, sem heimurinn getur ekki tekið á móti, því hann sér hann ekki né þekkir.

Berðu saman í huganum stöðu okkar, kirkjunnar í dag og stöðu lærisveinanna sem tóku fyrst við því verkefni að tala sannleikann inn í heim sem ekki hafði heyrt þennan nýja boðskap, já til dæmis þann boðskap að elska náungann eins og þig sjálfa, að elska óvin þinn og biðja fyrir þeim sem ofsækir þig, að bjóða hina kinnina slái þig einhver á hægri kinn, að ganga tvær mílur með þeim sem neyðir þig með sér eina, að læra auðmýkt af liljum vallarins og af fuglum himinsins. Og nú eru liðin rúm 2000 ár og samt líður okkur oft eins og fyrstu lærisveinunum, því sannleikurinn þarfnast alltaf hugrekkis. Þjóðfélagið sem fyrstu móttakendur sannleikans bjuggu í var á ýmsan hátt ólíkt okkar samtíma, og þó ekki. Konur í dag horfa með hryllingi til stöðu kynsystra sinna á tímum Jesú þegar viðmið og gildi samfélagsins voru fyrst og síðast mótuð að þörfum karlmanna. En er það ekki veruleiki sem enn blasir víða við nú rúmum 2000 árum síðar? Reynslan er ólík, jafnréttisbarátta kvenna á Íslandi í dag snýr helst að launamisrétti og stöðuveitingum í atvinnulífinu á meðan jafnréttisbarátta kvenna í þriðja heiminum snýst meðal annars um það að fá að ráða yfir eigin líkama. En þó að reynslan sé ólík snýst baráttan alltaf um mannréttindi.

Og, við lesum einnig frásagnir af einangraðri og fyrirlitinni stöðu innflytjenda í Biblíunni. Hver er veruleiki samtímans? Innflytjendur í dag eru einangraðir vegna þess að það krefst hugrekkis að vera gestrisinn og deila kjörum með nýjum íbúum.

Við lesum texta úr Biblíunni sem fordæma kynlíf fólks af sama kyni. Í 1. kafla Rómverjabréfsins talar Páll postuli um kynlíf fólks af sama kyni sem refsingu Guðs vegna óhlýðni mannsins. Það er mikilvægt að veita því eftirtekt að Páll er ekki að tala um samkynhneigð heldur kynlíf tveggja aðila af sama kyni. Og um það talar hann ekki sem orsök, heldur afleiðingu, og afleiðingu hvers? Jú, sem afleiðingu hjáguðadýrkunar. Páll þekkti ekki samkynhneigð sem gagnkvæma ást og virðingu tveggja jafningja, hann var mótaður af samfélagi sem lagði ríka áherslu á skýra hlutverkaskipan kynjanna. Karlmaðurinn var höfuð konunnar, konan var vegsemd mannsins. Því var það talin vera fullkominn skömm og niðurlæging fyrir karlmann að taka sér undirgefna stöðu konunnar í kynlífi með öðrum karlmanni, af því að jafnræði í kynlífi var óhugsandi. Á sama hátt var það ekki talið konu sæmandi að leika hlutverk karlmannsins, hins æðra kyns, í kynlífi tveggja kvenna.

Sumir segja að Biblían hafi ekkert jákvætt við samkynhneigt fólk að segja. Og aðrir telja að Biblían hafi heldur ekkert við konur að segja, hún sé fyrst og fremst bók sem fjalli um karlmenn og tali því eingöngu inn í þeirra aðstæður.

En Biblían er heil veröld sem greinir frá öllum hliðum mannlegs lífs, hún greinir frá stórum sigrum en líka frá grófu ofbeldi og ranglæti. En þá kom þessi maður, Jesús frá Nasaret, sonur Guðs. Hann kemur í heiminn og tal
ar nýjan sannleika inn í þjóðfélag sem glímir við deyðandi vald, já, vald sem hefur kennt hinum undirgefnu að trúa stöðu sinni. En vald Jesú er lífgefandi, það er vald sem opnar augu manneskjunnar fyrir réttlæti og réttlæti Jesú Krists er sannleikurinn um lífið.

En hvað er réttlæti Jesú Krists? Og hver er sannleikur hans? Það er Jesús Kristur í aðstæðum manneskjunnar, það er Hann sem afhjúpaði ranglætið sem hefðin hafði deyft manneskjuna með og blindað. Jesús frá Nasaret talaði til kvenna, innflytjenda, samkynhneigðra, með nýju valdi, hinu lífgefandi valdi sem er kærleikur Guðs.

Fæðing kirkjunnar, já, þarna stóðu þau í örvæntingu yfir því að Jesús, leiðtogi þeirra sem hafði breytt lífi allra sem hann mætti, væri að kveðja.

Og hann felur þeim ljósmóðurhlutverkið því þau eiga að hjálpa kirkjunni í heiminn, styðja hana, taka á móti henni í nýjum aðstæðum. Þau hafa séð hann að verki, hlýtt á orðin hans og nú er komið að þeim að tala sannleikann inn í heim sem hefur hvorki heyrt né séð. Verkið sem hann felur þeim krefst hugrekkis og trúar. En Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus, segir Jesús. Ég kem til yðar. Og það gerði hann, í anda sannleikans, heilögum anda, kraftinum sem býr yfir eðli Jesú Krists, eðlinu undursamlega sem er lífæð kirkjunnar. Kirkja án Heilags anda er ekki kirkja heldur steyptur minnisvarði um það líf sem hefði getað orðið, og kirkja, sem er meðvirk með hefðinni, er kirkja sem hefur týnst í eftirfylgdinni við Jesú Krist, því hún er hrædd. En kirkja sem starfar í krafti heilags anda er afl sem sigrar óréttlæti með réttlæti og lygi með sannleika, afl sem horfir aldrei framhjá manneskjunni.

Hvers konar kirkja erum við í dag? Erum við kirkja sem tökum áhættu eða erum við meðvirk kirkja? Erum við kirkja, samfélag sem tökum frumkvæði í málefnum minnihlutahópa? Eða erum við kirkja með fortíðarþrá, kirkja sem skilur ekki hvað það merkir að fæðast að nýju? Ekki frekar en Nikódemus forðum, blessaður gamli maðurinn, sem hélt að hann þyrfti að komast aftur inn í líf móður sinnar til að fæðast að nýju og sjá Guðs ríki.

Viljum við ekki vera kirkja sem fæðist að nýju inn í samtímann, kirkja sem talar sannleika Jesú inn í aðstæður manneskjunnar í dag, náunga okkar, sem líður vegna þess hver hann eða hún er. Já, vegna þess að hún er kona, hann er útlendingur, hún er lesbía, hann er hommi. Jesús sagði við Nikódemus: Yður ber að fæðast að nýju. Vindurinn blæs þar sem hann vill, og þú heyrir þyt hans. Samt veistu ekki, hvaðan hann kemur eða hvert hann fer. Svo er um þann sem af andanum er fæddur. Já, svo er um þann sem af andanum er fæddur, hann leiðist af anda sem blæs þar sem sannleikans er þörf, þannig var og er Kristur, talaði réttlætið þar sem réttlætisins var þörf.

Kirkjan hefur lifað í rúm 2000 ár, í dag er oft talað um kirkju í krísu. Síðastliðin ár hefur fjölhyggja nútímans haft hlutverk blóraböggulsins, fjölhyggja samfara fjölmenningu. En getur það virkilega verið að breytt heimsmynd sé endadómur kirkjunnar. Hvers vegna ætti fjölmenning að ógna stöðu kristinnar kirkju? Ég held satt að segja að það besta sem hafi komið fyrir kristna kirkju í langan tíma sé aðhald fjölmenningarinnar og fjölhyggjunnar. Nú þurfum við sem aldrei fyrr að fara að lesa Biblíuna upp á nýtt. Nú þurfum við að losa okkur undan valdi hefðarinnar og lesa Biblíuna með nýjum gleraugum, gleraugum reynslunnar. Við getum ekki lengur matreitt boðskap Jesú Krists eftir viðmiðum og gildum vestrænnar menningar, því sannleikur Jesú er sannleikur alls heimsins.

Við berum enn ljósmóðurhlutverkið, við tökum á móti kirkjunni í fæðingu nýs tíma, og heilagur andi er enn að verki. Sannleikur Jesú Krists er enn hið lífgefandi vald. Sannleikurinn sem er réttlætið í mynd kærleikans, já, kærleikans sem er langlyndur, góðviljaður, öfundar ekki, hreykir sér ekki upp, gleðst ekki yfir óréttvísinni en samgleðst sannleikanum, kærleikans sem breiðir yfir allt, trúir öllu, vonar allt, umber allt, kærleikans sem fellur aldrei úr gildi.

Ég elska þig, segir Guð við þig, Ekki mun ég skilja yður eftir munaðarlaus. Ég kem til yðar.

Dýrð sé Guði föður og syni og heilögum anda, svo sem var í upphafi er og verður um aldir alda amen

Leave a Reply