LÁVARÐADEILD brezka þingsins samþykkti sl. þriðjudag ný lög um ættleiðingar, sem meðal annars heimila samkynhneigðum pörum, svo og gagnkynhneigðum pörum í óvígðri sambúð, að sækja um heimild til að ættleiða börn. Lögin tóku gildi í gær, föstudag. Lávarðadeildin hafði áður hafnað þessu ákvæði frumvarpsins.
Neðri deild þingsins samþykkti það þá öðru sinni með yfirgnæfandi meirihluta. Mannréttindanefnd þingsins komst aukinheldur að þeirri niðurstöðu að bann við því að samkynhneigð eða ógift pör ættleiddu börn í sameiningu væri brot á grundvallarmannréttindum og færi í bága bæði við barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og mannréttindasáttmála Evrópu, sem Bretland ætti aðild að. Þegar þetta lá fyrir, breytti lávarðadeildin afstöðu sinni.
Bretland er þriðja Evrópuríkið, sem leyfir ættleiðingar samkynhneigðra para, en hún er jafnframt heimil í nokkrum ríkjum Bandaríkjanna. Í Hollandi hefur samkynhneigðum pörum verið heimilt um nokkurt skeið að ættleiða börn innanlands að uppfylltum sömu ströngu skilyrðum og öðrum eru sett, en ekki frá útlöndum. Í sumar samþykkti sænska þingið með miklum meirihluta breytingu á lögum um staðfesta samvist samkynhneigðra, þannig að samkynhneigð pör geta nú sótt um að fá að ættleiða börn, rétt eins og gagnkynhneigð hjón eða sambýlisfólk. Þetta á jafnt við um ættleiðingar innan Svíþjóðar og frá öðrum löndum. Í upphaflegu frumvarpi sænsku stjórnarinnar var ákvæði um að konum í staðfestri samvist yrði heimilað að sækjast eftir tæknifrjóvgun en þinglegri meðferð þess var frestað vegna lagatæknilegrar óvissu um faðerni í slíkum málum.
Fordómar á undanhaldi
Hér á landi hafa fordómar gagnvart samkynhneigðum verið á undanhaldi á undanförnum árum, rétt eins og í nágrannalöndunum. Fordómar spretta alla jafna af þögn og fáfræði og með aukinni fræðslu og umræðum hefur fólk upp til hópa áttað sig á því að það er ekkert óeðlilegt við það að sumir séu einfaldlega þannig af Guði gerðir að þeir fella ástarhug til einstaklinga af sama kyni. Samkynhneigð er hluti af sköpunarverkinu og hommar og lesbíur eru ekki óeðlilegir einstaklingar frekar en örvhentir eða græneygðir. Bábiljur á borð við að samkynhneigð sé sjúkdómur, sem megi lækna, eða lærð hegðun, sem megi venja fólk af, eru á hröðu undanhaldi.
Til samræmis við þessa þróun hefur smátt og smátt dregið úr því lagalega misrétti, sem samkynhneigðir hafa mátt búa við. Mikilvægir áfangar hafa náðst í þeim efnum síðastliðinn áratug og Ísland er nú í hópi þeirra landa, sem hvað lengst hafa gengið í að tryggja mannréttindi þegnanna að þessu leyti. Fyrir tíu árum var mismunun hvað varðaði samræðisaldur afnumin. Fjórum árum síðar bætti Alþingi kynhneigð við upptalningu í ákvæðum hegningarlaga um bann við mismunun eða opinberri árás á fólk á grundvelli þjóðernis, litarháttar, kynþáttar og trúarbragða. Sama ár samþykkti þingið lög um staðfesta samvist fólks af sama kyni. Staðfest samvist er jafngild hjónabandi gagnkynhneigðra og fylgja henni sömu réttindi og skyldur, þó með mikilvægum undantekningum. Þannig má par í staðfestri samvist ekki ættleiða barn og lög um tæknifrjóvganir ná ekki yfir konur í staðfestri samvist. Þá mega eingöngu borgaralegir vígslumenn, þ.e. sýslumenn og fulltrúar þeirra, gefa fólk saman í staðfesta samvist, en prestar og forstöðumenn trúfélaga mega gefa saman hjón.
Fyrir tveimur árum var gerð breyting á lögunum um staðfesta samvist, þannig að stjúpættleiðing er heimiluð, þ.e. öðrum maka heimilað að ættleiða barn hins, nema um sé að ræða kjörbarn frá öðru landi. Við þessa breytingu á lögunum var reyndar gerð sú handvömm, að eingöngu var gert ráð fyrir að einstaklingar í staðfestri samvist gætu hafa eignazt börn áður en til samvistarinnar var stofnað. Ákvæði um að lög um tæknifrjóvgun gildi ekki um staðfesta samvist, koma hins vegar ekki í veg fyrir að kona í staðfestri samvist verði barnshafandi eins og íslenzk dæmi eru til um, t.d. með því að fara í tæknifrjóvgun erlendis þar sem slíkt er heimilt. Í slíkum tilfellum, þar sem barn fæðist í staðfestri samvist, gera yfirvöld þá kröfu að makinn sæki um stjúpættleiðingu með tilheyrandi umstangi, í stað þess að teljast sjálfkrafa foreldri barnsins eins og á við þegar barn fæðist í hjónabandi eða óvígðri sambúð.
Fyrir utan þessi atriði er talsverður munur á réttarstöðu gagnkynhneigðs fólks í óvígðri sambúð og samkynhneigðra í svokallaðri óstaðfestri samvist.
Tillaga á þingi um jöfnun réttinda
Nú er til meðferðar á Alþingi tillaga til þingsályktunar frá þingmönnum allra flokka, þar sem lagt er til að stofnuð verði nefnd til að kanna réttarstöðu samkynhneigðs fólks og skoða þau atriði, sem voru nefnd hér að ofan. Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, en auk hennar flytja málið sjálfstæðismennirnir Einar K. Guðfinnsson og Þorgerður K. Gunnarsdóttir, Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar, framsóknarmennirnir Hjálmar Árnason og Jónína Bjartmarz, Kolbrún Halldórsdóttir og Ögmundur Jónasson úr hópi vinstri grænna og báðir þingmenn Frjálslynda flokksins, þeir Sverrir Hermannsson og Guðjón A. Kristjánsson.
Flutningsmenn leggja til að Alþingi feli ríkisstjórninni að skipa nefnd til að gera úttekt á réttarstöðu samkynhneigðs fólks á Íslandi. „Skal nefndin jafnframt gera tillögur um úrbætur og nauðsynlegar aðgerðir til þess að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu,“ segir í tillögunni. Gert er ráð fyrir að í nefndinni sitji fulltrúar forsætisráðuneytisins, félagsmálaráðuneytisins, heilbrigðis- og tryggingaráðuneytisins, menntamálaráðuneytisins, dómsmálaráðuneytisins og hagsmunasamtaka samkynhneigðra. Lagt er til að nefndin skili Alþingi skýrslum og tillögum eigi síðar en 15. janúar 2004.
Í greinargerð með tillögu þingmannanna segir að hér á landi hafi verið stigin mjög mikilvæg skref í þá átt að jafna stöðu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra í samfélaginu. „Enn vantar þó nokkuð upp á að fullt jafnræði sé til staðar á þessu sviði og er afar brýnt að bæta þar úr. Koma hér fyrst og fremst til álita tvö atriði, í fyrsta lagi réttur samkynhneigðra til að eignast og ala upp börn og í öðru lagi réttarstaða samkynhneigðra í sambúð,“ segir þar.
Þingmennirnir vitna til skýrslu dómsmálaráðherra um réttarstöðu sambúðarfólks, sem lögð var fyrir Alþingi fyrir tveimur árum. Þeir benda á að þar komi fram að mikil óvissa sé um hvort og á hvaða réttarsviðum sé unnt að leggja að jöfnu sambúð gagnkynhneigðra og samkynhneigðra og rétt sé að leggja áherzlu á að þetta snerti bæði réttindi og skyldur samkynhneigðra í sambúð:
„Á sumum réttarsviðum njóta samkynhneigðir lakari réttinda, þ.e. njóta ekki þess hagræðis sem löggjafinn ætlar gagnkynhneigðu fólki í óvígðri sambúð. Má hér nefna sem dæmi rétt til að krefjast opinberra skipta vegna sambúðarslita samkvæmt ákvæðum laga um skipti á dánarbúum o.fl., nr. 20/1991, rétt til að telja fram saman samkvæmt ákvæðum laga um tekjuskatt og eignarskatt, nr. 75/1981, og brottfall erfðafjárskatts þegar gerð er erfðaskrá til hagsbóta fyrir langlífari sambúðarmaka samkvæmt lögum um erfðafjárskatt, nr. 83/1984. Í öðrum tilvikum verður að telja að litið sé á samkynhneigða í sambúð sem einstaklinga sem aftur leiði til þess að þeir njóti sterkari stöðu en gagnkynhneig
ðir í óvígðri sambúð. Þannig hefur verið talið að fólk í hjúskap eða sambúð þurfi minna sér til framfærslu en sá sem býr einn og gerður hefur verið nokkur munur á greiðslum til einstaklinga úr opinberum sjóðum eftir því hvort viðkomandi er í sambúð eða ekki. Sambúðarstaða hefur þannig t.d. áhrif á ákvörðun vaxtabóta, barnabóta og bóta samkvæmt lögum um almannatryggingar.“
Í umfjöllun sinni um ættleiðingar samkynhneigðra benda þingmennirnir á að afstaða samfélagsins til barna í fjölskyldum samkynhneigðra hafi breytzt undanfarin ár og málefnið hafi verið ofarlega í umræðu á öllum Norðurlöndunum. „Nauðsynlegt er í vinnu þeirrar nefndar sem lagt er til að hér verði skipuð að hún skoði vel þróun þessara mála, annars staðar á Norðurlöndum og víðar í Evrópu, með það að markmiði að styrkja réttarstöðu samkynhneigðra,“ segja Guðrún Ögmundsdóttir og meðflutningsmenn hennar.
Það er brýnt að þessi tillaga verði samþykkt á Alþingi og mismunandi réttarstaða samkynhneigðra og gagnkynhneigðra skoðuð ofan í kjölinn. Ekki er síður þörf á upplýstri umræðu um forsendurnar fyrir þeirri mismunun, sem samkynhneigðir verða enn að búa við.
Eru samkynhneigðir slæmir foreldrar?
Í ljósi þróunar mála í Hollandi, Svíþjóð og Bretlandi hljóta slíkar umræður ekki sízt að snúast um rétt samkynhneigðra til að ættleiða börn og nýta sér tæknifrjóvgun og hvaða rök séu fyrir þeim takmörkunum, sem nú eru á þeim rétti. Við síðustu lagfæringar á lögum um ættleiðingu og staðfesta samvist hafa þingmenn ekki verið reiðubúnir að fella þessar takmarkanir úr gildi. Þau rök hafa gjarnan verið höfð í frammi að með þessum takmörkunum sé verið að verja hagsmuni barna. Að baki slíkum röksemdum hlýtur að liggja sú skoðun að samkynhneigðir geti ekki verið jafngóðir foreldrar og aðrir. Spurningin er hvort þessi rök standist skoðun.
Þeir, sem eru andvígir því að samkynhneigðir ættleiði börn, segja gjarnan sem svo að með því sé ekki nægur stöðugleiki tryggður í lífi barnanna, sambönd samkynhneigðra séu of stopul. Renna einhverjar staðreyndir stoðum undir þetta? Af hverju er gagnkynhneigðu pari í óvígðri sambúð heimilt að sækja um ættleiðingu, en ekki samkynhneigðu pari í staðfestri samvist, þótt síðarnefnda parið hafi tekizt á hendur mun ríkari skuldbindingar og stöðugleikinn í sambandinu ætti að vera þeim mun meiri? Samfélagið samþykkir – eða lætur a.m.k. óátalið – að fólk eignist börn að óyfirveguðu ráði, jafnvel eftir skyndikynni sem aldrei áttu að leiða til barneigna, því síður til sambúðar eða hjónabands. Af hverju ættum við að amast við því að fólk í staðfestri samvist, sem er reiðubúið að leggja á sig alla þá fyrirhöfn og erfiði, sem fylgir því að fá leyfi til að ættleiða barn eða gangast undir tæknifrjóvgun, fái að verða foreldrar?
Önnur algeng röksemd er að börn þurfi fyrirmyndir af báðum kynjum, en þær sé ekki að hafa í samkynhneigðum samböndum. Af hverju er þá einhleypum heimilt að sækja um ættleiðingu? Þegar einhleypir einstaklingar sækja um að fá að ættleiða barn er yfirleitt lögð áherzla á að þeir geti sýnt fram á að það muni hafa tiltækar, t.d. innan nánustu fjölskyldu, góðar fyrirmyndir af báðum kynjum. Er ekki einfalt mál að gera sömu kröfu til samkynhneigðs pars? Raunar felst sú undarlega þversögn í núgildandi lögum að einhleypur, samkynhneigður einstaklingur getur sótt um leyfi til ættleiðingar en ef hann festir ráð sitt, missir hann þann rétt sinn. Svo má spyrja hvort það sé meiri hætta á að börn samkynhneigðra skorti fyrirmyndir af báðum kynjum en þau nærri 15.000 börn á Íslandi, sem búa hjá einstæðum foreldrum. Sum þeirra barna þekkja ekki annað foreldri sitt eða sjá það sjaldan eða aldrei. Er ekki betra að eiga t.d. tvær mömmur en engan pabba?
Sumir halda því fram að „hætta“ sé á því að börn, sem alast upp hjá samkynhneigðum pörum, verði sjálf samkynhneigð. Sömuleiðis er því haldið fram að vegna fordóma gegn samkynhneigðum geti börn þeirra orðið fyrir stríðni og einelti í meira mæli en önnur börn. Röksemdir af þessu tagi, sem yfirleitt eru settar fram undir þeim formerkjum að verið sé að hugsa um hag barnanna, opinbera aðallega fordóma þeirra, sem hafa þær uppi.
Það gleymist stundum, að fjölmargir samkynhneigðir einstaklingar eiga börn – áætlað hefur verið að hér á landi eigi allt að 1.000 börn samkynhneigða foreldra – og engar rannsóknir, sem gerðar hafa verið á högum þessara barna, renna stoðum undir að þau eigi erfiðara uppdráttar en önnur. Í mörg hundruð blaðsíðna skýrslu þingmanna- og sérfræðinganefndar, sem lagði grundvöllinn að ákvörðun sænska þingsins sl. sumar, er farið rækilega yfir fjöldann allan af rannsóknum á börnum, sem alast upp hjá samkynhneigðum pörum. Niðurstaða nefndarinnar, en til hennar er m.a. vitnað í greinargerðinni með áðurnefndri þingsályktunartillögu, er að það sé enginn munur á getu samkynhneigðra og gagnkynhneigðra foreldra til að veita börnum sínum umhyggju og gott uppeldi. „Börn samkynhneigðra foreldra þróast sálrænt og félagslega með sambærilegum hætti og börn gagnkynhneigðra foreldra. Enginn munur hefur heldur komið fram hvað varðar þróun kynhneigðar barnanna,“ segir í niðurstöðum nefndarinnar.
Þeir, sem hafa áhyggjur af því að börnum samkynhneigðra sé strítt eða að þau líði hugsanlega fyrir eigin samkynhneigð, ættu fremur að beita sér fyrir því að útrýma fordómum gagnvart samkynhneigð en reyna að hindra að samkynhneigt fólk eignist börn.
Loks hefur sú röksemd verið nefnd, að það geti gert gagnkynhneigðum hjónum, sem vilja ættleiða börn frá útlöndum, erfiðara fyrir, verði samkynhneigðum leyft að sækja um að fá að ættleiða. Þetta atriði var mikið til umræðu í Svíþjóð í vor og hlaut ýtarlega skoðun. Nefndin, sem áður var getið, komst að þeirri niðurstöðu að tveir alþjóðlegir samningar um ættleiðingar milli landa, Haag-samningurinn frá 1993 og Evrópusamningur frá 1967, gerðu eingöngu ráð fyrir að gift hjón eða einhleypir gætu ættleitt börn, en það stæði þó ekki í vegi fyrir því að lagabreytingin yrði gerð í Svíþjóð. Nefndin lagði til að síðarnefnda samningnum yrði sagt upp, enda hefði hann ekki skilað árangri og mörg Evrópuríki ættu ekki aðild að honum.
Þá gerði nefndin könnun hjá 25 ríkjum, þaðan sem flest börn voru ættleidd til Svíþjóðar árið 1999. Svör bárust frá 17 ríkjum og voru þau öll á þann veg að þessi ríki myndu ekki leyfa að samkynhneigð pör ættleiddu þarlend börn. Hins vegar svaraði eingöngu eitt ríki, Lettland, því til að lagabreyting í Svíþjóð myndi hugsanlega gera gagnkynhneigðum pörum erfiðara fyrir að fá börn til ættleiðingar. Sænska þingið samþykkti að gera könnun á áhrifum lagabreytingarinnar ári eftir að hún tæki gildi til að komast að raun um hvort hún hefði einhver áhrif á möguleika fólks til að ættleiða börn erlendis frá.
Í þessu efni hlýtur almennt að gilda að þau ríki, sem lengst eru komin í því að tryggja almenn mannréttindi og jafnræði borgaranna, geta ekki látið það hafa áhrif á innanlandslög sín að önnur ríki séu skemmra á veg komin. Með því að fleiri ríki leyfi samkynhneigðum að sækja um leyfi til ættleiðingar, skapast líka smám saman forsendur til að breyta alþjóðlegum samningum á þá vegu.
Engin ógnun við fjölskylduna
Í þessum efnum á hagur barna að sjálfsögðu að vera í fyrirrúmi. Aðalatriði málsins er, þegar allt kemur til alls, að með þv
í að leyfa samkynhneigðum pörum að ættleiða börn eða eignast þau með tæknifrjóvgun, er verið að stækka þann hóp sem er tiltækur, reiðubúinn og hæfur til að veita börnum ást, umhyggju og gott uppeldi, sem er það sem börn þurfa mest á að halda. Samkynhneigðir eru rétt eins og annað fólk, þrá margir hverjir að verða foreldrar og eru ekkert síður í stakk búnir til að gegna því hlutverki en gagnkynhneigðir. Þannig eru tillögur um að leyfa samkynhneigðum að ættleiða engin ógnun við fjölskylduna eins og stundum er haldið fram. Þær miða þvert á móti að því að styrkja fjölskylduna og fjölga barnafjölskyldum.
Tillögur um að samkynhneigð pör fái að ættleiða börn eiga fylgi að fagna meðal þjóðarinnar. Í könnun Gallup snemma á árinu 2000 sögðust 53% svarenda mjög eða frekar hlynntir slíku, en 35% voru andvíg. Í aldurshópnum 18-24 ára voru yfir 65% hlynnt því að leyfa samkynhneigðum ættleiðingar. Ætla má að ef spurt yrði nú, yrði stuðningurinn við slíka breytingu enn meiri enda hafa umræður um málið aukizt mjög undanfarin misseri.
Það er því full ástæða til að Alþingi taki þessi mál til rækilegrar skoðunar og samþykki þingsályktunartillöguna, sem nú liggur fyrir. Í því starfi, sem þá tekur við, hljóta menn að horfa til reynslu nágrannaríkjanna, Svíþjóðar, Bretlands og Hollands. Markmiðið á að sjálfsögðu að vera að afnema eins og kostur er hvers konar lagalega mismunun. Í lýðræðisríkinu Íslandi, þar sem mannréttindi eru í heiðri höfð, eiga lög ríkisins ekki að draga fólk í dilka, hvorki eftir kynhneigð né öðru.
Copyright © Morgunblaðið 2002
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið