Skip to main content
search
Uncategorized

Reykjavíkurbréf Morgunblaðsins 12. febrúar 2006

By 12. febrúar, 2006No Comments

Mikið hefur verið skrifað í Morgunblaðið undanfarnar vikur um frumvarp ríkisstjórnarinnar, sem ætlað er að tryggja jafnan rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Frá því að mælt var fyrir frumvarpinu á Alþingi í nóvember síðastliðnum hefur á fimmta tug greina um efni þess birzt hér í blaðinu, þar af fjórar í dag, laugardag. Meiriparturinn er frá gagnrýnendum eða andstæðingum frumvarpsins en allmargar greinar líka frá stuðningsmönnum þess.

Það vekur athygli að margir af gagnrýnendunum kvarta undan því að litlar umræður fari fram um frumvarpið og efni þess. Þessi fjöldi greina frá lesendum, auk allra þeirra frétta og greina um efnið, sem blaðamenn Morgunblaðsins hafa skrifað, og mikil umfjöllun í öðrum fjölmiðlum, bendir hins vegar ekki til að hafa þurfi miklar áhyggjur af að ekki verði nægar umræður um þetta mikilvæga mál. Hins vegar virðist nokkuð ljóst, bæði af umræðum um málið á þingi og af skoðanakönnunum, að mikil samstaða ríkir jafnt meðal stjórnmálamanna og stórs meirihluta almennings um að frumvarpið verði að lögum.

Morgunblaðið hefur lýst stuðningi við frumvarp ríkisstjórnarinnar og finnst því rétt að fara hér yfir þessar umræður. Blaðinu þykir ekki sízt ástæða til að staldra við málflutning þeirra, sem segjast hlynntir jafnrétti og réttindabaráttu samkynhneigðra en hafa engu að síður meiri eða minni athugasemdir við frumvarpið, sem fyrir liggur.

Í grófum dráttum virðist gagnrýnin á frumvarpið skiptast í þrennt. Í fyrsta lagi eru ákvæði þess, sem snúa að börnum samkynhneigðra, ættleiðingum og tæknifrjóvgunum, gagnrýnd. Í öðru lagi er það gagnrýnt að með frumvarpinu sé vegið að hjónabandinu, eins og það hefur verið skilið hefðbundnum skilningi. Í þriðja lagi eru svo athugasemdir og gagnrýni, sem snúa ekki beinlínis að frumvarpinu sjálfu, heldur að þeim breytingartillögum, sem Guðrún Ögmundsdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur m.a. boðað og fela í sér að trúfélögum verði gefin heimild til að vígja samkynhneigða í hjónaband, en ekki er gert ráð fyrir slíku í stjórnarfrumvarpinu.

Hagsmunir barnsins?

Fyrst um gagnrýnina á ákvæðin, sem snúa að börnum. Frumvarp ríkisstjórnarinnar kveður á um að samkynhneigðum hjónum og sambúðarfólki verði heimilt að frumættleiða börn, jafnt innanlands sem frá útlöndum. Það gerir jafnframt ráð fyrir að lesbíur í sambúð eða staðfestri samvist geti eignazt barn með tæknifrjóvgun hér á landi, með sama hætti og gagnkynhneigð pör.

Biskup Íslands, Karl Sigurbjörnsson, sagði um þessi atriði í umsögn sinni um frumvarpið, sem sagt var frá hér í blaðinu 26. janúar síðastliðinn: "Varðandi frumættleiðingar og tæknifrjóvgun er að mínu mati gengið lengra en góðu hófi gegnir. Hér er augljóst að frumvarpið tekur í engu tillit til varnaðarorða sérfræðinga, þ.m.t. þáverandi umboðsmanns barna, sem nefnd forsætisráðherra um réttarstöðu samkynhneigðra leitaði til. Nefndin hafði þó klofnað í afstöðu til þessa máls, og hefði verið full ástæða fyrir ríkisstjórnina að fara því með gát, og hafa hagsmuni barnsins að leiðarljósi … Mér sýnist sem kona í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð með annarri konu öðlist samkvæmt frumvarpinu meiri rétt en kona í hjúskap hvað varðar rétt til tæknifrjóvgunar með gjafasæði."

Biskup segir að alvarlegast sé að ekki verði heimilt að gefa upp nafn sæðisgjafa og sæðisgjafanum verði óheimilt að höfða barnsfaðernismál, vilji hann síðar fá staðfestingu á faðerninu. "Þar með er búið að afnema rétt sem talinn hefur verið afar mikilvægur hverju barni, að eiga föður. Barn sem verður til með þessum hætti mun ekki eiga föður og getur aldrei átt föður. Hér er verið að setja framtíðarhagsmuni barnsins til hliðar. Ég vara við því," segir í umsögn biskups.

Fleiri hafa tekið í sama streng. Kristinn H. Gunnarsson alþingismaður sagði t.d. í grein hér í blaðinu 16. janúar: "Er þó gengið svo langt að kona í staðfestri samvist eða óvígri sambúð með annarri konu öðlast meiri rétt en kona í hjúskap hvað varðar rétt til tæknisæðingar með gjafasæði. Konan í hjúskap fær því aðeins að gangast í gegnum umrædda meðferð að frjósemi karlsins sé skert, hann sé haldinn alvarlegum erfðasjúkdóm eða að aðrar læknisfræðilegar ástæður mæla með notkun gjafasæðis. Í tilviki samkynhneigða parsins eru engin sambærileg skilyrði."

Guðjón Bragi Benediktsson skrifar grein í blaðið 12. janúar og tekur fram að hann hafi hagsmuni barna í huga, en ekki gagnrýni á samkynhneigða: "Nái frumvarpið fram að ganga mun lesbískt par geta fengið tæknifrjóvgun með nafnlausu gjafasæði, og barnið fær því hvorki fósturföður, né á það möguleika á að afla sér upplýsinga um faðerni sitt síðar er það fær þroska til. Barnið á tvær mömmur en engan pabba. Hann er hvergi að finna! Verði frumvarpið að lögum hefur homma- eða lesbískt par einnig lagaleg réttindi til frumættleiðingar erlendra barna. Þarna er barnið í sömu stöðu. Tveir pabbar. Engin mamma. Hana er hvergi að finna! Ég óttast að litlu krílunum sem þannig eru sett í stöðu "tilraunadýra" í byltingarkenndri félagsleg
ri tilraun þyki sárt að eiga ekki mömmu og pabba eins og hinir skólafélagarnir."

Haldlítil rök

Hér er að ýmsu að hyggja. Álit sérfræðinganna, sem biskup Íslands og fleiri gagnrýnendur frumvarpsins vitna til, gekk út á að börn, sem væru ættleidd frá útlöndum, gætu átt erfitt uppdráttar í nýju samfélagi þar sem þau skæru sig frá umhverfi sínu. Einnig vitnuðu þeir til rannsókna, sem sýndu að líkur væru á því að börn samkynhneigðra foreldra yrðu fyrir ákveðnu félagslegu álagi, einkum á fyrri hluta unglingsára. Hvað þýðir þetta í raun? Þetta þýðir að ættleidd börn og börn samkynhneigðra geta orðið fyrir aðkasti og álagi vegna þess að þau og/eða foreldrar þeirra eru öðruvísi en aðrir. Eiga það að vera rökin fyrir því að takmarka rétt samkynhneigðra til ættleiðingar – að því gefnu, auðvitað, að menn vilji almennt líta á samkynhneigða sem jafnréttháa og gagnkynhneigða, eins og a.m.k. biskup segist vilja gera? Stendur það ekki kirkjunni nær að stuðla að því að fordómum gagnvart börnum, sem líta öðruvísi út en meirihlutinn eða eiga foreldra, sem eru öðruvísi en meirihlutinn, verði eytt, fremur en að nota þá sem afsökun fyrir þeirri afstöðu sinni að ekki eigi að jafna rétt samkynhneigðra og gagnkynhneigðra að fullu?

Ekki eru það heldur haldgóð rök hjá Karli Sigurbjörnssyni og Kristni H. Gunnarssyni að frumvarpið veiti lesbíum meiri rétt en gagnkynhneigðum pörum, af því að ekki séu gerðar neinar kröfur til þess að annar makinn búi við skerta frjósemi eða erfðasjúkdóm, vilji parið sækja um tæknifrjóvgun! Vilja biskupinn og þingmaðurinn í alvöru að lesbíur reyni allt sem þær geta til að eignast barn með öðrum aðferðum áður en þær leita eftir tæknifrjóvgun með gjafasæði?! Er ekki hreinlegra að segja skýrt að menn séu á móti því að lesbíur gangist undir tæknifrjóvgun, fremur en að ástunda málflutning, sem heldur engum þræði?

Út frá sjónarhóli kirkjunnar og út frá hagsmunum barna ætti það raunar að vera álitamál, hversu ríkan rétt til tæknifrjóvgunar og ættleiðingar pörum í óvígðri sambúð hefur verið veittur nú þegar, miklu fremur en að samkynhneigðum sé veittur sami réttur og gagnkynhneigðum. Óvígða sambúðin felur ekki í sér sömu skuldbindinguna og hjónabandið, ekki sömu gagnkvæmu loforðin og það er auðveldara að leysa hana upp. Af hverju spyr kirkjan ekki spurninga um þetta atriði?

Hvað nafnleynd sæðisgjafa varðar, er þar ekki um neina breytingu að ræða frá því, sem nú á við um gagnkynhneigð pör. Barn, sem getið er með gjafasæði í gagnkynhneigðu sambandi, mun ekki fremur en barn lesbía eiga möguleika á að kynnast kynföður sínum. Munurinn er vissulega sá að í gagnkynhneigða sambandinu er faðir til staðar. En hvað þá um t.d. þær einhleypu konur, sem hafa fengið tæknifrjóvgun erlendis, þar sem slíkt er heimilt? Og hvað með einhleypt fólk, sem ættleiðir börn frá fjarlægum löndum? Eiga þau börn alla jafna einhverja möguleika á að þekkja líffræðilega foreldra sína? Af hverju hafa kirkjan og þingmaðurinn ekki risið upp til varnar hagsmunum þessara barna, fyrst nú er ástæða til að andmæla?

Meginástæðan fyrir ákvæðunum um nafnleynd sæðisgjafa, bæði þau sem nú gilda um gagnkynhneigð pör og þau, sem lögð eru til í frumvarpinu, er raunar sú, að Íslendingar sækja gjafasæði til Danmerkur, þar sem nafnleyndarreglan gildir. Annað á við t.d. í Svíþjóð og að hluta til í Bandaríkjunum. Spurningin um nafnleynd snýst því að stórum hluta um það hvert íslenzka heilbrigðiskerfið beinir "viðskiptum" sínum hvað gjafasæði varðar.

Kjarni málsins hvað varðar ættleiðingar samkynhneigðra para og tæknifrjóvganir er hins vegar þessi: Í báðum tilfellum er um það að ræða að börnin eignast tvo foreldra, sem hafa verið metnir hæfir til að eignast börn og ala önn fyrir þeim og sem aukinheldur eru reiðubúnir að leggja á sig það erfiði, óþægindi og kostnað, sem fylgir bæði tæknifrjóvgunum og ættleiðingum. Þessi börn munu eiga tvo hæfa, ástríka og viljuga foreldra – sem er því miður meira en svo mörg börn á Íslandi geta sagt. Er ekki betra að eiga tvær ástríkar mömmur en pabba, sem skiptir sér ekki af manni – svo dæmi sé nefnt?

Þetta getur maður á borð við Guðjón Braga Benediktsson, sem titlar sig heimavinnandi þriggja barna föður, kallað félagslega tilraunastarfsemi. Hann ætti kannski að hugsa út í að það er ákaflega stutt síðan margir töldu það hættulega félagslega tilraunastarfsemi að feður ungra barna væru heimavinnandi og hugsuðu um börnin sín. Það þykir sjálfsagt í dag.

Ónýtt hjónaband?

Þá að þeim rökum að frumvarpið eins og það liggur fyrir grafi undan hjónabandinu. Fremst í flokki þeirra, sem þessu halda fram, eru hjónin Steinunn Jóhannesdóttir rithöfundur og Einar Karl Haraldsson, varaþingmaður Samfylkingarinnar. Eins og aðrir, sem hér er vitnað til, telja hjónin sig ákaflega hlynnt réttindum samkynhneigðra. Þau finna hins vegar að því að í frumvarpinu er gert ráð fyrir að í ýmsum lögum sé orðið einstaklingur sett í stað orðanna karl og kona og orðið foreldri í stað föður og móður. Þessar orðalagsbreytingar eru ósköp einfaldlega nauðsynlegar, vilji menn á anna&eth
; borð að samkynhneigðir í staðfestri samvist eða óvígðri sambúð njóti sömu réttinda og gagnkynhneigð hjón eða sambúðarfólk. En út úr þessum orðalagsbreytingum lesa hjónin mikið menningarslys.

Í grein sinni hér í blaðinu 5. febrúar síðastliðinn skrifa Steinunn og Einar Karl: "Við undirrituð höfum vakið athygli á því á að hin nýja skilgreining á hjónabandinu sem birt er í athugasemdum með frumvarpinu hefur ekki verið rædd af hálfu alþingis við meirihluta þeirra sem málið varðar, þ.e.a.s. hjónin í landinu. Hjónabandið er ekki bara málefni vígslumanna, það snertir ekki síður þá sem vígsluna þiggja og hafa þegið, hvort sem hún var framkvæmd á sýsluskrifstofu eða í kirkju. Við teljum að alþingi hafi ekki umboð til þess að breyta innihaldi svo mikilvægra sáttmála án víðtækrar umræðu og lýðræðislega fengins samþykkis. Ný skilgreining á hjónabandinu hefur áhrif á merkingu þess fyrir alla sem þegar eru í hjónabandi. Hjónabandið snertir kviku mannlífsins. Hlutur karls og konu í hjónabandi er stór þáttur í sjálfsmynd hvors um sig, kynferðið hefur oftast mikla þýðingu, orðin móðir og faðir sömuleiðis og það sem þau standa fyrir. Sú tilraun sem gerð er í frumvarpinu til þess að afhlaða þessi orð í þeim tilgangi að rétta hlut minnihlutahóps verður um leið tilraun til þess að tæma þau að merkingu. Móðir er ekkert sérstakt, faðir ekki heldur og hjónaband aðeins samkomulag einstaklinga sem rugla saman reytunum óháð kyni."

Það er vandséð hvernig Steinunn og Einar Karl komast að þeirri niðurstöðu að þeirra eigið hjónaband verði einskis virði, þótt samkynhneigðir eignist hlutdeild í þeirri merku stofnun, sem hjónabandið er. Mikið má óöryggi gifts, gagnkynhneigðs fólks vera, ef giftingar samkynhneigðra svipta það sjálfsmyndinni og þýðingu móður- og föðurhlutverksins, hvorki meira né minna. Giftingar samkynhneigðra breyta að sjálfsögðu nákvæmlega engu fyrir gagnkynhneigt fólk. Eða riða einhver hjónabönd til falls vegna þess að staðfest samvist, sem hefur flest sömu réttaráhrif og hjónaband gagnkynhneigðra, var í lög leidd fyrir rúmum áratug? Þetta eru ekki heldur haldbær rök.

Steinunni og Einar Karli verður sömuleiðis tíðrætt um orðin hjón og hjónaband – að þau verði svipt merkingu sinni, nái frumvarpið fram að ganga. Það verði "skemmdarverk á tungunni því þá eiga Íslendingar ekki lengur neitt orð sem lýsir sérstaklega þessum forna sáttmála karls og konu." En hefur ekki merking og inntak margra orða breytzt samfara breytingum á samfélaginu án þess að nokkur skaði hafi verið unninn? Í baráttunni fyrir jafnrétti kvenna og karla hafa mörg orð orðið umdeild og öðlazt útvíkkaða merkingu. Fyrst þegar til greina kom að konur vígðust til prests, áttu margir t.d. í mestu erfiðleikum með að kalla þær bara presta. Til að byrja með hétu konur, sem tekið höfðu prestvígslu, kvenprestar – svo að það færi ekki á milli mála að þær væru öðruvísi en karlarnir, sem öldum saman höfðu gegnt prestsembættum. Í dag heita þær bara prestar og skaðinn virðist ekki tilfinnanlegur. Ekki er langt síðan sumir sögðust samþykkja að karlar fengju fæðingarorlof, þegar þeir færu að fæða börn, en ekki fyrr. Nú fara 85% feðra í fæðingarorlof og kemur flestum saman um að það sé jákvæð breyting. Merking orðsins fæðingaorlof víkkaði út, vandræðalaust. Þegar Vigdís Finnbogadóttir var kjörin forseti Íslands, veltu sumir því fyrir sér hvort það væri hægt að kalla konu forseta. Það gekk engu að síður alveg ágætlega.

Af hverju ætti að reyna að finna eitthvert nýtt og torskilið orð yfir hjónaband samkynhneigðra, sé fólk á annað borð á þeirri skoðun að jafna beri rétt þeirra og gagnkynhneigðra? Sigurbjörg Daðadóttir og Hanna María Karlsdóttir segja í viðtali við Tímarit Morgunblaðsins 29. janúar síðastliðinn: "Það þýðir ekkert að segja að við séum í staðfestri samvist því fólk skilur það ekki. Við segjum einfaldlega að við séum hjónur eða hjón. Þetta orð er m.a.s. hvorugkynsorð þannig að það er ekkert því til fyrirstöðu að það gangi fyrir alla."

Hjónabandið verður hreint ekki bara "samkomulag einstaklinga sem rugla saman reytunum" þótt samkynhneigðir öðlist hlutdeild í því. Morgunblaðið sagði sama dag og áðurnefnd tímaritsgrein birtist, frétt af könnun á ástæðum þess að samkynhneigð pör sóttust eftir að vera gefin saman í staðfesta samvist. Yfir 80% nefndu ástæðuna "ást". Það þarf ekki að koma á óvart. Ástin er meginástæða þess að flestir ganga í hjónaband, ekki þau réttindi, sem því fylgja. Kynhneigð snýst auðvitað um ást; hvort fólk fellir ástarhug til persónu af hinu kyninu eða sínu eigin. Og rétt eins og hinir gagnkynhneigðu vilja samkynhneigðir staðfesta ást sína og trúfesti við aðra manneskju í hjónabandi. Það er skuldbinding, eins og Margrét Guðjónsdóttir og Íris Dögg Jónsdóttir segja í viðtali í áðurnefndu tölublaði Tímarits Morgunblaðsins. "Maður er tilbúinn til að bindast, deila lífi og sálum og fléttast saman þannig að allir þræðir beggja sameinist í sambandinu," segir Íris þar.

Kirkjan og hjónabandið

Þá er komið að þriðja
flokki athugasemdanna, sem raunar snýr ekki að stjórnarfrumvarpinu sjálfu, heldur boðuðum breytingartillögum Guðrúnar Ögmundsdóttur og fleiri þingmanna við það, um að trúfélög fái heimild til að gefa samkynhneigða saman í hjónaband. Hér hefur biskup Íslands farið fremstur í flokki í andmælunum og ýmsir greinarhöfundar hér í blaðinu tekið undir með honum.

Morgunblaðið hefur í öðrum ritstjórnargreinum fjallað um þau rök biskups að með þessu væri verið að eyðileggja hjónabandið. Önnur rök andstæðinga boðaðrar breytingartillögu eru þau, að með slíkri heimild væri þjóðkirkjunni stillt upp við vegg; hún þvinguð til að breyta sínum eigin skilningi á hjónabandinu.

Þetta er auðvitað rangt. Þegar málið er skoðað, er miklu meiri þvingun fólgin í núverandi löggjöf, sem bannar í raun trúfélögum að gefa saman samkynhneigða einstaklinga. Þjóðkirkjan nýtur sjálfstæðis og ríkisvaldið á ekki að segja henni fyrir verkum, sízt af öllu í kenningarlegum efnum. Það liggur hins vegar fyrir að ýmis önnur trúfélög, þar á meðal evangelískar, lúterskar kirkjur, eru reiðubúin að vígja samkynhneigð hjón og færa fyrir því guðfræðileg rök, eins og grein Hjartar Magna Jóhannssonar fríkirkjuprests í Reykjavík hér í blaðinu í gær, föstudag, er til dæmis um. Af hverju ætti afstaða þjóðkirkjunnar að hindra að þessi trúfélög gifti samkynhneigða, ef löggjafinn er á annað borð þeirrar skoðunar að leyfa eigi þeim að ganga í hjónaband?

Kristján Valur Ingólfsson, formaður helgisiðanefndar þjóðkirkjunnar, skrifar grein í Morgunblaðið í dag, laugardag, og segir þar m.a.: "Sem fyrr segir hafa þjóðkirkjan og löggjafinn verið samstiga í skilningi sínum á því hvað hjónaband er. Slíkur sameiginlegur skilningur er forsenda þess að ríkið geti falið þjóðkirkjunni (og öðrum trúfélögum) heimild til að annast hinn lögformlega gerning sem hjúskaparstofnun er.

Fari nú svo að fyrrnefndum greinum hjúskaparlaganna verði breytt og þar með ákveðið að hjón séu tveir einstaklingar óháð kyni skilur á milli viðtekins skilnings þjóðkirkjunnar og skilnings laganna á því hvað hjónaband er.

Þetta er meginástæða þess að þjóðkirkjan hefur óskað eftir að löggjafinn virði þann frest sem hún hefur talið sig þurfa til að ræða þessi mál í sínum hópi."

Kristján Valur lítur í grein sinni framhjá því, að í meira en áratug hafa lögin um staðfesta samvist verið í gildi. Allan tímann hefur verið uppi sú krafa innan þjóðkirkjunnar að hún samþykki opinbert ritúal til að blessa slíkan gjörning. Í áratug hefur kirkjunni ekki tekizt að koma sér saman um slíkt og sér raunar enn ekki fyrir endann á þeim umræðum. Þannig hefur kirkjan ekki verið reiðubúin að stíga skrefið með löggjafanum og talsvert skort á hinn sameiginlega skilning. Kristján nefnir form fyrir blessun staðfestrar samvistar, en það er ekki opinbert ritúal og hefur á engan hátt sömu stöðu og hjónavígsluritúalið. Það felur ekki í sér sömu viðurkenningu á skuldbindingu tveggja einstaklinga. Svo enn sé vitnað til viðtala við samkynhneigð pör í Tímariti Morgunblaðsins, sagði Grétar Einarsson, unnusti Óskars Ástþórssonar, þar: "Hjónabandið er ákveðið innsigli. Með því er maður að festa allt sitt líf við ákveðna manneskju. Ef maður er trúaður skiptir öllu, öllu máli að játa það fyrir guði."

Þetta er auðvitað kjarni málsins hvað kirkjulega hjónavígslu samkynhneigðra varðar. Trúað fólk, samkynhneigðir sem aðrir, vill innsigla skuldbindingu sína við ástvin sinn frammi fyrir Guði, ekki aðeins mönnum. Krafa samkynhneigðra – og raunar stórs meirihluta þjóðarinnar – um að þeir fái að gifta sig í kirkju, ætti að vera þjóðkirkjunni fagnaðarefni. Hún sýnir, að trúin skiptir fólk máli, að kirkjan skiptir fólk máli, að hjónabandið skiptir fólk máli, að kærleikurinn, sem er kjarninn í boðskap Krists, skiptir fólk máli. Stuðningur Morgunblaðsins við þessa kröfu byggist á fastheldni blaðsins við kristileg lífsgildi, stuðningi þess við kirkjuna og varðstöðu þess um hjónabandið og fjölskylduna sem grundvallarstofnanir í samfélagi okkar.

Það er sjálfsagt að kirkjan taki þann tíma, sem hún þarf, til að afgreiða spurninguna um hjónaband samkynhneigðra. En hún getur ekki gert kröfu til þess að aðrir bíði á meðan. Þá niðurstöðu, sem kirkjan kemst að, mun fólk að sjálfsögðu virða. En það væri samt skaði, ef þjóðkirkjan ýtti samkynhneigðum frá sér. Það myndi stuðla að því að enn fleiri úr þeirra hópi, vina þeirra og ættingja, yfirgæfu hana og sæktu til ört stækkandi fríkirkjusafnaða. Og það myndi veikja tilkall hennar til heitisins þjóðkirkja.

Copyright © Morgunblaðið 2005
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply