Skip to main content
FræðslustarfFréttirGreinHinseginleikiRáðgjafarþjónusta

Samið við Samtökin

By 5. febrúar, 2018maí 27th, 2020No Comments
Samningar Samtakanna ‘78 við Reykjavík og Hafnarfjörð gera samtökunum kleift að sinna margvíslegu hlutverki sínu gagnvart samfélaginu og er mikilvægur þáttur í áframhaldandi starfsemi þeirra.
 
Á dögunum gerðu Reykjavíkurborg og Samtökin ‘78 með sér nýja fræðslu- og þjónustusamninga sem tryggja Samtökunum aukið fjármagn til starfsemi sinnar og Reykjavíkurborg aukna þjónustu. Nokkru áður höfðu Samtökin ‘78 og Hafnarfjarðarbær undirritað endurnýjaðan samstarfssamning. Samtökin geta því haldið áfram að bjóða þá fjölbreyttu sérfræðiþjónustu sem þau hafa byggt upp undanfarin misseri. Hún felst m.a. í ráðgjafarþjónustu, félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni og hinsegin fræðslustarfsemi.
 
Fjórfalt fleiri ráðgjafatímar
Ráðgjafar Samtakanna ‘78 eru hópur sérfræðinga á sviðum félagsráðgjafar, sálfræði og lögfræði. Hópurinn býður hinsegin fólki, aðstandendum þess og fagfólki á ýmsum sviðum faglega ráðgjöf við úrlausn persónulegra mála er varða kynhneigð, kynvitund, kyneinkenni og kyntjáningu. Ráðgjöfin nær einnig til samfélagslegra þátta t.d. varðandi vinnumarkað, skóla, fordóma o.þ.h. Til að mynda hefur fagfólk innan löggæslu- og heilbrigðisgeirans leitað ráðgjafar um aðstæður hinsegin fólks og hvernig sé best að veita hinsegin fólki í viðkvæmri stöðu aðstoð. Til marks um það hversu mikil þörf er fyrir aðgengilegri ráðgjöf innan veggja Samtakanna ‘78 má nefna að aðsókn í hana hefur rúmlega fjórfaldast á síðustu þremur árum. Með samningum Hafnarfjarðar og Reykjavíkur er starfsfólki og íbúum sveitarfélagana tryggður áframhaldandi aðgangur að ráðgjöfinni.
 
Hinsegin félagsmiðstöð fyrir unglinga
Félagsmiðstöð fyrir hinsegin ungmenni er starfrækt í húsnæði Samtakanna ‘78 eitt kvöld í viku. Þar koma saman sjálfboðaliðar og faglært fólk frá Félagsmiðstöðinni Tjörninni og byggja upp skemmtilegt rými þar sem hinsegin ungmenni geta kynnst og varið tíma saman í öruggara umhverfi undir handleiðslu fagfólks. Þar geta þau einnig talað við starfsfólk í einrúmi. Undanfarin ár hefur hópurinn sem sækir félagsmiðstöðina stækkað jafnt og þétt en í fyrra sóttu þrefalt fleiri ungmenni hana en árin áður. Þjónustusamningur Reykjavíkur tryggir að við félagsmiðstöðina starfi fagmenntað fólk á sviðum tómstunda- og félagsmálafræði.
 
Fræðslustarf til starfsfólks mikilvægt
Hinseginfræðsla Samtakanna ‘78 er tvískipt. Fræðslu til kennara á leik- og grunnskólastigum veitir fræðslustýra Samtakanna ‘78 og miðar sérstaklega að því að fræða kennara um fjölbreytileika hinseginleikans, þ.e. kynvitundar, kynhneigðar, kyntjáningar og kyneinkenna, og hvernig megi styðja við börn sem stíga út fyrir hinn hefðbundna ramma kyns og kyntjáningar og börn úr fjölbreyttum fjölskyldum, en þessi hópur fer sí-stækkandi. Þá er markmiðið einnig að gera kennara sjálfbæra um að uppfylla aðalnámsskrá grunnskóla en þar stendur: „Á öllum skólastigum á að fara fram menntun til jafnréttis þar sem fjallað er um hvernig ofangreindir þættir geta skapað mismunun eða forréttindi í lífi fólks‟. Þættir þessir ná m.a. til kyns og kynhneigðar. Kennarar þurfa þó oft utanaðkomandi aðstoð við þetta verkefni enda er skortur á viðeigandi kennsluefni og fræðslu um þessi mál í kennaranámi.
 
Virk jafningjafræðsla
Samhliða fræðslu til starfsfólks bjóða Samtökin upp á hinsegin fræðslu til nemenda í efstu bekkjum grunnskóla. Sú fræðsla miðar að því að uppfylla ofangreint ákvæði aðalnámsskrár í þeim tilfellum sem kennarar skólans, eða sveitarfélög, óska aðstoðar. Kynnt er fyrir nemendum hvernig hinseginleikinn birtist í daglegu lífi og um fjölbreytileika samfélagsins. Þá eru gefin ráð um það hvernig megi tryggja að hinsegin fólki innan vinahópa og bekkja líði vel og félagsmiðstöðin kynnt fyrir nemendum. Þessar heimsóknir geta verið mjög dýrmætar fyrir nemendur sem eru að velta fyrir sér sinni kynhneigð eða kynvitund. Fræðslan byggir á áralangri hefð innan Samtakanna ‘78 en er nú undir handleiðslu  fræðslustýru Samtakanna ‘78. Með fjármagni samninga Reykjavíkur og Hafnarfjarðar verður til grundvöllur fyrir áframhaldandi starfi sérfræðimenntaðs fólks við fræðslu Samtakanna ‘78.
 
Aðeins tvö sveitarfélög af 74
Við þökkum Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ samstarfið á liðnum árum og hlökkum til að takast á við skyldur okkar næstu árin. Nú er þjónustan sem við bjóðum upp á tryggð til íbúa þessara sveitarfélaga og á sama tíma fáum við svigrúm til að bæta og þróa þessa þjónustu. Um leið og Reykjavíkurborg og Hafnarfjarðarbæ er þakkað þá viljum við hvetja önnur sveitarfélög á landinu að skoða hvernig hinsegin fræðslu og ráðgjöf er háttað í sínu sveitarfélagi. Samtökin ‘78 eru reiðubúin að aðstoða við þá vinnu.
 
Álfur Birkir Bjarnason ritari Samtakanna ‘78 
Daníel E. Arnarsson framkvæmdastjóri Samtakanna ‘78
&nb
sp;

Leave a Reply