Skip to main content
Uncategorized

Samkynhneigð í ljósi textans um sköpun mannsins í mynd guðs

By 1. janúar, 1997No Comments

Það er satt að segja ekki mikið fjallað um samkynhneigð í Gamla testamentinu og raunar má segja að alls ekkert sé fjallað um hneigðina sem slíka, heldur aðeins á örfáum stöðum um kynmök milli karla. Í glímunni við slíka texta er alltaf hætta á því að við lesum nútímahugmyndir inn í hina fornu texta, rífum þá úr sínu sögulega samhengi o.s.frv. Ég tala nú ekki um þegar menn hafa heitar skoðanir á umfjöllunarefninu, eins og harla oft hefur reynst vera með samkynhneigðina. Þá er veruleg hætta á að textarnir fái ekki að tala sjálfir, að við lesum inn í þá fyrirfram mótaðar hugmyndir okkar.

Hér er hins vegar um þannig mál að ræða að áhugi okkar á því er ekki fyrst og fremst sögulegur heldur er hér á ferðinni málefni sem mjög er í deiglunni í samtíð okkar. Hér reynir því annars vegar á hina sögulegu ritskýringu textanna og hins vegar á túlkun þeirra og heimfærslu til nútímans. Að hve miklu leyti geta þeir orðið vegvísandi fyrir kristna menn í dag.

Einn er sá texti Gamla testamentisins sem á síðari árum hefur verið dreginn inn í umræðuna um samkynhneigð. Er þar um að ræða textann um sköpun mannsins í mynd Guðs (imago Dei), en fáir textar Gamla testamentisins hafa gegnum tíðina dregið til sín jafnmikla athygli og hann. Textinn hljóðar svo samkvæmt Biblíunni 1981:

Og Guð sagði: „Vér viljum gjöra manninn eftir vorri mynd, líkan oss, og hann skal drottna yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir fénaðinum og yfir villidýrunum og yfir öllum skriðkvikindum sem skríða á jörðinni.“ Og Guð skapaði manninn eftir sinni mynd, hann skapaði hann eftir Guðs mynd, hann skapaði þau karl og konu. Og Guð blessaði þau, og Guð sagði við þau: „Verið frjósöm, margfaldist og uppfyllið jörðina og gjörið ykkur hana undirgefna og drottnið yfir fiskum sjávarins og yfir fuglum loftsins og yfir öllum dýrum, sem hrærast á jörðinni.“ (1. Mósebók 1:2628).

Menn hafa um aldir glímt við þá spurningu hvað felist í staðhæfingunni um að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs. Er þar um að ræða einhvern skyldleika Guðs og manns og í hverju er þá sá skyldleiki fólginn? Hér er ekki tími til að gera að umtalsefni allar þær fjölbreytilegu skýringar sem gefnar hafa verið á þessum merkilega texta.

Nýjar guðfræðistefnur vísa til textans

Það er áberandi að á öllum tímum virðast imago Dei-textarnir hafa lagt eitthvað af mörkum þegar nýjar guðfræðistefnur hafa skotið upp kollinum. Nokkur dæmi um þetta má nefna frá síðustu árum og áratugum. Hér á ég við frelsunarguðfræðina svokölluðu (einkum í Rómönsku Ameríku), kvennaguðfræðina svo og hina vistfræðilegu áherslu innan guðfræðinnar. Það er athyglisvert að í öllum þessum tilvikum koma imago Dei-textarnir talsvert við sögu. Loks hefur þessi texti á síðustu árum verið dreginn inn í umræðuna um samkynhneigð.

Þrískipt siðferðileg ábyrgð

Hinn mikli fjölbreytileiki í túlkun þessa texta, sem rannsóknarsaga hans vitnar um, er til marks um hversu stórbrotinn texti er hér á ferð. Innan siðfræðinnar hefur hann til dæmis gegnt mjög stóru hlutverki. Þannig hefur prófessor Björn Björnsson, sem hefur með höndum kennslu í félagslegri siðfræði við guðfræðideild Háskóla Íslands, beinlínis bent á þennan texta sem nokkurs konar útgangspunkt fyrir hina biblíulegu siðfræði. Bendir hann réttilega á að á grundvelli þessa texta megi tala um þrískipta siðferðilega ábyrgð, það er ábyrgð mannsins gagnvart Guði (coram Deo), gagnvart náunga sínum (coram hominibus) og gagnvart heiminum (coram mundo).1 Er þar vel að orði komist því vissulega rúmar umræddur texti allar þessar víddir.

Málefni samkynhneigðra í brennidepli

Á síðari árum hafa málefni samkynhneigðra vakið síaukna athygli og réttindabarátta þeirra ekki farið framhjá neinum. Vissulega má gagnrýna kristna kirkju fyrir að hafa verið seinni að taka við sér og að hafa ekki látið málefni þessa minnihlutahóps nægilega til sín taka. En þar hefur ánægjuleg breyting orðið á að undanförnu og eru umræður á Prestastefnunni í fyrra til marks um það. En vissulega er umræðan skammt á veg komin hér á landi. Vinnuhópar hafa starfað í kirkjum nágrannaþjóða okkar. Hlutverk mitt hér er mun smærra í sniðum, einungis að fara nokkrum orðum um nokkra þá texta úr Gamla testamentinu sem tengdir hafa verið þessari umræðu. Tími leyfir ekki annað en gripið sé niður í nokkrum textum á mjög svo yfirborðslegan hátt.

Eru samkynhneigðir líka skapaðir í Guðs mynd?

Það er ekkert sem bendir til að höfundur sköpunarsögu P-ritsins svokallaða hafi haft í huga spurninguna um stöðu samkynhneigðra þegar orðin um sköpun mannsins í mynd Guðs voru skráð. Það þarf þó ekki að koma í veg fyrir að við á grundvelli meginboðskapar þessa mikilvæga texta reynum að segja eitthvað um það mál í samtíð okkar, eins og svo fjölmörg önnur siðferðileg og guðfræðileg vandamál sem við reynum að glíma við á grundvelli Biblíunnar.
Eitt grundvallaratriðið hér tel ég vera að textinn gerir ótvírætt ráð fyrir að allir menn séu skapaðir í mynd Guðs. Að því leyti flytur textinn svipaðan boðskap og Páll í Galatabréfinu (3:28). Hér er ekki gerður greinarmunur á Gyðingi eða grískum manni, þræli eða frjálsum manni, karli e&eth
;a konu. Í ljósi nútímans gætum við bætt við að hér sé örugglega ekki gerður greinarmunur á hvítum manni eða svörtum. En hvað þá með gagnkynhneigða menn og samkynhneigða? Er unnt að fullyrða að textinn um sköpun mannsins í Guðs mynd eigi jafnt við þá? Fyrirfram er óhætt að segja að það þyrftu að koma fram mjög sterk rök til að standa á þeirri staðhæfingu að einhver ákveðinn hópur manna sé þar undanskilinn, í þessu tilfelli samkynhneigðir menn. Ef það hefði verið hugsunin þá hefði það væntanlega verið látið koma skýrt fram í textanum.

Mistök í sköpunarverkinu?

Það er ekki að ástæðulausu að textinn um sköpun mannsins í mynd Guðs er hér gerður að umtalsefni þegar staða samkynhneigðra, jafnt karla og kvenna, er til umræðu. Umræddur texti hefur verið notaður til að standa vörð um samband gagnkynhneigðra sem hið Guði þóknanlega samband andstætt sambandi samkynhneigðra. Yfirleitt hafa menn þó ekki viljað ganga svo langt að halda því fram að samkynhneigðir menn séu ekki líka skapaðir í Guðs mynd, en hafa hins vegar stundum farið þá leið að neita því að kynhvötin sé hluti af Guðsmyndinni og í framhaldi af því viljað halda fram að samkynhneigðin sem slík sé ekki hluti af Guðs góðu sköpun heldur dæmi um einhvers konar „mistök“ í sköpunarverkinu. Gegn slíkum staðhæfingum er textinn um sköpun mannsins í mynd Guðs okkur áminning um að Guð fer ekki í manngreinarálit og skiptir mönnum ekki upp í fullkomna menn og ófullkomna, ekki heldur hvað snertir kynhneigð þeirra.

Er guðsmyndin fólgin í sambandi karls og konu?

Þeir eru til sem á grundvelli 1. Mósebókar 1:26-28 vilja halda því fram að guðsmynd mannsins sé beinlínis fólgin í hjónabandinu. Þeir sem slíkt gera geta raunar sótt stuðning til þekktasta guðfræðings 20. aldar, sjálfs Karls Barths (1886-1968). Umfjöllun Barths hefur vakið mikla athygli, enda birtist hún í hinu volduga og áhrifamikla trúfræðiverki hans.2 Barth heldur því fram að í 1. Mósebók 1:26-28 sé að finna beina útskýringu á merkingu textans í orðunum „hann skapaði þau karl og konu“.
Nei! Guðsmynd mannsins er ekki fólgin í hjónabandinu
Það verður að segjast eins og er að túlkun hins mikla guðfræðijöfurs Karls Barths er hreint ekki sannfærandi hvað þetta atriði snertir og því síður þeirra sem vilja ganga lengra og nota túlkun hans sem innlegg í umræðuna um stöðu samkynhneigðra og þá beinlínis sem vopn gegn réttindabaráttu þeirra með því að lesa það inn í sköpunarsöguna að samkynhneigð sé í grundvallaratriðum ill, afskræming á skikkan skaparans og andstæð vilja Guðs. Um þessi atriði segir sköpunarsagan ekkert, hvorki beint né óbeint.

Sé slík túlkun skoðuð í ljósi þess sem Gamla testamentið og raunar Biblían öll kennir í víðara samhengi hljóta að vakna spurningar eins og: Hvað þá með þá einstaklinga sem eiga ekki því láni að fagna að eignast lífsförunaut? Eru þeir þar með sviptir réttinum til að kallast skapaðir í Guðs mynd? Það væri í hrópandi ósamræmi við það sem Gamla testamentið og enn frekar Nýja testamentið kennir um umhyggjuna fyrir þeim sem minna mega sín og standa höllum fæti. Þannig verður Gamla testamentinu til dæmis mjög tíðrætt um munaðarleysingjann, ekkjuna og útlendinginn sem meðal yðar býr, en allt voru þetta aðilar sem áttu undir högg að sækja.

Raunar nægir að skoða textann sjálfan vandlega og af sanngirni til að sannfærast um að ofannefnd túlkun fæst engan veginn staðist. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að benda á að sköpunarsaga P-ritsins (1. Mósebók 1:1-2:4a) fjallar um sköpunarverkið (náttúruna) og mannkynið almennt.3 Hebreska orðið adam, sem í íslensku Biblíunni er þýtt sem „maður“, væri sennilega betur þýtt sem „mannkyn“ (sbr. nýja NRSV-þýðingin enska), og á að sjálfsögðu jafnt við konur og karla, eins og undirstrikað er í textanum. Þar væri raunar nær hebreska frumtextanum að þýða með orðunum „karlkyns og kvenkyns“ því að ekki er um að ræða hin venjulegu hebresku orð yfir karl og konu. Skiptingin úr eintölu „Guð skapaði manninn eftir sinni mynd“ yfir í fleirtölu „hann skapaði þau“ sýnir að ekki er um beina hliðstæðu að ræða milli þessara tveggja hluta 27. versins, þannig að unnt væri að líta svo á að innihald guðsmyndarinnar sé fólgið í hjónabandi karls og konu.

Um ákvæðin í Heilagleikalögunum, 3. Mósebók, 18:22 og 20:13

Því verður varla á móti mælt að þeir fáu ritningarstaðir í Biblíunni sem beinlínis taka á spurningunni um samkynhneigða hegðun eru neikvæðir í dómi sínum. Í Heilagleikalögunum svokölluðu í 3. Mósebók (Leviticus), 17-26, er beinlínis lagt bann við kynmökum karlmanna. Hér er líklega um að ræða ákveðnasta bann Biblíunnar við kynmökum milli karla (athygli vekur að hliðstætt bann er ekki að finna varðandi konur).

3. Mósebók, 18:22: Eigi skalt þú leggjast með karlmanni sem kona væri. Það er viðurstyggð.
3. Mósebók, 20:13: Og leggist maður með karlmanni sem kona væri, þá fremja þeir báðir viðurstyggð. Þeir skulu líflátnir verða, blóðsök hvílir á þeim.

Í samhengi síðarnefnda ritningarstaðarins (3. Mósebók, 20:10-16) er hinum samkynhneigðu kynmökum skipað á bekk með öðru „óeðli“ á sviði kynlífsi
ns. Samkynhneigð kynmök voru hluti af guðsdýrkun ýmissa nágrannaþjóða Ísraels á tímum Gamla testamentisins. Slík iðkun var því fordæmd sem brot gegn 1. boðorðinu. Þetta sjáum við líka í 5. Mósebók, 23:17-18, þar sem verið er að fordæma musterisvændi, bæði meðal karla og kvenna. Þetta var hluti af frjósemisdýrkun meðal nágrannaþjóða Ísraels og þess virðist einnig hafa orðið vart í Ísrael í einstaka tilfellum. 

Takmark laganna í Heilagleikabálkinum er fyrst og síðast að greina Ísrael frá öðrum þjóðum sem heilaga þjóð og varðveita hina trúarlegu sérstöðu sína, sbr. orðalagið í upphafi 18. kafla: „Þér skuluð ekki gjöra að háttum Egyptalands . . . og þér skuluð ekki gjöra að háttum Kanaanslands“ (18:3). Í niðurlagi kaflans kemur einnig fram áherslan á aðgreiningunni frá öðrum þjóðum: „Saurgið yður ekki með nokkru þvílíku, því að með öllu þessu hafa heiðingjarnir saurgað sig.“ Reglurnar eru yfirleitt mjög ákveðnar og harðar og skýrt kveðið á um hver refsingin er við brotum gegn þeim.

Óhætt er að slá því föstu að fyrir kristna menn eru margar þessara reglna mjög framandi og refsingin við brotum gegn þeim í fullkomnu ósamræmi við það sem við eigum að venjast og teljum gott og gilt. Hér er til dæmis kveðið á um að hver sá sem bölvar föður sínum eða móður sinni skuli líflátinn verða (3. Mósebók, 20:9). Hið sama á við um þann sem leggst með konu sem hefur tíðir (20:18).

Heilagleikalögin minna okkur á að í Gamla testamentinu eru fjölmargar reglur, boð og bönn, sem kristnir menn láta sig litlu varða á þeim forsendum að lögmálið hafi hlotið uppfyllingu sína með Kristi. Má í þessu sambandi minna á langvinnar deilur Jóns Helgasonar (1866-1942) og sænska aðventistans Davids Östlund um helgi hvíldardagsins skömmu fyrir aldamótin síðustu. Í þeirri rimmu andmælti Jón því að kristnum mönnum bæri að halda laugardaginn sem hvíldardag.

Ljóst má vera að það sem Heilagleikalögin í 3. Mósebók hafa að segja um samskipti samkynhneigðra getur ekki orðið neinn mælikvarði fyrir það hvaða afstöðu kristin kirkja skuli taka í málefnum samkynhneigðra.

Því yrði seint haldið fram að 3. Mósebók (Leviticus) væri meðal vinsælustu bóka Biblíunnar. Eru jafnvel dæmi um biblíuútgáfur þar sem þessi bók er prentuð með smærra letri en flestar aðrar bækur Biblíunnar. En hin neikvæða afstaða til þessa rits er þó einkum bundin við kristna menn þar sem í henni er að finna ýmis sérkenni gyðingdóms, sem kristnir menn telja ekki höfða til sín. Þannig eru lög um mismunandi fórnartegundir mjög fyrirferðarmikil í ritinu. Ýmsir minnast þess þó að þessi bók hefur að geyma annan hluta tvöfalda kærleiksboðorðsins, það er 3. Mósebók, 19:18: „Eigi skalt þú hefnisamur né langrækinn vera við samlanda þína, en þú skalt elska náunga þinn eins og sjálfan þig. Ég er Drottinn.“

Í ljósi lítilla vinsælda þessa rits í kristninni væri við því að búast að áhrif þess hefðu nánast engin verið hér á landi. Í nýlegri íslenskri doktorsritgerð í sagnfræði, sem fjallar um blóðskammarmál á Íslandi 1270-18704, kemur hins vegar mjög skýrt fram að einn ritningarstaður úr 3. Mósebók hefur haft mjög afdrifarík áhrif hér á landi, eins og raunar víða erlendis. Þar er um að ræða 3. Mósebók, 18:6 og áfram. („Enginn skal koma nærri nokkru nánu skyldmenni til þess að bera blygðan þeirra“). Á grundvelli laga sem byggðust á þessum ritningarstað voru að minnsta kosti fimmtíu einstaklingar teknir af lífi fyrir blóðskömm hér á landi á umræddu tímabili.

Þetta dæmi er óneitanlega til þess fallið að styðja við þá hugmynd sem margir hafa af Guði Gamla testamentisins um grimman, refsiglaðan og afbrýðisaman guð. En ekki er vandi að benda á dæmi sem sýna hina andstæðu hlið á guðsmynd Gamla testamentisins, og er sú hlið vissulega ríkjandi þegar grannt er skoðað.

Þeir sem vilja taka bókstaflega og yfirfæra til samtímans það sem ritningarstaðirnar í 3. Mósebók, 18:22 og 20:13, hafa að segja um kynlífssamband fólks af sama kyni hljóta um leið að svara því hvað þeir vilja gera við hin fjölmörgu ákvæði önnur sem er að finna í 3. Mósebók og snerta mataræði, helgi „sabbatsins“, fórnir af ýmsum toga og grimmilegar refsingar ef út af er brugðið. Dæmið sem nefnt var hér að ofan og doktorsritgerð Más Jónssonar fjallar um ætti að vera okkur víti til varnaðar.

Það væri mikil misnotkun á Biblíunni og hinum rauða þræði í boðskap hennar að nota texta eins og 3. Mósebók, 18:22 og 20:13, sem vegvísi fyrir kristna kirkju um hvaða afstöðu hún skuli taka til samkynhneigðra og réttindabaráttu þeirra. Í þessu sambandi er ekki úr vegi að minna á að Biblían er safn bóka sem rituð eru af ólíkum mönnum og endurspegla mismunandi tíma og aðstæður. Það skiptir því miklu að gera sér grein fyrir þeim jarðvegi sem einstök rit (eða jafnvel hlutar rita) eru sprottnin úr. Ekki er nægilegt að spyrja hvað ritin segja um einstök efni, heldur reyna að gera sér grein fyrir hvers vegna þau segja það og síðast en ekki síst að leitast við að gera sér grein fyrir að hve miklu leyti það eigi við gjörólíkar aðstæður okkar í nútímanum.

Sá sem telur nægja að benda á ritningarstaði eins og 3. Mósebók, 18:3 og 20:13, og halda því fram á grunvelli þeirra að ekki þurfi frekari vitna við um hinn biblíulega eða kristna boðskap í málefnum samkynhneigðra, hann hefur gert sig sekan um grófa misnotkun Biblíunnar.

Textarnir virðast ekki síst vera að glíma við þá kynlífsiðkun sem hefur verið svo tengd dýrkun framandi guða og heiðnu helgihaldi að þessi iðkun hefur verið litin sömu augum og heiðindómur í Biblíunni. Þetta virðist ekki síst eiga við um hin mjög svo kröftugu fyrirmæli í heilgaleikabálki 3. Mósebókar.

Samband Davíðs og Jónatans

Frásagnir Samúelsbóka af vináttu Davíðs og Jónatans hafa gjarnan verið dregnar inn í umræðuna um samkynhneigð í ljósi Biblíunnar og þá fyrst og fremst með skírskotun til orða Davíðs í 2. Samúelsók, 1:26: „Ást þín var mér undursamlegri en ástir kvenna.“ Orðið sem þýtt er „ást“ mætti allt eins þýða sem „vinátta“ án þess að það ráði nokkrum úrslitum um hvernig litið er á samband þeirra Davíðs og Jónatans.
En það væri mikil oftúlkun á þessum texta að halda því fram að hann nægi til að unnt sé að slá því föstu að samband Davíðs og Jónatans hafi verið af samkynhneigðum toga. Um það höfum við einfaldlega engar heimildir. Vinátta þeirra var án efa nánari en gengur og gerist og í íslensku þýðingunni er henni ágætlega lýst með orðinu „fóstbræðralag.“ Hins vegar skortir ekki heimildir um að Davíð hafi verið mikill kvennamaður, sbr. ástarævintýri hans og Batsebu.

Í nútímamáli væru menn vafalaust heldur hikandi við að tala um að einn karlmaður elskaði annan ef þeir vildu ekki á annað borð láta skilja sig á þann hátt að þar væri um að ræða ást samkynhneigðra. Í seðlasafni Orðabókar Háskólans er þó að finna ýmis slík dæmi. Eitt þeirra er sérlega skemmtilegt því að þar kemur við sögu Árni stiftprófastur Helgason (1777-1869), sem þýddi Samúelsbækur í Viðeyjarbiblíu. Þar er vitnað í grein um Árna eftir Jón biskup Helgason er birtist í Skírni árið 1927. Þar segir á bls. 12: „Elskuðust þeir heitt séra Árni og Rask meðan báðir lifðu.“ Enginn grunar Jón Helgason biskup um að hafa með þessu orðalagi ætlað sér að gefa til kynna að þeir séra Árni og Rask hafi verið samkynhneigðir.

Syndir Sódómubúa

Frásögnin af misgjörðum íbúa Sódómu í 1. Mósebók, 19. kafla, hefur reynst mjög áhrifamikil í umræðu um samkynhneigð, svo mjög af í ýmsum tungumálum er orðið yfir samkynhneigð sótt í þessa sögu, „sódómí“. En það er vert að veita því athygli að þótt í enga frásögn 1. Mósebókar sé jafnoft vitnað annars staðar í Gamla testamentinu og þessa, þá er því hvergi haldið fram þar að synd íbúa Sódómu hafi verið fólgin í samkynhneigð. Sú túlkun verður ekki til fyrr en hjá þeim Fíló og Jósefusi og hennar verður einnig vart í yngstu ritum Nýja testamentisins.
Dæmið af Sódómu er gjarnan notað til viðvörunar til dæmis 5. Mósebók, 29:23-24, þar sem boðað er að menn eigi í vændum svipað hlutskipti og Sódóma og Gómorra ef þeir yfirgefa sáttmála Drottins. Í spámannaritunum standa Sódóma og Gómorra (eða oft bara Sódóma) fyrst og fremst sem dæmi um almenna spillingu. Þannig segir Jesaja 1:9: „Ef Drottinn allsherjar hefði eigi látið oss eftir leifar mundum vér brátt hafa orðið sem Sódóma, – líkst Gómorru.“ Í næsta versi ávarparar hann dómarana þannig: „Heyrið orð Drottins, dómarar í Sódómu. Hlusta þú á kenning Guðs vors, Gómorrulýður!“ Ekki er vafi á að með þeim orðum ætlar spámaðurinn að sýna hversu spilltir íbúar Jerúsalem séu og þá ekki síst dómaranir. Með sama hætti og íbúar Sódómu brutu gegn boðum Drottins standa áheyrendur Jesaja nú gegn þeim boðskap sem hann hefur að flytja frá Drottni.

Einna ítarlegasta tilvísunin til Sódómu í spámannaritunum er að finna í 16. kafla Esekíelritsins sem hefur að geyma dæmisögu um ást Guðs og trúrof manna. Þar segir, 49-50, að synd Sódómu hafi verið ofdramb. „Hún og dætur hennar höfðu gnótt matar og lifðu góðu lífi í makindum, en réttu þó ekki hinum voluðu og fátæku hjálparhönd.“

Að sjá skóginn fyrir trjánum – Hið æðsta boðorð

Í ljósi einstakra boðorða eins og þeirra sem að framan var getið er rétt að benda á að það er Gamla testamentinu ekki framandi að spyrja um hið æðsta boðorð frekar en lögvitringnum sem bar þá spurningum upp við Jesú (Matteus 22:36 og hliðstæður) og var svarað með hinu tvöfalda kærleiksboðorði og þeirri útskýringu að „á þessum tveimur boðorðum hvílir allt lögmálið og spámennirnir.“
Á vettvangi Gamla testamentisins er nærtækast að minna á boðorðin tíu þar sem hið fyrsta boðorð er ekki aðeins inngangur að hinum níu heldur hefur það tvímælalaust þá lykilstöðu að það ber að túlka öll boðorðin í ljósi þess. 5 Einnig má benda á hversu gagnrýnir 8. aldar spámennirnir voru á ýmislegt það sem heyrði til helgihaldinu svo sem f&oac
ute;rnirnar sem gegna svo stóru hlutverki einmitt í 3. Mósebók. Stundum hefur verið bent á Míka 6:8 sem eins konar samnefnara fyrir boðskap spámannanna, en þar segir: „Hann hefir sagt þér, maður, hvað gott sé! Og hvað heimtar Drottinn annað af þér en að gjöra rétt, ástunda kærleika og fram ganga í lítillæti fyrir Guði þínum?“

Í hinum fjölþætta og margbreytilega boðskap Gamla testamentisins reynir virkilega á það að sjá skóginn fyrir tjánum. Sem betur fer veitir Biblían okkur margvíslega hjálp í þeim efnum og þá alveg sérstaklega Jesús Kristur sjálfur, samanber ívitnað svar hans hér að ofan við spurningu lögvitringsins.

Lokaorð

Samkynhneigðir hafa eins og allir aðrir kristnir menn þörf fyrir að finna jákvæða samsvörun við líf sitt í Biblíunni. Það má gera með því að vísa til þess að maðurinn, óháð kyni hans, litarhætti, stöðu, stétt, trúarbrögðum eða kynhneigð er „skapaður í mynd Guðs“. Það eigum við allir menn sameiginlegt. Það er tvímælalaust misnotkun á fyrstu sköpunarsögu Biblíunnar (1. Mósebók, 1:1-2:4) að nota hana til að setja samkynhneigða menn skör lægra en aðra menn. Þvert á móti á textinn um sköpun mannsins að vera okkur áminning um að það er ekki biblíulegur grundvöllur fyrir því að svipta nokkurn mann þeirri stöðu að vera skapaður í mynd Guðs.
Hér er því slegið föstu að það sé rangtúlkun á umræddum texta að sjá innihald guðsmyndar mannsins (imago Dei) sem hjónaband karls og konu. Sömuleiðis er því haldið fram að það sé í engu samræmi við boðskap sköpunarsögunnar að lesa út úr henni að samkynhneigð sé afskræming á skikkan skaparans og gegn vilja Guðs.

Textinn um sköpun mannsins í mynd Guðs fjallar vissulega ekki um samkynhneigða sérstaklega. En á grundvelli hans má engu að síður draga mikilvægar ályktanir um það mál. Réttilega hefur verið bent á að hann feli í sér þrískipta siðferðilega ábyrgð mannsins, gagnvart Guði, gagnvart náunga sínum og gagnvart umheiminum. Þannig ætti textinn að minna á siðferðilega ábyrgð okkar gagnvart samkynhneigðum mönnum, körlum jafnt og konum, ekki síður en öðrum.

Í andstöðu við þá sem tala um samkynhneigð sem „mistök í sköpunarverkinu“ er textinn um sköpun mannsins í mynd Guðs okkur áminning um að Guð fer ekki í manngreinarálit og skiptir mönnum ekki upp í fullkomna og ófullkomna, ekki heldur hvað snertir kynhneigð þeirra. Hér eru allir menn jafnir fyrir Guði, hafa allir hlutverki að gegna með því að þjóna honum, náunga sínum og umheiminum í samræmi við hið æðsta boðorð.

Hér var því einnig haldið fram að það sem Heilagleikalögin svokölluðu í 3. Mósebók (18:22 og 20:13) hafa að segja um samskipti samkynhneigðra geti ekki orðið mælikvarði fyrir afstöðu kristinnar kirkju. Sá sem telur nægja að benda á slíka ritningarstaði og heldur því fram á grundvelli þeirra að ekki þurfi frekari vitna við um hinn biblíulega eða kristna boðskap í málefnum samkynhneigðra hann hefur gert sig sekan um grófa misnotkun Biblíunnar.

Aukin þekking á málefnum samkynhneigðra og þeirri þjáningu sem þeir hafa mátt þola og margvíslegum mannréttindabrotum gegn þeim hlýtur að gera þá kröfu til kirkjunnar og ekki síst okkar guðfræðinga að kynna okkur málstað þeirra opnum huga. Sú krafa hlýtur að vera gerð til kirkjunnar að hún nálgist málið á annan hátt en að telja í fordæmingarskyni upp ritningarstaði sem hafa að geyma boðskap sem talaður var inn í ákveðnar sögulegar aðstæður þegar þekking manna á samkynhneigð var óneitanlega „í molum“.

Og raunar hefur Biblían strangt til tekið ekkert að segja um samkynhneigð sem slíka, það fyrirbæri sem þekkt er úr nútímanum að menn uppgötkva og finna það á sér að þeir eru í innsta eðli sínu og upplagi samkynhneigðir og fá engu um það breytt. Hér getur að sjálfsögðu verið um að ræða sanntrúað fólk sem vill og þráir oft á tíðum að fá að iðka sína kristnu trú í ábyrgð og trúfesti við þann Guð sem Biblían boðar.

Leiðsögn Ritningarinnar í svo viðkvæmu máli sem þessu er að mínu mati ekki síst að finna í þeim ritningarstöðum sem hafa að geyma kjarnann í hinum biblíulega boðskap, svo sem í hinu tvöfalda kærleiksboðorði eða t.d. hvatningarorða Páls postula í Filippíbréfinu, 1. kafla, þar sem hann segir: „Og þetta bið ég um, að elska yðar aukist ennþá meir og meir að þekkingu og allri dómgreind, svo að þér getið metið þá hluti rétt, sem máli skipta . . .“ Það sem við þurfum fyrst og fremst á að halda í þessu máli er að taka þekkinguna á málefnum samkynhneigðra í þjónustu dómgreindar okkar og umfram allt kærleikans og taka ákvarðanir á grundvelli þess.

_______________________
Tilvitnanir
1 Þetta kemur til dæmis fram í bókarkafla Björns, „Theology and Bioethics“ (einkum bls. 220) í ritinu Bioetikk og teologi. Ritstj. Lars Østnor. Oslo, 1996. Sbr. einnig Life and Death. Moral Implications of Biotechnology. Ritstj. Viggo Mortensen. Geneva: WCC Publications, 1995, en Björn Björnsson er meðhöfundur að því riti. Sjá einkum bls. 10 og áfram.
2 Karl Barth: Church Dogmatics III/I, ensk þýðing 1982, einkum bls. 183-206. Sjálfur hef ég fjallað allítarlega um þessa túlkun Barths í ofannefndri (nmgr. 1) doktorsritgerð minni, bls. 65-76.< br /> 3 Því hefur verið haldið fram að dýpsta merking sköpunarsögunnar sé guðsþjónustan (þjónusta mannsins við Guð) þar sem hún stefnir öll að hinum sjöunda degi, hvíldardeginum. En það atriði snertir tæpast þær spurningar sem hér eru til umfjöllunar.
4 Már Jónsson: Blóðskömm á Íslandi 1270-1870. Reykjavík: Háskólaútgáfan, 1993.
5 Hér má minna á að Þjóðverjinn Werner H. Schmidt heldur því fram í bók sinni Alttestamentlicher Glaube in seiner Geschichte (Neukirchener Verlag, 6. útg. 1987) að 1. boðorðið sé samnefnarinn fyrir hinn fjölþætta boðskap Gamla testamentisins og auk þess það atriði sem öðru fremur greindi trú hinna fornu Hebrea frá trúarbrögðum nágrannaþjóða þeirra.

Grein þessi var lögð fram á Prestastefnu 1997 í umræðu um kirkju og samkynhneigð. Samnefnd gerð hennar, en nokkru ítarlegri, birtist síðan í Kirkjuritinu, 2. hefti, júní 1998, og skal þeim sem vilja fræðast nánar um efnið vísað á hana. Höfundur er prófessor í Gamla testamentisfræðum við Háskóla Íslands og forseti Guðfræðideildar Háskóla Íslands.

Copyright © Gunnlaugur A. Jónsson 1997
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

 

Leave a Reply