Af hverju eru hommar svona mikið á móti keppnisíþróttum? Og er það satt að flestar stelpur í fótboltanum séu lesbíur?
Spurt: Af hverju eru hommar svona mikið á móti keppnisíþróttum? Og er það satt að flestar stelpur í fótboltanum séu lesbíur? Kveðja, T.F.
Svarað: Engum hefur enn tekist að sanna að hommar séu meira á móti íþróttum en aðrir karlmenn. Því síður er vitað til þess að flestar konur sem iðka fótbolta séu lesbískar. Í veröld samkynhneigðra er allt að finna: Lesbíur sem geta ómögulega hitt bolta þótt þær glaðar vildu og síðan aðrar sem standa í fremstu röð keppniskvenna á vellinum. Og á sama hátt eru til dæmi um frábæra keppnismenn meðal homma og síðan samkynhneigða karlmenn sem vita ekkert asnalegra en að sparka bolta í mark eða kljúfa 50 metra laug á mettíma.
En þessar spurningar er vert að skoða frá öðrum sjónarhóli – í ljósi kúgunar og sjálfskúgunar samkynhneigðra í samfélaginu:
Að iðka keppnisíþróttir er ríkur þáttur í gagnkynhneigðri félagsmótun karlmanna. Þegar ungur íþróttastrákur uppgötvar að hann er sennilega hommi hefur hann fyrir löngu skynjað að í íþróttaheimi karla ríkir megn hómófóbía og fyrirlitning á hommum, og ýmsir kunna frá því að segja að þá hafi þeir gefist upp, hrökklast burt og fundið sér önnur áhugamál, jafnvel gerst laumuáhugamenn um keppnisíþróttir en ekki látið sig dreyma um að blanda geði við þann hóp sem iðkar þær. Stöku karlmenn sem hafa náð frábærum árangri erlendis á vettvangi keppnisíþrótta segja frá því að þeir hafi séð ástæðu til að leyna samkynhneigð sinni eins og mannsmorði – slík sé hómófóbían í hópi keppnisíþróttamanna. Að hommar séu antisportistar er ein af ranghugmyndunum um þá og þeim hugmyndum er leynt og ljóst ætlað að ala á fyrirlitningu í garð þeirra, að þeir séu lítilfjörlegir og lélegir karlmenn. Þegar hommar veigra sér síðan við að gefa sjálfa sig til kynna á vettvangi íþrótta fá ranghugmyndirnar byr undir vængi. Því svo sannarlega eru þeir þarna – en fæstum sýnilegir.
Að stæltar og harðsnúnar íþróttakonur séu allar lesbíur er síðan enn ein ranghugmyndin sem hómófóbían vekur. Það er ekki spurningin um það hversu margar lesbíur eru í fótboltanum heldur sú fyrirlitning á konum og á samkynhneigð sem slíkt tal afhjúpar. Ríkjandi gildismat hefur til skamms tíma litið svo á að konur sem sýna snerpu, keppnishörku og líkamlegt úthald séu falskar konur, eins konar ókonur, og þá er nærtækast að gefa þeim einkunnina lesbíur. Hins vegar er það staðreynd að lesbíur hafi náð að mynda miklu sterkari hópkennd en hommar í keppnisíþróttum eins og fótbolta og tekist betur að standa saman um þann ásetning að leyna ekki kynhneigð sinni. Þarna höfum við merkilegt dæmi um það hvar lesbíur hafa náð lengra en hommar í þeirri viðleitni að standa heiðarlega við eigin tilfinningar og upplag, á hvaða vettvangi sem er. Engu að síður er það staðreynd að margar lesbíur gefast upp í keppnisíþróttum, ekki síður en hommar, vegna þeirrar andúðar sem mætir þeim á þessum vettvangi.
Þau sem þekkja til í heimi íþróttanna kannast sennilega við nöfn fótboltahetjunnar Dave Kopay; olympíusundkappanna Greg Louganis og Bruce Hayes; tennisstjarnanna Martinu Navratilovu og Amelie Mauresmo; golfleikarans Muffin Spencer-Davlin eða líkamsræktarkappans Bob Paris sem státaði af titlinum Mr. Universe. Öll hafa þau opinberað samkynhneigð sína og sum hafa goldið hreinskilnina dýru verði: Dave Kopay fékk hvorki inni í keppnisliði né sem þjálfari í amerískum fótbolta eftir að hann kom opinberlega úr felum 1975. Eftir að Martina Navratilova gerði hreint fyrir sínum dyrum urðu fáir til að bjóða henni að auglýsa íþrótta- og hollustuvörur en slíkt er nauðsynleg tekjulind íþróttamanna um allan heim. Þó skyldi maður halda að fordómarnir næðu ekki að hagga við annarri eins ofurstjörnu. Samt er það mál manna að slíkt misrétti sé heldur á undanhaldi hin síðari ár.
Til þess að vinna gegn því volduga vígi hómófóbíunnar sem íþróttaheimurinn er, hafa samkynhneigðir tekið saman höndum um alþjóðlega íþróttaleiki, The International Gay Athletic Games, eða The Gay Games eins og þeir eru oftast nefndir. Þeir þjóna svipuðu hlutverki til eflingar íþróttum meðal samkynhneigðra og smáþjóðaleikarnir meðal dvergríkja Evrópu sem eiga erfitt uppdráttar á íþróttaleikum milljónaþjóða. Upphaflega hlutu leikarnir nafnið Gay Olympics en ólympíunefnd Bandaríkjanna höfðaði mál gegn leikunum og vann sigur. Samkynhneigðir skyldu ekki voga sér að nota ólympíunafnið á íþróttaleika sína þó svo að ótal aðrir hópar samfélagsins fengju óáreittir að tengja ólympíunafnið við keppnir sínar, jafnvel hundar og froskar. Þar er enn eitt dæmi af ótal mörgum um ótta íþróttaheimsins við samkynhneigt fólk. The Gay Games voru fyrst haldnir í San Francisco síðla sumars 1982 og urðu brátt vinsæll viðburður í íþróttaheiminum. Kannski voru það samkynhneigðir sjálfir sem undruðust mest tilurð leikanna. Þeir höfðu ekki gert sér grein fyrir því fyrr hve íþróttaáhugi var a
lmennur og hæfileikarnir miklir meðal samkynhneigðra. Svo sannarlega þjónuðu leikarnir því yfirlýsta markmiði sínu að að efla ólympíuhugsjónina meðal lesbía og homma, kenna þeim að gera sitt besta í hverri keppni og efla stolt þeirra og sjálfsvirðingu. Árið 1994 tóku fimmtán þúsund keppendur frá fjörutíu þjóðum þátt í leikunum í New York, þar á meðal ýmsar frægar íþróttastjörnur. Þegar leikarnir voru í fyrsta sinn haldnir utan Bandaríkjanna, í Amsterdam 1998, voru keppendur einnig um fimmtán þúsund en þátttökuþjóðirnar orðnar sjötíu og átta. Í Amsterdam mættu tveir Íslendingar til leiks, þau Harpa Fold Ingólfsdóttir og Páll Price, og kepptu í bridge, sem líka er ólympíuíþrótt eins og kunnugt er. Það er í eina skiptið sem Íslendingar hafa tekið þátt í alþjóðaíþróttaleikum samkynhneigðra. Við bendum þér líka á merkilegt viðtal við ólympíusundkappann Inga Þór Jónsson hér á vefsíðunni.
Þorvaldur Kristinsson