Skip to main content
Uncategorized

Samkynhneigðir á vinnumarkaði. Málstofa

By 1. febrúar, 2003No Comments

Það var margt um manninn í sal Norræna hússins 31. janúar 2003 á málstofunni Samkynhneigðir á vinnumarkaði sem haldin var af Samtökunum ´78 í samvinnu við Mannréttindaskrifstofu Íslands, en málstofan var liður í fjölbreyttri hátíðardagskrá á aldarfjórðungsafmæli félagsins. Fundarstjóri var Ragnar Aðalsteinsson hæstaréttarlögmaður, en frummælendur voru sex.

Margar birtingarmyndir kúgunar

Rannveig Traustadóttir, dósent í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands hóf umræðuna með erindi sem hún kallaði Þögn, ósýnileiki, áreitni og mismunun: Reynsla samkynhneigðra á vinnumarkaði. Rannveig rakti niðurstöður rannsókna sem gerðar hafa verið hérlendis og erlendis og lýsti fyrst norskri rannsókn frá árinu 1999 þar sem meðal annars var lagt mat á hversu sýnilegir samkynhneigðir væru á vinnustað. Rannsóknin sýndi að miklar breytingar hafa orðið á undanförnum áratugum og að í Noregi gerir nú mikill hluti samkynhneigðra opinskátt um kynhneigð sína á vinnustað. Könnunin sýndi að 7% kvenna og 9% karla höfðu orðið fyrir beinni mismunun vegna kynhneigðar (neitað um starf, stöðuhækkun eða önnur atvinnuréttindi), en 35% kvenna og 44% karla sögðust hafa fundið fyrir mismunun í víðari skilningi (baktal, einelti, félagsleg útilokun, áreitni). Rannsóknin sýndi einnig að því fylgdi almennt betra líkamlegt og andlegt heilsufar að gera opinskátt um kynhneigð sína, en um leið gat það kallað á misrétti.

Þá lýsti Rannveig bandarískri rannsókn frá árinu 1999 á stöðu lesbía sem starfa við heilbrigðisþjónustu. Sú rannsókn beindi ekki síst sjónum að því hvernig vinnustaðamenning á hverjum stað getur komið í veg fyrir að samkynhneigðir verði hluti af vinnustaðasamfélaginu. Meðal þeirra þátta sem þar höfðu áhrif voru a) gagnkynhneigð orðræða (um hvað er spjallað manna á milli, hvað er viðurkennt og hvað er látið ósagt) b) hómófóbískar athugasemdir, c) ætluð gagnkynhneigð og d) staðalmyndir af samkynhneigðum. Rannveig benti á að þann vanda sem samkynhneigðir eiga við að etja þegar þeir þurfa að takast á við sjálfsmynd sína í slíku andrúmslofti á vinnustað. Einnig benti hún á að ekki sé alltaf auðvelt að benda á slíka mismunun, en að hún kalli samt á vissan aðskilnað og jafnvel félagslega einangrun samkynhneigðra. Þannig hefðu sumir í rannsókninni talið sig þurfa að „skilja sitt samkynhneigða element“ eftir heima þegar þeir færu í vinnuna.

Síðan var vikið að tveimur íslenskum rannsóknum sem Sara Dögg Jónsdóttir gerði 2001 og 2002. Fyrri rannsóknin laut að viðhorfi skólastjórnenda til samkynhneigðra, en skólar og aðrar uppeldisstofnanir hafa að mati Rannveigar löngum verið sérlega viðkvæmar gagnvart samkynhneigð. Af þeim skólastjórnendum sem svöruðu spurningum Söru voru 78% á þeirri skoðun að samkynhneigð kennara væri óviðkomandi ráðningu hans, en jafnframt töldu 86% að kennarar ættu að vera í felum gagnvart nemendum sínum. Þannig töldu 96% óþarft að kynna nemendum eða foreldrum sérstaklega að kennari væri samkynhneigður, en 99% töldu óþarft að spyrja foreldra álits á því að samkynhneigður kennari starfaði við skóla þeirra. 91% svarenda sögðust myndu styðja kennara sem yrði fyrir áreitni í starfi vegna kynhneigðar sinnar. Af þessum niðurstöðum greindi Rannveig ekki hvað síst mikla þöggun í garð samkynhneigðra kennara, þar sem 86% töldu rétt að þeir leyndu kynhneigð sinni.

Seinni rannsókn Söru Daggar fólst í viðtölum við þrjá samkynhneigða grunnskólakennara (og hefðu orðið fleiri hefði henni tekist að finna þá). Allir þessir kennarar töldu sýnileika mikilvægan en voru um leið meira eða minna í felum með kynhneigð sína á vinnustað. Viðhorf þeirra einkenndist af ótta og hræðslu um stöðu sína, bæði gagnvart kennurum, nemendum og foreldrum.

Niðurstaða Rannveigar var sú að varla væri það röng lýsing að „þögn, ósýnileiki, áreitni og mismunun“ ríktu á íslenskum vinnumarkaði gagnvart samkynhneigðum. Þó taldi hún um stigsmun að ræða, að mismununin væri frekar óbein en bein, en þögnin væri þó ekki síður kúgandi en önnur form mismununar.

Löggjöf dugar skammt

Atli Gíslason hæstaréttarlögmaður fjallaði því næst um lagaumhverfi og úrræði samkynhneigðra gagnvart misrétti á vinnumarkaði, en Samtökin ´78 hafa nokkrum sinnum leitað til hans með mál sem tengjast mismunun, og í flestum tilvikum hafa úrræði verið engin því að sönnunarvandinn er mikill. Augljóst er að misrétti hefur átt sér stað en þó er ekki hægt að sýna fram á það svo dugi fyrir dómstólum. Atburðirnir eigi sér oft stað á tveggja manna tali, auk þess sem einelti birtist í ótal myndum sem erfitt er að henda reiður á. Hann vék þó að nýlegu máli sem fjallað var um í fjölmiðlum og laut að ráðningu umsjónarmanns á sambýli fyrir unglingspilta í sveitarfélagi á höfuðborgarsvæðinu.  Hann greindi einnig frá að þeir sem fyrir mismunun verða þori yfirleitt ekki að stíga fram, einkum af ótta við að eiga í kjölfarið erfitt með að fá vinnu annars staðar, ekki endilega vegna þess að þeir væru samkynhneigðir, heldur vegna þess að mikil umfjöllun og athygli um andóf þeirra kynni að spilla atvinnumöguleikum síðar.

Atli sagði verndarákvæði í íslen
skri löggjöf sem koma til móts við samkynhneigða fátækleg, flest almenns eðlis og þannig orðuð að þau tækju ekki sérstaklega til mismununar á grundvelli kynhneigðar. Ákvæði 65. gr. stjórnarskrárinnar, Mannréttindasáttmáli Evrópu og lög um samning um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi innihalda verndarákvæði þar sem kynhneigð er ekki sérstaklega tekin fram. Í þeim ákvæðum felst þó viss vernd, en sönnunarvandinn er í flestum tilvikum enn sem áður til staðar og óyfirstíganlegur. Í jafnræðisreglu stjórnsýslulaga (11. gr.) og í upplýsingalögum er að finna ákvæði sem tilgreini samkynhneigð sérstaklega, en þau ákvæði snúa fyrst og fremst að opinberum rekstri en ekki einkarekstri.

Atli sagði hugsanlega mega lögjafna frá ákvæðum laga um jafna stöðu karla og kvenna, auk þess sem ákvæði séu í skaðabótalögum um „meingerð gegn persónuæru“. Í 180. gr. almennra hegningarlaga eru ákvæði sem gera refsivert að neita einstaklingi um vöru eða þjónustu m.a. á grundvelli kynhneigðar og auk þess kveða ákvæði 233. gr. almennnra hegningarlaga á um refsingu til þeirra sem ráðast að einstaklingi eða hópi manna með „háði, rógi, smánun eða ógnun“, m.a. vegna kynhneigðar. Auk þessa tiltók ræðumaður 7. gr. laga um persónuvernd sem lúta meðal annars að vinnslu persónupplýsinga.

Þá vék Atli stuttlega að fyrrnefndu máli um ráðningu í stöðu umsjónarmanns sambýlis fyrir pilta. Það mál hefði þá sérstöðu að þar sem um opinbera geirann væri að ræða væri hægt að kalla eftir rökstuðningi fyrir því hvers vegna umsækjanda var neitað um starf. Í því sambandi þótti Atla sem bæri á því að samkynhneigð væri sett í beint samband við siðleysi.

Atli varpaði fram þeirri spurningu hvað hægt væri að gera til þess að bæta ríkjandi ástand. Oft væru góð lög sett án þess að hugur fylgi máli. Hann taldi lítinn tilgang í því að setja lög til verndar réttarstöðu manna ef ekki fylgdi jafnframt með fræðsla og umræða. Hér taldi hann Svía komna lengst í þessum efnum, en þar voru sett lög árið 1999 um mismunun sem síðan hafa kallað á reglur frá sænska vinnueftirlitinu og lög um jafnrétti í skólum, auk þess sem stofnað hefur verið sérstakt embætti Umboðsmanns samkynhneigðra í Svíþjóð, HomO. Einnig minnti hann á að ESB gerir kröfu til þess að þjóðir sem í sambandið ganga tileinki sér löggjöf sem byggi á jafnrétti.

Að endingu benti Atli á að með vaxandi einkavæðingu hafi réttindi hluta launafólks á vissan hátt tapast því að fyrirtæki sem eru undir hatti hins opinbera verði um leið að lúta stjórnsýslulögum og upplýsingalögum, en þau tryggja starfsmönnum viss réttindi. Hann sagði ekki vanþörf á að skapa einhvers konar ígildi stjórnsýslu- og upplýsingalaga sem nái yfir fyrirtæki í einkarekstri. Niðurstaða Atla Gíslasonar var sú að mestu skipti þó að málefnaleg umræða eigi sér stað, markviss fræðsla sem vonandi kalli á hugarfarsbreytingu.

Leyfilegar spurningar?

Næstur tók Páll Hreinsson, prófessor í lögum við Háskóla Íslands til máls. Hann gat þess fyrst að réttarreglur sem lúta að friðhelgi einkalífs er iðulega mjög erfitt að framkvæma, ekki vegna þess að reglurnar séu óskýrar, heldur er sönnunarstaðan oft erfið í slíkum málum. Páll rakti ýmsar lagasetningar, svo sem lög um meðferð persónuupplýsinga frá 2000 sem bætti réttarstöðu margra, og minnti á 71. gr. stjórnarskrár sem lýtur m.a. að friðhelgi einkalífs, og einnig 8. gr. Mannréttindasáttmála Evrópu. Hann sagði fáa dóma hafa gengið, en í þeim hefur þó hæstiréttur tekið djúpt í árinni og túlkað svo að með þessum greinum eigi menn ríkan rétt á meðan reglurnar eru ekki útfærðar nánar en raunin er í dag. 

Páll segir gildissvið laga 77/2000 um meðferð persónupplýsinga ná bæði til opinberra aðila og einkaaðila. Þar eru persónuupplýsingar rúmt skýrðar: „sérhverjar persónugreindar eða persónugreinanlegar upplýsingar, þ.e. upplýsingar sem beint eða óbeint má rekja til tiltekins einstaklings . . .“ (1. tl. 2.gr.).

Hann taldi upp almennar reglur um meðferð persónuupplýsinga (sjá 7. gr.) en þær eru: a) sanngirnisreglan, b) tilgangsreglan (ef biðja á um persónuupplýsingar má eingöngu gera það í ákveðnum tilgangi; tilgangurinn verður að vera löglegur og málefnalegur, ekki bara forvitni; þetta ákvæði bindur mjög hvaða upplýsingar hægt er að biðja um ef menn sækja um starf), c) magnreglan (ekki má biðja um meira af upplýsingum en nauðsynlegt er), d) áreiðanleikareglan og e) varðveislureglan.

Persónuupplýsingar eru greindar í tvo flokka: a) viðkvæmar (9. gr.) og b) aðrar persónuupplýsingar (8. gr.). Til viðkvæmra persónuupplýsinga teljast kynþáttur, stjórnmálaskoðanir, upplýsingar um glæpaferil, heilsufar, kynlíf og kynhegðun o.fl.

Sérstaka áherslu lagði ræðumaður á tilgangsreglu 7. gr. en hún felur í sér að aðeins má krefjast upplýsinga af umsækjanda um starf svo fremi að málefnaleg rök finnast fyrir því að það atriði sem spurt er um hafi áhrif á hæfni til starfsins. Þannig sé talið eðlilegt að grennslast fyrir um menntun og reynslu, og einnig má krefjast framlagningu sakavottorðs (um brot gagnvart börnum) ef starfið tengist uppeldi barna. Hins vegar telst það sjaldnast m&aacu
te;lefnalegt að spyrja um ættir, fjárhagsstöðu eða stjórnmálaskoðanir.

Loks spurði Páll hvort nokkurn tíma geti verið málefnalegt að óska upplýsinga um kynlíf, kynhegðun og kynhneigð umsækjanda. Niðurstaða hans var sú að afar erfitt hljóti að vera fyrir atvinnurekanda að finna málefnaleg rök fyrir því, en sönnunarbyrði varðandi slík málefnaleg rök liggur vitaskuld alfarið á spyrjandanum.

Vinnuveitendur hafa töluvert frelsi

Bergþóra Ingólfsdóttir lögfræðingur tók því næst til máls en lokaritgerð hennar í lögfræði fjallaði um vinnslu og meðferð persónuupplýsinga á vinnumarkaði. Hún benti á að almennt hefðu íslenskir atvinnurekendur mjög frjálsar hendur við val á starfsfólki þó að lög og kjarasamningar settu einhver takmörk þar á (tryggja aðallega rétt eða forgangsrétt tiltekinna stétta eða hópa). Þó njóti samkynhneigðir og aðrir hópar verndar gegn mismunun.
Bergþóra tók fram að upplýsingalögin gerðu þá kröfu að veitt sé heimild af hálfu þess sem spurður er til vinnslu upplýsinga hverju sinni. Í því samhengi telst samþykki „upplýst samþykki“, þ.e. að sá sem spyr þarf að gera grein fyrir til hvers er spurt og hvaða áhrif það hefur ef viðkomandi neitar að svara, og þá um leið hvort upplýsingarnar hafa áhrif á val í starf. Síðan rakti Bergþóra málavexti og framvindu í áðurnefndu máli umsækjanda um stöðu umsjónarmanns á sambýli pilta, og bar það mál saman við þau atriði sem hún hafði talið upp og fann á því ýmsa vankanta.

Stórvarasamir sturtuverðir

Næst tók til máls Árelía Guðmundsdóttir, dósent við Háskólann í Reykjavík. Hún spurði einfaldlega: Skiptir kynhneigð máli á vinnustað? og sagði frá óformlegri könnun sem hún hafði gert meðal vina, vandamanna og nemenda. Alls staðar fengust þau svör að kynhneigð skipti ekki máli, nema hvað að sumir karlnemendur hennar virtust kunna því illa að hafa homma fyrir sturtuvörð í sundlaugunum.  Sjálf taldi Árelía svarið við spurningunni bæði vera „já“ og „nei“ hvað varðaði færni viðkomandi starfsmanns. Þannig gæti samkynhneigð haft áhrif á viðhorf starfsmannsins (er hann jákvæður? aðlögunarhæfur?), reynslu hans (reynsluheimur homma og lesbía er öðruvísi/sérstakur, en sama gildir um aðra minnihlutahópa), en lykilbreytur væru oftast menntun og frammistaða almennt.

Árelía benti síðan á kosti þess að stjórnendur hugsuðu um fjölbreytni í starfsmannahópi sínum og taldi í því sambandi upp eftirfarandi atriði:
– Vinnuumhverfi sem er þægilegt öllum starfsmönnum veitir samkeppnisforskot vegna minni starfsmannaveltu og fjarvista.
– Fyrirtækinu hlotnast stærri markaður auðlinda (hlýtur jákvæða ímynd, fólk sækist eftir að vinna hjá fyrirtækinu).
– Nýsköpun eykst (fjölbreytt vinnuafl -> fjölbreyttar hugmyndir, fleiri sjónarhorn)
– Fjölbreytni eykur einnig sveigjanleika og hjálpar til við lausn ýmissa vandamála.

En vandamál geta einnig fylgt fjölbreytni:
– skynjuð hlutdrægni við ráðningar/stöðuhækkanir og aðrar mannaflabreytingar.
– mismunandi hópar túlka samskipti á mismunandi hátt (klúrir brandarar, aldursmunur o.fl.)
– upp getur komið einhvers konar hræðsla eða tortryggni.

Þessi vandamál þyrfti að nálgast af skilningi í stað þess að stinga höfðinu í sandinn og taldi ræðumaður upp nokkur mikilvæg lykilorð í því sambandi – skilning, umburðarlyndi, hluttekningu og samskiptavilja. Jafnframt benti hún á nauðsyn þess að framkvæma það sem sett væri fram í starfsmannastefnu.

Árelía lauk síðan máli sínu á því að benda á mikilvæga staðreynd: Að kynhneigð snerist aðeins að litlu leyti um það hjá hverjum maður sefur, heldur um fjölskyldulíf. Hún benti á nauðsyn þess að rétt viðhorf ríktu á vinnustað, að starfsmannastefna og viðhorf stjórnenda mynduðu samfellda heild án þversagna. Að fjölskyldustefna væri ljós. Æskilegast væri að flestir yrðu meðvitaðir um að kynhneigð er hluti af sjálfsmynd einstaklinga en skipti ekki lykilmáli hvað varðar frammistöðu þeirra í starfi.

Tímarnir breytast

Halldór Guðmundsson útgefandi var síðastur frummælenda. Hann nálgaðist umræðuefni dagsins frá persónulegum sjónarhóli og greindi frá reynslu sinni sem stjórnandi á meðalstórum vinnustað þar sem háttsettur starfsmaður kom úr skápnum og fjallaði síðan um þær miklu breytingar á viðhorfum manna sem orðið hefðu á undanförnum tveimur áratugum. Þegar samstarfsmaður hans lýsti því yfir árið 1990 að hann væri samkynhneigður hafði sá áhyggjur af því hvort hann væri hugsanlega að skaða fyrirtækið og farið var gætilega í það að ræða við starfsmenn. Menn veltu því þá fyrir sér hvort ekki væri ástæða til að hafa áhyggjur af opinberri umfjöllun. Allt þetta gekk þó mun auðveldar en menn héldu. Halldór minntist þess að elsti stjórnarmaður fyrirtækisins, þá á níræðisaldri, hefði verið sá sem sýndi málinu hvað mestan skilning ólíkt því sem margir höfðu vænst. Starfsmenn hefðu í fyrstu pískrað sín á milli, en um leið og viðkomandi starfsmaður sagði hispurslaust frá sjálfum sér hefðu þær raddir þagnað. Í reynd reyndist atburðarásin fyrirtækinu til góðs. Einu neikvæðu viðbrögðin var „skítagrein í sl&
uacute;ðurblaði“ eins og Halldór komst að orði, þar sem því var haldið fram að hinn samkynhneigði starfsmaður stundaði mismunun með því að skipa samkynhneigða vini sína í störf. Hann tók síðan nærtækt dæmi um breyttan tíðaranda: Ekki hefði það vakið minnsta umtal eða athygli í fyrirtæki hans árið 2002 þegar samkynhneigður einstaklingur var ráðinn í stöðu yfirmanns.
Halldór undirstrikaði það ágæti skýrrar starfsmannastefnu að hún markaði öllum aðilum skýran grundvöll til að standa á ef eitthvað kæmi upp á. Og sagði mikinn kost í því fólginn að starfsfólkið endurspeglaði mannlífið í heild sinni.

Að erindum loknum var gestum gefinn kostur á að bera fram fyrirspurnir og gera athugasemdir við málflutning frummælenda. Tveir samkynhneigðir áheyrendur vöktu máls á því hve lýjandi það væri að þurfa ítrekað og endurtekið að koma út úr skápnum í nýju umhverfi. Þannig væri það þreytandi til lengdar að þurfa að gera eigin kynhneigð að umtalsefni í hvert sinn sem skipt er um starfsvettvang eða þegar nýir aðilar rata inn á vinnustaðinn. Kennarahlutverkið væri þreytandi til lengdar.

Einn viðstaddra vakti máls á breyttu viðhorfi sem honum virtist ríkja meðal ungra lesbía og homma í dag, ólíkt því sem heyra mætti hjá eldri kynslóðum. Að ungt samkynhneigt fólk á Íslandi gengi út frá því að fólk væri fordómalaust og liti frekar á það sem frávik en hitt að mæta fordómum þar sem eldri kynslóðinni þætti hún alltaf mega búast við fordómum eða aðkasti.

Ragnar Aðalsteinsson fundarstjóri þakkaði frummælendum að lokum fyrir framlag þeirra og öðrum gestum fyrir þátttöku í umræðunum. Ragnar kvaddi gesti með þeim orðum að opinbera málstofu af þessu tagi hefði sennilega ekki verið hægt að halda fyrir áratug. Svo mjög sem mannréttindamál samkynhneigðra hefðu til skamms tíma átt undir högg að sækja. En tímarnir breytast!

Copyright © Ásgeir Ingvarsson 2003
Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply