Stjórn, trúnaðarráð og starfsfólk Samtakanna ´78 eru í skýjunum með SAMTAKAMÁTTINN – þjóðfund hinsegin fólks sem fram fór í Ráðhúsi Reykjavíkur þann 1. júní 2013. Í honum tóku þátt um 120 manns á aldrinum 15 til 87 ára. Fundurinn var haldinn í tilefni 35 ára afmælis S78 og lagt upp með að á þessum tímamótum sé nauðsynlegt að staldra við, skoða stefnumálin og forgangsraða. Margir sigrar hafa náðst í 35 ára starfi og fjöldi fólks lagt blóð, svita og tár í baráttuna þau ár sem Samtökin hafa verið til. Það voru fundargestir rækilega minntir á þegar Lana Kolbrún Eddudóttir og Þorvaldur Kristinsson, fyrrum formenn Samtakanna, stigu á svið og sögðu örsögur frá fyrri árum. Eygló Harðardóttir félagsmálaráðherra og Dagur B. Eggertsson formaður borgarráðs ávörpuðu fundinn af einlægum áhuga á málefnum hinsegin fólks. Reynslumiklir félagsmenn, þau Ragnhildur Sverrisdóttir og Felix Bergsson, stýrðu fundinum af stakri snilld. Fjöldi fólks lagði á sig mikla sjálfboðavinnu til að fundurinn gengi jafn vel og skipulega fyrir sig og raunin varð og þetta fólk á miklar þakkir skildar. Um kvöldið var fagnað á Hinsegin hátíð á borginni. Mannréttindaborgin Reykjavíkurborg á svo sannarlega þakkir skildar fyrir frábært samstarf við Samtökin ´78 kringum fundinn.
En það er ekki nóg að halda flottan fund og safna miklum fjölda góðra hugmynda. Nú er sá hluti að baki en við tekur úrvinnsla. Í fyrsta lagi þarf að halda skipulega utan um hugmyndirnar. Í öðru lagi þarf að framkvæma. Forysta S78 hóf strax vinnu við úrvinnsluhlutann og biðlar til félaga í Samtökunum ´78 að taka virkan þátt í starfinu til framtíðar svo hægt sé að láta sem flestar hugmyndanna frá SAMTAKAMÆTTINUM 2013 verða að veruleika.
Þó að mikil vinna sé fyrir höndum og nokkur tími sé í að hægt verði að birta niðurstöður þeirrar vinnu viljum við þó birta niðurstöður borðavinnunnar eins og hún kom fram á fundinum. Öll skjölin eru í PDF formi sem auðvelt á að vera að skoða og prenta út. Við munum svo að sjálfsögðu bæta við upplýsingum og niðurstöðum þegar það verður hægt.
- Borð 1 – Innra félagsstarf samtakanna
- Borð 2 – Ytra samstarf, ímynd og kynningarmál
- Borð 3 – Hinsegin samfélagið
- Borð 12 – Hinsegin samfélagið (Aukaborði var bætt við málaflokkinn sökum vinsælda)
- Borð 4 – Fræðslumál
- Borð 5 – Fræðslumál (Aukaborði var bætt við málaflokkinn sökum vinsælda)
- Borð 6 – Réttindabarátta
- Borð 7 – Fjölskyldumál
- Borð 8 – Íþrótta- og Lýðheilsumál (Málefnin voru sameinuð)
- Borð 9 – Menningarmál
- Borð 10 – Alþjóðleg samskipti
- Borð 11 – Borð fyrir enskumælandi þáttakendur með alla málaflokka
Hér má svo finna skjal með öllum hugmyndum sem fram komu á fundinum.