Skip to main content
search

Samtökin ’78 og Samkaup hafa skrifað undir samstarfsyfirlýsingu sem snýr að jafnréttisstefnu Samkaupa. Samtökin ’78 fagna frumkvæði Samkaupa og hlakka til að taka virkan þátt með Samkaupum til að byggja undir jafnréttisstefnu þeirra.

Bæði Samtökin ’78 og Samkaup eru sammála um að gera þurfi betur í málefnum hinsegin fólks á vinnumarkaði á Íslandi. Veita þurfi hinsegin fólki betri aðgang að vinnumarkaði á þeirra forsendum og án fordóma né öðrunar. Stjórnendur þurfi að sýna fordæmi og efla vitundarvakningu meðal starfsfólks síns um málefni hinsegin fólks og stuðla þannig að opnari samskiptum. Aðilar eru sammála um að þörf sé á nýrri nálgun og nýrri hugsun í málefnum hinsegin fólks á vinnumarkaði á Íslandi.

Markmið samkomulagsins er að skapa vettvang fyrir umræðu, upplýsingaöflun og miðlun fræðslu, rannsókna og þróunarstarfs í þessum málefnum.

Samstarfsaðilar munu á samningstímabilinu vinna sameiginlega að eftirfarandi verkefnum:

a. Námskeiðahaldi og fræðslu um málefni hinsegin fólks á vinnumarkaði á Íslandi, bæði til handa stjórnendum Samkaupa sem og öðrum starfsmönnum. Með þessu verður leitast við að skapa umræður, nýja hugsun og nýjar leiðir í samskiptum við hinsegin samstarfsfólk.

b. Að sama skapi verður leitast við að fræða stjórnendur og starfsfólk um mikilvægi opinna samskipta og aðgerða gegn hverskyns fordómum á vinnustað.