Skip to main content
Uncategorized

Segið heiminum frá reynslu ykkar

By 23. mars, 2007No Comments

Ávarp á Regnbogavöku á Akureyri 3. mars 2007. Sjaldan á ævinni hef ég orðið eins undrandi og laugardaginn 12. ágúst árið 2000. Við Rauðarárstíg í Reykjavík vorum við, rúmlega 100 manns, að stilla upp göngu eins og það heitir á okkar máli. Gleðiganga Hinsegin daga var í startholunum og brátt skyldi haldið af stað fyrir hornið á Hlemmi, niður Laugaveg.

Hvergi sást kvíði á nokkrum manni, samt var þetta uppátæki litað slíkum kvíða vikurnar og dagana á undan, að mér þótti stundum nóg um. En nú skyldi bitið á jaxlinn. Þetta var ekki í fyrsta sinn sem hópur lesbía og homma hafði lagt upp í göngu um miðborgina. Árið 1993 höfðum við farið um Laugaveginn 70 saman, og það gerði okkur gott. Árið eftir tókst að telja 74 í hópnum. Þá gáfumst við upp og spurðum hvert annað: Erum við ekki bara að afhjúpa smæð okkar og umkomuleysi?

Mikið hafði verið deilt um réttmæti göngunnar sumarið 2000 og úrtöluraddirnar háværar. Hvernig færi þetta allt saman? Samt þóttumst við viss um að tíminn hefði unnið með okkur frá því um árið, að við gætum treyst á að 200–300 manns úr hópi vina og stuðningsfólks myndu mæta og fagna. En var það nóg? Yrðum við ekki enn sem fyrr að athlægi þeirra sem töldu okkur smánarblett á fríðu samfélagi? Yrði þessi dagur ekki enn einu sinni til að sanna það sem við áttum að vita, að okkur væri ætlað að lifa öllu okkar lífi á jaðrinum? Að það væru nú einu sinni aðrir sem ættu Laugaveginn og eins gott að horfast í augu við það?

Ég var staðsettur í miðri fylkingu og þegar ég náði loks fyrir hornið á Hlemmi sá ég það sem haft hefur meiri áhrif á mig en nokkuð annað þau tuttugu ár sem ég hafði lagt hreyfingu homma og lesbía lið. Þúsundir stóðu á gangstéttunum til að fagna, vera með, bíða eftir að komast í gönguna og mynda halann. Og það sem meira var, ég þekkti varla eitt einasta andlit. Hvaðan kom þetta fólk? Ég þekkti ekki þjóð mína, en þarna var hún komin og hafði ákveðið að upplifa það að vera hinsegin í einn dag og mæta okkar reynslu á jafnréttisgrundvelli. Svo sannarlega munar um hvern þann dag sem heimurinn gengur inn í heim okkar, gengur í okkar spor, fylgir okkar nótum.

Með árunum vandist maður þessari sýn, fór að líta á hana sem sjálfsagða. En þá birtist gestur síðasta sumar. Séra Pat Bumgardner, prestur úr söfnuði hinsegin fólks í New York, Metropolitan Community Church, kom til landsins í boði Hinsegin daga í Reykjavík og predikaði yfir þéttsetnum bekkjum í Hallgrímskirkju. Þar gerði hún meðal annars sérstöðu Íslands að umræðuefni. Hún sagði frá því að í Jerúsalem, þar sem hún hafði verið gestur fyrr um sumarið, hefði orðið að aflýsa Gay Pride göngu á síðustu stundu til að stofna ekki lífi göngufólks í hættu. Hún minnti okkur líka á það að í heimaborg hennar, New York, er hliðstæð gleðiganga vandlega umkringd girðingum í tilefni dagsins. Alls staðar þar sem ganga fer um borgina sér lögregla ástæðu til að reisa virki við gangstéttarnar, halda almenningi frá þátttakendum – beinlínis til að verja líf þeirra og limi.

„En í göngunni í gær,“ sagði séra Pat, „var fólkið á gangstéttinni beinlínis ofan í okkur, fjölskyldufólk, gamalt fólk, unglingar og börn. Engin lína var dregin milli manna, allir voru ein fjölskylda.“ „Hugsið nú um það hvað ykkur er gefið,“ sagði hún við mig þetta sama kvöld. „Hugsið um hvað það þýðir að þurfa ekki að draga línu milli ykkar og annarra. Horfist í augu við vináttuvottinn og segið heiminum frá reynslu ykkar og sérstöðu svo að hann geti lært.“

Einmitt þetta held ég að sé eitt okkar stærsta áskorun í næstu framtíð. Að hugsa um það hvað okkur er gefið og reyna að nýta það til góðs. Ísland hefur margvíslega sérstöðu hvað varðar stöðu samkynhneigðra, en eitt er þar merkilegra en annað – fjölskylduböndin. Stór hluti af veruleika hverrar manneskju snýst um tengslin við ætt og fjölskyldu, við getum ekki kvatt uppruna okkar svo glatt, eins og svo margir gera meðal hinsegin fólks annars staðar í heiminum, til að gera samkynhneigt líf sitt að veruleika. Nútímamenning Íslendinga er barnung, fyrsti vísir að vesturænu borgarsamfélagi hefur orðið til hér á landi í manna minnum. Við stöndum ennþá öðrum fæti í samfélagi sveitarinnar, ættarinnar, og eftir ýmsum leiðum og með ýmsum táknum staðfestum við skyldleikann hvert við annað. Samstaða ættar og fjölskyldu sem svo margri ungri manneskju finnst stundum fjötur um fót, jafnvel aulaleg tímaskekkja, varð þrátt fyrir allt helsti styrkur hinsegin fólks á Íslandi við aldamót. Hver skyldi nú hafa trúað því?

Íslenska fjölskyldan útskúfar nefnilega ekki sínum, að gera mannamun á ættarmótum hennar er ekki aðeins óhugsandi, heldur beinlínis illt verk. Og ef hún slysast til að reyna eitthvað slíkt í fljótfærni þá verður viðkomandi að draga gerðina til baka. Þegar hinsegin fólk á Íslandi treysti sér loksins til að staðfesta eigin tilveru í dagsbirtunni á Laugavegi, stóð íslenska fjölskyldan þarna tilbúin, eins og henni hafði verið innrætt. Og það sem meira var, hún bað um að fá að vera með í leitinni að betra lífi.

En sú leit kostar vinnu og
það verður verkefni framtíðarinnar að skipuleggja hana, vega og meta hvað brýnast er að gera og átta sig á því hvernig leysa skuli málin og í hvaða röð. Ég ætla ekki að tala hér fyrir stefnuskrá eða leggja fram verkefnabanka til handa hinsegin fólki og fjölskyldum þeirra í leit að betra lífi – en eitt vil ég nefna:

Þó að alltaf hafi verið til sú manngerð sem lagði ást á aðra manneskju af sama kyni, þá hefur samkynhneigð ekki alltaf verið til sem skilgreinandi þáttur í menningu okkar. Heldur ekki gagnkynhneigð. Sú árátta til að skilgreina og kortleggja sem varð til á 19. öld, til þess að hafa hemil á þegnunum og birtist skýrast í flokkunaráráttu læknisfræði og afbrotafræði, þessi árátta bjó til hugtakið samkynhneigð og vitund manna um hana. Allt í því skyni að hafa stjórn á þegnunum. Því að í kjölfarið fylgdu ráðstafanir, eftirlit og flókið kerfi beinnar og óbeinnar frelsissviptingar sem entist okkur alla 20. öld og lifir raunar enn víða um lönd.

En hugtakið kallaði á andstæðu sína og henni var gefið nafnið gagnkynhneigð. Það hugtak er líka mannanna verk og hefur tekið ýmsum breytingum í áranna rás. Í lok 19. aldar var það skilyrði hins góða gagnkynhneigða hjónabands á Vesturlöndum að það hefði fjölgun mannkyns að leiðarljósi. Barnlaust hjónaband karls og konu var perversjón, afbrigðileiki, skilnaðarástæða. Þetta hljómar fáránlegt í dag, en svona var þetta. Og sýnin á hina góðu gagnkynhneigð við lok 19. aldar, staðfestingin á ágæti hennar, nærðist á vitund um andstæðu sína, að til væru hómósexúalistar án þessa möguleika, að geta börn.

Nú vitum við betur. Enn sem fyrr er samkynhneigðin þó notuð leynt og ljóst til að upphefja, staðfesta og réttlæta gagnkynhneigt líf. Gagnkynhneigðin nærist sem fyrr á samkynhneigðinni sem hinni neikvæðu andstæðu sinni. Ég hef um skeið unnið að rannsóknum meðal homma á Íslandi og í því skyni hafa margir sagt mér lífsögur sínar. Lengi vel hélt ég að ég væri að fást við samkynhneigð en smám saman rann upp fyrir mér að ég er í rauninni að fást við gagnkynhneigð. Viðmælendur mínir eru í rauninni ósköp venjulegir og hversdagslegir og í sjálfu sér ekki í frásögur færandi frekar en ég sem hér tala. En lífsbarátta þeirra, tíðindin í lífi þeirra, þetta snýst alltaf um glímuna við þau gagnkynhneigðu gildi sem að þeim eru rétt. Þeir urðu annars flokks þegnar við það að mæta upphöfnum gildum gagnkynhneigðarinnar sem þeir hvorki vildu né gátu ráðið við. Því segi ég: Okkar brýnasta verkefni er að rekja ofan af hinu gagnkynhneigða gildismati og sjálfupphafningu þess.

Nú veit ég að svo lengi sem ég lifi munu þessi andstæðupör lifa, það að vera hómó eða heteró, en það má hamla gegn þeim, ekki bara samkynhneigðum til góða, heldur líka gagnkynhneigðum sjálfum. Hugmyndir gagnkynhneigðarinnar um ágæti ákveðins lífsstíls og gilda, t.d. allt það sem lýtur að hinum sanna karlmanni eða hinni sönnu móður, eru engum til góðs þegar grannt er að gáð.

Samkynhneigðir þurfa líka að varast það í réttindabaráttu sinni að ánetjast ekki gagnkynhneigðu gildismati í blindni. Hamingja hverrar manneskju snýst um það að fá að ráða lífi sínu eins og hún telur best, svo lengi sem hún treður ekki á öðrum og særir aðra. Svo ég taki dæmi: Sú barátta sem ég hef tekið þátt í síðustu ár hefur snúist um það að jafna fjölskyldurétt og skapa fjölskylduvernd an tillits til kynhneigðar. Sami réttur til allra er vissulega verðugt viðfangsefni. En ef þessi nýfengni réttur yrði til þess að við byrjum enn og aftur að draga fólk í dilka – hvað þá?

Eins og það er nú mikilvægt að allar þær lesbíur sem langar til að sinna móðurhlutverkinu fái hindrunarlaust að gera það, þá væri það hörmulegt ef þessi nýfengni réttur yrði til þess að til yrðu tveir hópar samkynhneigðra kvenna, sá æðri, sem ræktar móðurhlutverkið, og sá óæðri sem vogar sér að afþakka þetta hlutverk. Á sama hátt þætti mér það hörmulegt ef nýfenginn hjúskaparréttur samkynhneigðra yrði til þess að til yrðu tveir flokkar, annars vegar fyrsti flokkur, hommar og lesbíur í parsambandi og hjúskap, og hins vegar þau sem ekki vilja, geta eða kæra sig um það lífsform. Ef slíkir flokkadrættir tækju að móta gildismat samkynhneigðra og fjölskyldna þeirra væri það ekkert annað en dapurlegt bergmál af hinu gamla gagnkynhneigða gildismati sem að okkur er rétt – að mæður séu merkilegri en aðrar konur, að hjón séu merkilegri en stakir einstaklingar. Látum vera þótt við flokkum kartöflur og rófur, en okkur leyfist ekki að setja manneskjur í gæðaflokka.

Ef við berum vit og gæfu til að sjá í gegnum þau margvíslegu kúgunarferli, sem endalaust er að okkur rétt, og vinna gegn þeim, þá er ástæða til að hlakka til framtíðarinnar. Sú vinna er hlutverk allra manna og ég er ekki frá því að hinir gagnkynhneigðu gestir hér í dag þættust ríkari og frjálsari manneskjur við að fá að taka þátt í slíkri gagnrýni á menningu okkar allra.

Því það er mat mitt að eitt af brýnustu og skemmtilegustu verkefnum lífsins, eins og það snýr að okkur hér og nú, sé a&eth
; vinna gegn hinu gagnkynhneigða regluveldi sem gegnsýrir lífið. Eftir því sem þessu verkefni þokar áfram munu okkur bjóðast betri og fleiri möguleikar til að velja hver við viljum vera, og til að vera metin fyrir það sem við erum og gerum, en ekki fyrir það sem við ættum að vera og ættum að gera.

© Þorvaldur Kristinsson 2006

Tilvitnun er öllum heimil sé heimildar getið

Leave a Reply