Skip to main content
search
Uncategorized

Kristin siðfræði og samkynhneigð: Hvar stöndum við og af hverju?

By 12. febrúar, 2004No Comments

Hugtakið kristin siðfræði er regnhlífarhugtak. Undir þessari regnhlíf rúmast siðfræðileg framsetning guðfræðinga hinna mörgu kristnu kirkjudeilda. Það væri því villandi að tala um kristna siðfræði sem væri hún ein og einslit og auðveld að höndla. Kristin siðfræði rennur fram eins og breitt fljót í tíma og rúmi. Í hana renna stöðugt nýjir lækir ? litlir og stórir, sem hafa áhrif á rennsli fljótsins, lit og lögun. Kristin siðfræði er ekki endilega sú sama í gær og í dag.

Nýir straumar blandast eða blandast síður hinum þunga straumi, nýjir tónar heyrast, aðrir þagna. Evangelísk-lútersk siðfræði er einn lækur sem rennur í fljótinu breiða, ekkert merkilegri en aðrir lækir, en fyllilega þess virði að skoða í gagnrýnu ljósi.

Sú kristna siðfræði sem ég hef fyrir augum í erindi mínu er sú sem stendur okkur næst: siðfræði guðfræðinga í hópi mótmælenda; reformert og lúthersk siðfræði. Í erindinu mun ég gagnrýna þessa siðfræði og halda því fram að skýra megi að hluta, hvar kirkjan okkar hér á landi stendur í dag varðandi málefnið samkynhneigð út frá sögulegum áherslum þessarar siðfræði.

Ég vil setja fram eftirfarandi tilgátu: Áhersla á Biblíuna sem mikilvægustu og stundum hina einu gildu heimild siðfræðilegrar íhugunar heldur málefninu samkynhneigð í gíslingu í kirkjulegu samhengi.

Tíminn leyfir ekki að gerð sé grein fyrir helstu niðurstöðum siðfræðilegrar vinnu guðfræðinga á Norðurlöndum síðustu ár varðandi þetta málefni. Hvað þær varðar vísa ég til greinargerðar nefndar um samkynhneigð og kirkju sem skilaði niðurstöðum í heftinu Samkynhneigð og kirkja árið 1996 undir verkstjórn sr. Ólafs Odds Jónssonari. Síðan þá hefur umræðan á Norðurlöndunum haldið áfram og nýjir vinnuhópar skilað niðurstöðumii. Það atriði sem ég vil undirstrika í sambandi við þessa vinnu er sú óeining í niðurstöðum sem komið hefur fram í greinargerðum vinnuhópanna. Sú óeining sem ég beini sjónum að í þessu erindi fjallar um mismunandi skoðanir á því hver eigi að vera grundvöllur siðfræðinnar. Þetta er mjög mikilvægt atriði þar sem öll umræða um samkynhneigð í guðfræðilegu samhengi hefur farið fram undir merkjum siðfræði. Þeir guðfræðingar sem leggjast gegn viðurkenningu á samkynhneigð bæði almennt talað og einnig viðurkenningu á parasamböndum samkynhneigðra, bera fyrst og fremst fram ein meginrök. Þau rök eru svokölluð biblíuleg skoðun, einnig kallað kennivald Biblíunnar.

Þannig má lesa í greinargerð sr. Ólafs Odds Jónssonar og félaga, Samkynhneigð og kirkja, þegar vísað er til vinnu sænska vinnuhópsins frá árinu 1994: ? Sjónarmið minnihlutans gengur út frá hinni biblíulegu skoðun á sköpuninni og ályktar í samræmi við hana, að ekki sé hægt að segja að einhver sé skapaður samkynhneigður. / . . . / Minnihlutinn leggur til grundvallar skoðun sinni, hina guðlegu, biblíulegu opinberun sem kennivald í málum er varða kenningar kirkjunnar og þá um leið grundvöll siðfræðinnariii.

Heimildir kristinnar siðfræði

Hvaða heimildir skal unnið með í kristinni siðfræði? Þessari spurningu svara guðfræðingar á mjög misjafnan hátt og því alveg ljóst að í kristinni guðfræðihefð er ekki til nein ein heildstæð siðfræðileg kenning. Vanalegt er að tiltaka a.m.k. fjórar ólíkar heimildir kristinnar siðfræði. Það er í fyrsta lagi Biblían og þær siðfræðilegu ábendingar sem hún hefur að geyma. Í öðru lagi má nefna hina svokölluðu kristnu hefð. Þá er átt við siðfræðilegar hugleiðingar sem varðveist hafa úr kristni liðinna alda. Í þriðja lagi leggja margir mikið upp úr mannlegri reynslu og nútíma þekkingu um hana, sérstaklega við framsetningu kristinnar siðfræði í samtímanum. Í fjórða lagi hafa heimspekilegar kenningar alltaf haft mikið gildi í kristinni siðfræðiiv.

Vandamál kristinnar siðfræði fjallar þó ekki fyrst og fremst um hvaða heimildir skuli unnið með heldur fremur um innbyrðis vægi þeirra. Það er velþekkt að guðfræðingar í hópi mótmælenda, sögulega séð, hafa lagt mikið upp úr ritum Biblíunnar við mótun kristinnar siðfræði á meðan kaþólskir guðfræðingar hafa ekki gert það í sama mæli. Í staðinn hafa hinir síðarnefndu lagt meira upp úr skynsemi mannsins. Skoðanamunur þessarra kirkjulegu hefða varpar ljósi á mismunandi skilning þeirra á siðfræðina og eðli hennar í guðfræðilegu samhengi. Þá afstöðu sem heldur því fram að rök siðfræðinnar fyrir helstu siðferðilegum sjónarmiðum og gildum grundvallist endanlega í opinberuninni í Kristi má kalla opinberunarsiðfræði. Hina, sem heldur því fram að þau grundvallist fremur í skynsamlegum, röklegum hugleiðingum mannsins, má kalla skynsemdarsiðfræði.

Skynsemdarsiðfræði

Samkvæmt skynsemdarsiðfræði er siðfræðin sjálfstæð í þeirri merkingu að hún grundvallast á mannlegri skynsemi fyrst og fremst. Með heilbrigðri skynsemi sinni geti maðurinn skynjað hvað sé rétt og rangt , skynjað hvað honum beri að gera gagnvart náunga sínum. Opinberunin í Kristi gerir engar nýjar siðferðilegar kröfur til mannsins. Það siðferði sem Jesús boðaði samræmist algerlega náttúrulögmálinu. Boðið um að elska óvini sína er ekki s
érstakt fyrir kristnina. Á þennan hátt rökræðir hinn þekkti kaþólski siðfræðingur Bruno Schüller og margir þekktustu guðfræðingar sögunnar með honum. Með því að vísa til náttúrulögmálsins eins og það hefur verið túlkað í kaþólskri guðfræðihefð heldur Schüller því fram að siðfræðilega feli opinberunin í Kristi ekki í sér neitt nýtt siðalögmál og gefi þar af leiðandi ekki neinar nýjar viðmiðanir varðandi rétt og rangt. Opinberunin i Kristi sé boðskapur um fyrirgefningu syndanna og sem slíkur geti sá boðskapur veitt manninum innblástur og gefið honum styrk til að fylgja náttúrulögunum varðandi rétta breytni. Lúther taldi boðorðin tíu vera samnefnara fyrir náttúrurlögmálið samtímis því sem kærleikurinn megnaði að skapa ný boðorð. Kjarna náttúrulögmálsins taldi Lúther gullnu regluna tjá, svo og kærleiksboðorðiðvi.

Opinberunarsiðfræði

Siðfræði af þessu tagi hafnaði Karl nokkur Barth. Barth hélt því fram, og það með réttu, að mannleg skynsemi hefði beðið skipbrot í síðari heimstyrjöldinni. Þar sýndi maðurinn að hann notaði eigin vilja, skynsemi og þekkingu til illverka. Viðbrögð Barth voru þau að taka hina klassísku siðfræði sem byggði á náttúrulagahugsuninni, rassskella hana og setja hana síðan í skammarkrókinn. Ótti hans gagnvart því að heimspekileg skynsemissjónarmið siðfræðinnar yllu skemmdum á opinberun guðdómsins gerðu að verkum að hann fór að hatast við alla heimspekilega hugsun. Milli guðfræði og heimspeki mátti ekkert samband vera. Annars væri hætta á að guðfræðin missti sjálfstæði sitt. Besta leiðin til að tryggja sjálfstæði guðfræðinnar var að einangra hana í herbergi útaf fyrir sig. Þannig vildi hann verja eðli Ritningarinnar sem orð Guðs. ?Við trúum með kirkjunni að heilög ritning, sem hinn upprunalegi og réttmæti vitnisburður um guðlega opinberun, sé sjálft Guðs Orð.vii? Sérhvert túlkunarlegt atriði í guðfræðinni varð með nauðsyn að byggja á þessum grunni. Þar með umbreyttist og öll biblíutúlkun í spurningu um hlýðni: ?vitnisburður Biblíunnar… og sjálfræði í okkar eigin hugarheimi, segir Barth, – er ógerlegt túlkunarlegt prógram.? viii

Kenning Karls Barth um eðli siðferðisins er hreinræktuð boðorðakenning (Divine Command Theory). Í meginatriðum gengur sú kenning út á að þegar sagt er að eitthvað sé siðferðilega rétt merki það ?fyrirskipað af Guði? en siðferðilega rangt merki ?bannað af Guði.? Guðsmyndin er löggjafinn sem kunngerir mönnunum reglur til að lifa eftir. Sem verur með frjálsan vilja erum við ekki neydd til að fylgja þessum reglum en okkur ber að gera það. Það er kjarni hins siðferðilega lífs.

Nú væri hægt að fara mun dýpra í þessa hluti en það er ekki ætlunin hér. Ætlunin er einungis að benda á hversu djúpstæð áhrif opinberunarguðfræði og boðorðakenning eins og hún birtist t.d. hjá Karli Barth varðandi siðfræðina hefur haft á á guðfræðilega sýn okkar hér á landi um áratuga skeið. Ég vil halda því fram að kirkjuleg umræða um samkynhneigð og réttlætingu þess að vígja samkynhneigð pör í hjónaband hafi fyrst og fremst farið fram á boðorðakenningarlegum nótum og slíkt hamli gegn siðferðilega ábyrgri umræðu um þessa hluti. Ástæðan er allt of mikil svartsýni Barth gagnvart getu mannsins og möguleikum. Barth ætlar manninum ekki neitt virkt hlutverk þegar hann les og túlkar Biblíuna. Honum ber að vera móttakandi án virkrar þátttöku. Túlkunarfræðilega er prógram Barth einstefna. Öll þekking kemur úr einni átt, beint að ofan. Hlutverk mannsins felst einungis í að taka við orðum biblíunnar, skilningurinn kemur af sjálfu sér. Því meira sem maðurinn innbyrðir af orðum Biblíunnar því betra. Textinn túlkar sig sjálfur þegar maðurinn hefur innbyrt hann og hvetur lesanda sinn til þess að spyrja réttra spurninga.

Jæja, svo þetta er allt Barth að kenna! Er það svo einfalt? Auðvitað ekki. Ástæðan fyrir því að ég nefni Barth til sögunnar og geri hann að fulltrúa þeirra viðhorfa sem ég hef nefnt er ekki bara þessi. Fyrir utan það að strika siðfræði út sem sjálfstæða fræðigrein innan guðfræðinnar og innlima hana í trúfræðina sem hennar einlægu ambátt á Barth heiðurinn af þeirri sýn á hjónabandið sem ræður ríkjum meðal margra presta og guðfræðinga hér á landi. Þetta má sjá mjög glöggt í greinum sem prestar hafa skrifað um hjónabandið á síðastliðnum árum. Það mál verður þó að bíða betri tíma.

Auðvitað mætti sleppa því að minnast á Karl Barth og tala um í staðinn um Lúther og áherslur evangelísk-lútherskrar siðfræði sl 400 ár. Það verður þó tæpast gert innan hins knappa tímaramma sem hér er settur. Nokkur atriði má þó nefna.

Víðs vegar í skrifum Lúthers sjáum við samskonar afstöðu til orða Ritningarinnar og gildi þess að opna sig fyrir þeim og hjá Barth: sama passívitet, óvirkni mannsins gagnvart orði Guðs, manneskjuna sem móttakanda og ekki þátttakanda. Öll guðfræðileg íhugun Lúthers snýst um tengsl: tengsl manns og Guðs. Maðurinn getur ekki ekki nálgast Guð af eigin rammleik. Aðeins Guð getur nálgast manneskjuna í sinni miklu náð. Hlutverk Ritningarinnar er að hræra við lesandanum, fá hann til að taka tilvistarlega afstöðu með eða á móti þeim anda sem opinberar sig í Ritnin
gunni. Andi textans leiðir lesandann áfram til nýrra ritningartexta og þannig smám saman til vaxtar í trú og trausti.

Lúther fer með hugsunina um óvirkni manneskjunnar gagnvart Guði og orði hans allt of langt, að mínu mati( samskonar hugsun má finna hjá dulspekingum og sálusorgurum bæði innan kristninnar og annara trúarbragða). Það er mjög stutt frá þessari hugsun yfir í þá hugsun að manneskjan sé virkilega einskis virði. Þessi skilningur á manninnum rímar illa við nútíma guðfræðilega túlkun, túlkun sem leggur áherslu á kærleika Guðs til mannsins í sköpun og köllun, hvernig hann hann lyftir manneskjunni úr duftinu og gerir hana að samverkamanni þar sem manneskjan hefur það hlutverk að vera virkur þátttakandi í sístæðri sköpun Guðs.

Að taka ábyrgð

Óvirkni mannsins í siðfræði mótmælenda, í sögu og samtíð, hvað varðar hreina móttöku biblíuorðanna og eftirfylgni við þau, svo og sú staðreynd að þessi sama siðfræði hefur oftlega vanrækt aðrar heimildir en Biblíuna er að mikilvægu leyti ástæða þess að við erum stödd þar sem við erum í dag varðandi málefnið samkynhneigð. Í stað þess að takast á við málefnið á virkan hátt þar sem hugsjónir okkar sem nú lifum um siðferðilega gott líf, í samfélagi sem ástundar réttlæti fyrir alla, halda guðfræðingar í stórum stíl áfram að láta sér nægja að velta fyrir sér merkingu mörg þúsund ára gamalla texta, grafandi eftir hinni sönnu merkingu sem fólki í dag beri að fylgja og hlýða.

Ég legg til að við yfirgefum boðorðakenninguna í siðferðilegum efnum og hverfum aftur til hinnar ráðandi kenningar í kristinni siðfræðihugmyndasögu sem er náttúrulagakenningin. Ekki þó varðandi sýnina á heiminn og útskýringar á því hvernig hann virkar. Ekki heldur í þeirri mynd sem hún hefur verið notuð gegn samkynhneigðum með því að vísa til ?óeðlis? þeirra, heldur varðandi hinn siðfræðilega skilning á skynsemi mannsins. Þetta er það grundvallaratriði sem Bruno Schüller undirstrikar og fyrr var á minnst. Hann endurspeglar þar með vel mannskilning danska guðfræðingsins Knut Lögstrup sem byggir á því að maðurinn sé skapaður í mynd Guðs til virkrar þátttöku í sköpuninniix. Þennan mannskilning mætti setja fram í hnotskurn á eftirfarandi hátt: sérhver manneskja er sköpuð sem virk siðferðisvera. Þegar hún mætir náunga sínum, þörfum hans og neyð, veit hún hvað henni ber að gera óháð trúarbrögðum, óháð opinberun og biblíubókstaf. Hin róttæka en þögla krafa sem verður til í stefnumóti hennar við aðra manneskju segir henni að hún beri ábyrg á þeirri manneskju eins og sjálfri sér. Hvernig hún gerir það, verður hún að finna út sjálf.

Mannskilningur evangelískrar-guðfræði má ekki vera svo dökkur og svo bölsýnn að maðurinn verði að tómu röri, sem bíður eftir orðum Guðs að ofan, en láti vera að hugsa sjálfur. Hver er tilbúinn að sætta sig við slíkan mannskilning? Nýjir straumar og stefnur innan túlkunarfræðanna leggja áherslu á samspil texta og túlkanda, á hinn virka þátt túlkandans í sérhverri túlkun. Með útgangspunkt í slíkum mannskilningi getum við lagt til hliðar skoðun minnihluta sænska vinnuhópsins sem talaði um hina guðlegu, biblíulegu opinberun sem kennivald og grundvöll siðfræðinnar. Þessi síðbartíanska skoðun gengur hvorki upp guðfræðilega né siðfræðilega. Guðfræðilega er þar lögð allt of einhliða áhersla á aðra grein trúarjátningarinnar, um opinberun Krists, samtímis sem fyrsta greinin er forsmáð, – sú grein sem hefur þó um aldir virkað sem grundvöllur kristinnar siðfræði með hugmynd sinni um sköpunina og náttúrurlegan snertiflöt hins guðdómlega og mannlega. Sú siðferðilega ábyrgð sem við erum krafin um er tjáð í náttúrulögmálinu, gullnu reglunni og kærleiksboðorðinu.

Við það að yfirgefa boðorðakenninguna innan siðfræðinnar missa einstakir biblíutextar það vald sem þeim hefur með röngu verið gefið. Valdið liggur ekki hjá einstökum textum eða einstökum túlkunum hefðarinnar á textum, nei valdið og ábyrgðin liggur í samspilinu milli túlkanda og texta. Sérhvern texta verður að vega og meta. Sérhver textatúlkun guðfræðilegrar siðfræði ber ábyrgð á þeim hugsjónum sem hún skapar og endurskapar með túlkun sinni varðandi sameiginlega framtíð okkar allra. Siðfræðileg rannsókn á vandamálum samtímtímans á að bera í sér hugsjón um betra samfélag. Við getum ekki yfirgefið sviðið með orðunum: mér þykir það leitt, en þetta stendur í Biblíunni!

Grein þessi er byggð á erindi sem flutt var á málþingi um samkynhneigð, kirkju og trú í safnaðarheimili Grensáskirkju fimmtudaginn 12. febrúar 2004

——————————————————————————–
i Samkynhneigð og kirkja. Greinargerð nefndar um samkynhneigð og kirkju, sem skipuð var af kirkjuráði og biskupi Íslands. 1996. Höfundar skýrslu: Jónína E. Þorteinsdóttir, Ólafur Jóhannsson (að hluta), Ólafur Oddur Jónsson og Ástríður Stefánsdóttir.
ii Homosexuella i kyrkan. Ett samtalsdokument från Svenska kyrkans teologiska kommitté. 2001.
iii Samkynhneigð og kirkja. 1996. bls. 43, 44.
iv Þetta eru t.d. þær aðalheimildir sem bókin Guðfræðileg siðfræði.Af sjónarhóli guðfræði og heimspeki 2001 tiltekur, sbr. bls. 201-202. Það er þó
alveg ljóst sé litið til samtíma siðfræðinga innan guðfræði að þeir leggja þessi mál upp á mjög margvíslegan hátt.
v Göran Bexell og Carl-Henric Grenholm. Guðfræðileg siðfræði. Af sjónarhóli guðfræði og heimspeki. 2001. Skálholtsútgáfan, Siðfræðistofnun.
vi Göran Bexell og Carl-Henric Grenholm. Guðfræðileg siðfræði, bls 202 ff.
vii Karl Barth, Die Kirchliche Dogmatik I/2. 1945. 3.útg. Evangelischer Verlag A.G., Zollikon ? Zürich., bls 557.
viii Sama heimild, bls 808
ix Þessi mannskilningur birtist sérlega vel í bókinni Den etiske fordring. 1956. Gyldendalske Boghandel Nordisk Forlag A.S. Copenhagen.

Leave a Reply