Hvað er svo að gerast á Mulinni Rúst? Á venjulegu kvöldi ber íslensku kjarnafjölskylduna auðvitað hæst, það eru gestirnir sem kallaðir eru „sama fólkið“. Þótt nokkur dagamunur sé á, er gamla ættarmótsstemningin oft ríkjandi nokkuð fram eftir kvöldi. Allir þekkjast en vilja ekki endilega hittast, og heilsast því samkvæmt afar flóknum en ákveðnum siðareglum. Sumum eiga allir að heilsa og sumir eiga að heilsa öllum og allt þar á milli; sumir eiga eiginlega ekki að heilsa neinum en heilsa öllum tvisvar og það er líka orðin hefð.
Veturliði Guðnason í Sjónarhorni, tímariti Samtakanna ´78, 1992.