Trú, von og kærleikur eru einkunnarorð sem eru sígild. Sömuleiðis einkunnarorð frönsku byltingarinnar: frelsi, jafnrétti, bræðralag. Í gegnum tíðina hefur maðurinn reynt að finna leiðir til að efla samfélagslega vitund og réttlæti með einum eða öðrum hætti.
Sjónarmið mannréttinda og umhyggju fyrir náunganum hafa tekist á við sjálfselsku og græðgi. Þessi barátta er eilíf, hún hefur fylgt mannkyni alla tíð og endurspeglað mun mennskunnar á lögmálum dýraríkisins. Maðurinn hefur fengið í arf möguleikann til að draga flóknar ályktanir af atburðum og upplifunum og sömuleiðis innsæi sem leggur honum jafnframt þær skyldur á herðar að spyrja sig í sífellu hvort rétt sé breytt eða rangt? Hver sé kjarni máls, hvað sé satt og hvað logið.
Kristilegt siðferði grundvallast á hugmyndinni um að lifa í sannleika. Það er óhætt að fullyrða að eina færa leiðin til að lifa í sannleika sé að lifa í sannleika við sjálfan sig. Þegar kemur að ritningunni og umfjöllun um hana vil ég gera greinarmun á lýsingum á lífi og orðum Jesú Krists annars vegar og postula og spámanna hins vegar.
Jesús var í mínum huga sannleikurinn holdi klæddur. Dæmisögur hans og tilvitnanir eru dásamlegur vitnisburður um hið góða, sanna og rétta. Hann flutti heimsbyggðinni boðskapinn um kærleiksástina og jafnréttið umfram allt annað. Hann komst að kjarna málsins, setti mál sitt fram með þeim hætti að ekki verður efast um réttmæti þess. Hann vissi að sannleikurinn getur verið ljótur og erfiður að horfast í augu við en það er engin önnur leið þegar upp er staðið. Fyrir það galt hann með lífi sínu. Sendiboði guðs var hæddur, smánaður og líflátinn, ekki af andstæðingum þjóðar sinnar heldur af sinni eigin þjóð, sínu eigin fólki sem gat ekki horfst í augu við sannleikann. Hann var svikinn af samferðarmönnum sínum, lærisveinunum sem höfnuðu honum á ögurstundu.
Var kaþólska kirkjan frá upphafi og alla tíð kirkja Jesú Krists í raun og veru? Var siðbótin og stofnun hinnar evangelísk-lúthersku kirkju innblásin af grundvallarkenningum Krists eða voru önnur sjónarmið hinum algildu kærleiks- og jafnréttissjónarmiðum yfirsterkari? Öld fram af öld hafa ríkiskirkjur haft mikil völd og áhrif í ólíkum samfélögum. Þær hafa safnað auði og eignum, þúsundir verkamanna hafa fórnað lífi sínu fyrir risastórar skrautkirkjur og risalíkneski og gráðugir fulltrúar þeirra hafa orðið sjálfskipaðir fulltrúar guðs án þess að lifa í samræmi við, eða predika af sannfæringu kenningar krists. Kirkja sem stendur fyrir misrétti og gegn jafnrétti er ekki kirkja Krists heldur eitthvað allt annað. Hún er fyrst og fremst stofnun utan um völd, auð og áhrif.
Það er kominn tími til að við skoðum með opnum augum og hug hvar hin íslenska þjóðkirkja stendur. Sem stendur hefur andlegur leiðtogi hennar, biskupinn, lýst því yfir að hún vilji ekki jafnrétti samkynhneigðra og gagnkynhneigðra. Allavega ekki að svo komnu máli. Það á að fresta jafnréttinu. Ég og unnusti minn áformum að gifta okkur hér í þessari kirkju í sumar. Séra Hjörtur Magni Jóhannsson hefur óskað eftir því að fá heimild til lögformlegrar vígslu samkynhneigðra para í kirkju sinni. Á biskup þjóðkirkjunnar að hafa rétt til að hindra það að Hjörtur Magni gifti mig í sumar, vegna þess að biskup er ekki reiðubúinn að veita samkynhneigðum jafnrétti í þjóðkirkju sinni? Hvar er hin íslenska þjóðkirkja eiginlega stödd í dag, það herrans ár 2006, og getur hún raunverulega staðið undir nafni? Við
hvað er biskup eiginlega hræddur? Af hverju er mitt samband og fjölskyldulíf ógnun við þjóðkirkjuna og er þessi hugsun um alræði ríkiskirkjunnar yfir öðrum söfnuðum í samræmi við kjarnann í boðskap Jesú Krists eða er kirkjan kannski bara á hvolfi?
Það virðist ætla að verða hlutskipti samkynhneigðra á nýrri öld að afhjúpa innsta eðli hinnar íslensku þjóðkirkju líkt og er að gerast víða annars staðar í veröldinni. Það er í sjálfu sér merkilegt. En merkilegast er ef svo hrapallega fer að Alþingi Íslendinga beygir sig fyrir biskupi í þessu máli. Því vil ég ekki trúa vegna þess að ef þingmenn fara eftir samvisku sinni, eins og þeim ber að gera, þá munu þeir standa með jafnréttinu og gegn misréttinu, í Jesú nafni.