Skip to main content
search
Uncategorized

Sólarmegin í lífinu

By 15. apríl, 2008No Comments

Fyrir sólardýrkendur og alla áhugamenn um spænska menningu var það mikið gleðiefni þegar Iceland Express hóf í lok síðasta árs reglulegt áætlunarflug til Barcelona á Spáni. Allt í kringum borgina er nefnilega að finna mikinn fjölda spennandi áfangastaða til að eyða sumarleyfinu.

Einn þessara staða er bærinn Sitges sem lengi hefur verið vinsæll áningarstaður meðal homma alls staðar að úr heiminum. Það er eitthvað við þennan bæ sem gerir það að verkum að maður vill koma þangað aftur og aftur. Þannig komst einmitt breskur kunningi greinarhöfundar að orði á dögunum í tengslum við umræður um komandi sumarleyfi. Bærinn er gamall og miðbærinn, þar sem hjarta hans slær, býr yfir miklum fjölda lítilla og mjórra gatna sem hafa að geyma margs konar söfn og veitingastaði. Í bænum búa um 25.000 manns allt árið en yfir hásumarið tífaldast íbúatalan.

Úr fiski í ferðamenn

Lengi framan af var helsti atvinnuvegur íbúanna fiskveiðar en á síðustu árum hefur ferðaþjónustan tekið völdin. Þrátt fyrir að margir ferðamenn leggi leið sín til Sitges hefur bærinn ólíkt mörgum öðrum spænskum ferðamannabæjum ekki misst sín sérkenni. Segja má því að þrátt fyrir mikinn fjölda ferðamanna sé andrúmsloftið í bænum mjög spænskt og til þess er tekið hversu vel hann tekur á móti gestum.

Mikill fjöldi samkynhneigðra karlmanna eyðir ár hvert sumarfríi sínu í Sitges og margir þeirra búa þar stóran hluta ársins enda mikinn fjölda orlofsíbúða að finna í bænum. Strandlengjan er löng og hreinleg og þar ætti engum að geta leiðst við að sleikja sólina og baða sig inn á milli í hlýju Miðjarðarhafinu. Á sumum svæðum strandarinnar eru hommarnir í miklum meirihluta og hafa allir gaman af að sýna sig og sjá aðra. Í Sitges eru fjögur stór gaydiskótek og tuttugu og fimm gaybarir og sennilega er hvergi í heiminum að finna á jafn litlu svæði þvílíkan fjölda skemmtistaða sérstaklega ætlaða hommum. Auk þess er í bænum mikill fjöldi annarra bara sem jafnt samkynhneigðir og gagnkynhneigðir sækja. Þrátt fyrir að í Sitges séu hommarnir margir og bærinn bjóði þá sérstaklega velkomna þá er það svo einkennilegt að þar er hvergi að finna nein merki um einhver ,,Gay gettó”. Hér blandast nefnilega menning hommanna á svo skemmtilegan hátt við samfélag hinna gagnkynhneigðu og í mjög mörgum gluggum verslana og þjónustufyrirtækja má sjá regnbogafánann. Þessi skemmilegi kokkteill myndar mjög notalegt andrúmsloft sem erfitt er að útskýra á prenti. Þó má með sanni segja að það fái fólk til að líða vel og slappa af á einhvern mjög svo undursamlegan og ljúfan hátt. Hafi maður einu sinni komið til Sitges fer maður þangað örugglega aftur.

Tilvalið að skipta dvölinni milli Sitges og Barcelona

Mjög auðvelt er að ferðast til og frá Sitges með lest til miðborgar Barcelona. Ferðalagið tekur aðeins fjörutíu mínútur og kostar einungis eina evru. Það er einnig góður kostur að skipta dvöl sinni milli Barcelona og Sitges og blanda saman sólar- og borgarferð. Margir góðir gististaðir eru í bænum og tilvalið er fyrir litla hópa að slá saman og leigja íbúð en þær er auðvelt að leigja í Sitges. Slíkt fyrirkomulag er alla jafna ódýrara en hótelgisting. Í sumar flýgur flugfélagið Iceland Express tvisvar í viku til Barcelona en rétt er að það komi fram að félagið styrkir starf Samtakanna 78 dyggilega og vonast til þess að velunnarar félagsins nýti sér þjónustu þess.
Allir nánari upplýsingar er að finna á heimasíðu Iceland Express (www.icelandexpress.is) og upplýsingasíðunni ,,GaySitges” (www.gaysitges.com)

Þessi grein birtist í Fréttabréfi Samtakanna '78 í apríl 2008

Leave a Reply