Frettir Varaforseti Bandaríkjanna, Dick Cheney, er ósammála George W. Bush forseta um að banna beri hjónabönd lesbía og homma. Hann lýsti þessari skoðun sinni á kosningafundi í Iowa þar sem kona hans og dætur voru meðal áheyrenda. Önnur dóttir Cheney, Maria Cheney, er lesbía.
Þrátt fyrir fjölskylduaðstæður varaforsetans þá kemur yfirlýsing hans nokkuð á óvart. Dick Cheney tjáir sig sjaldan um viðkvæm siðferðileg málefni og enn óvenjulegra er að hann nefni dætur sínar á nafn í pólitískum umræðum . Hingað til hafa fáir efast um að Cheney tilheyri íhaldssamari armi Repúblíkanaflokksins og sem varaforseti hefur hann haft óvenju mikil áhrif á stefnu forsetans.
Cheney minnti á að skoðun sín hefði ekki breyst frá forsetakosningunum árið 2000, það er að segja að giftingarlöggjöfin ætti að vera á hendi einstakra fylkja en ekki alríkisins. Raunar var það einnig þáverandi stefna Bush. Cheney sagði að hann væri á móti stjórnarskrárviðauka þeim sem Bush hefur viljað fá samþykktan, þar sem hjónaband yrði skilgreint sem hjónaband karls og konu, en sagðist samt sem áður virða stefnu Bush. Hann ítrekaði að skoðun sín væri að frelsi táknaði frelsi fyrir alla og gaf þannig í skyn að hann væri hlynntur rétti samkynhneigðra til að ganga í hjónaband. Með þeirri yfirlýsingu gengur hann raunar lengra en forsetaframbjóðendur demókrata sem alfarið eru á móti giftingum samkynhneigðra. Hann varði þó stefnu Bush með þeim orðum að forsetinn hefði með tillögu um stjórnarskrárbreytingu viljað koma í veg fyrir að dómstólar mörkuðu alveg nýja pólitíska stefnu í þessu viðkvæma deilumáli eins og raunin varð í Massachusetts.
Er Dick Cheney fjarvistarsönnun rebúblíkana í málefnum lesbía og homma?
Aðeins örfáir dagar eru þar til flokksþing rebúblíkana hefst en þar verða þeir Bush og Cheney formlega útnefndir fyrir forsetakosningarnar í nóvember. Mjög einkennilegt þykir að Cheney skuli tjá sig með þessum hætti svo skömmu fyrir flokksþingið. Fyrir því liggur að samþykkja stefnuskrá fyrir kosningarnar og þar er að finna harðorða stuðningsyfirlýsingu við stefnu Bush í málefnum samkynhneigðra. Yfirgnæfandi meirihluti þingfulltrúa eru hlynntir þeirri stefnu og útilokað að frjálslyndari viðhorf fá nokkurn hljómgrunn. Ekki er því ólíklegt að kosningaráðgjafar Bush hafi beinlínis verið með í ráðum og hvatt Cheney til að lýsa yfir skoðun sinni. Með því ætli rebúblíkanar að tryggja að samkynhneigðir og fjölskyldur þeirra snúist ekki enn frekar gegn flokknum, án þess þó að hnika til stefnu sinni.
-HTS