Skip to main content
Fréttir

Á annað hundrað manns í fyrstu regnbogamessunni

By 15. desember, 2004No Comments

Frettir Fyrsta regnbogamessan hér á landi var haldin í Langholtskirkju sunnudaginn 12. desember síðastliðinn. Að henni stóðu söfnuðirnir þrír umhverfis laugardalinn, þ.e Langholtskirkja, Áskirkja og Laugarneskirkja, en einnig komu að henni félögin ÁST og ÆSKR (Áhugahópur samkynhneigðra um trúarlíf og Æskulýðssamband kirkjunnar í Reykjavíkurprófastsdæmum). Prestar voru þau Jón Helgi Þórarinsson, Kristín Margrét Tómasdóttir og Bjarni Kalrsson.

Messan var í senn hátíðleg og einlæg og mæting með miklum ágætum en talið er að vel á annað hundrað manns hafi mætt. Tónlistarflutningur var í höndum Gospelkórs KMS (Kristur-menning-sköpun) og sjálfur KK lét sig ekki vanta og tók nokkur lög af mikilli innlifun. Fulltrúar ÆSKR og ÁST tóku ásamt prestunum þremur og tónlistarfólkinu að sjálfsögðu einnig virkan þátt í messunni.

Hugmyndin að sérstakri regnbogamessu er sprottin úr því gróskumikla starfi sem unnið hefur verið á vettvangi ÁST og var hún tvímælalaust hápunkturinn á starfi vetrarins. Slík messa undirstrikar mikilvægi réttindabaráttu samkynhneigðra innan kirjunar og sýnir um leið að kirkjan er öllum opin, samkynhneigðum jafnt sem öðrum. Ekki verður annað sagt en að glæsilega hafi tekist til og ljóst að messur af þessu tagi eru komnar til að vera.

-HTS og GE

Leave a Reply