Frettir Helgina 7.? 10. október eigum við von á mörgum góðum gestum utan úr heimi hingað til lands. Fyrir dyrum stendur ein stærsta ráðstefna í heiminum um málefni samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og þeirra sem skipta um kyn. InterPride er samstarfsvettvangur þeirra hinsegin hátíða sem haldnar eru í heiminum, en ráðstefna þeirra er haldin ár hvert og ætíð vel sótt. Ráðstefnugestirnir koma úr röðum fólks sem vinnur að skipulagningu hátíðarhalda í líkingu við Hinsegin daga í Reykjavík. Þingið verður haldið á hinu glæsilega Hótel Nordica, þar sem ráðstefnugestir munu einnig búa.
Þetta þing InterPride er hið tuttugasta og þriðja í röðinni, en yfirleitt eru þau haldin í Bandaríkjunum. Hinsegin dagar í Reykjavík hafa verið þátttakendur í starfi InterPride allt frá árinu 2000 og sent fulltrúa á þing þeirra öll árin. Þetta samstarf hefur reynst þróun Hinsegin daga mikilvægt, enda höfum við sótt þangað fyrirmyndir og innblástur til góðra verka. Margs konar málstofur eru settar upp meðan á þinginu stendur og einnig vinna þjóðir saman í hópum eftir heimssvæðum. Markmið þingsins er að miðla þekkingu, en einnig gefst fólki gott tækifæri til að kynnast ólíkri menningu hinna ýmsu hópa sem að þinginu standa.
Nú þegar hafa um eitt hundrað manns skráð sig til þátttöku á þinginu og eru þeir fulltrúar rúmlega fjörutíu borga, en gert er ráð fyrir að 150?200 manns sæki þingið. Flestar skráningar hafa borist frá Norður-Ameríku en fjöldi þátttakenda frá Evrópu hefur aukist verulega undanfarna daga.
Sérstakur gestur þingsins er Vigdís Finnbogadóttir fyrrum forseti Íslands og mun hún ávarpa ráðstefnuna við upphaf hennar. Þinginu er síðan slitið sunnudaginn 10. október með hópferð í Bláa lónið. Hápunktur ráðstefnunnar er hátíðarkvöldverður með miklu balli á eftir á Hótel Nordica. Það er von þeirra, sem að undirbúningi ráðstefnunar koma, að sem flestir sjái sér fært að mæta á Hótel Nordica að kvöldi 9. október. Hægt er að koma einvörðungu á dansleikinn og sleppa matnum, en við munum birta ítarlegri fréttir hér á vefnum varðandi dansleikinn þegar nær dregur.
Eins og gefur að skilja þá er þessi ráðstefna mikill hvalreki á fjörur okkar hér á Fróni. Ekki er einvörðungu gaman er að fá góða gesti heldur er ekki síður mikilvægt að þeir fái að kynnast okkur og baráttu okkar á liðnum árum til aukinna mannréttinda til handa lesbíum og hommum á Íslandi. Það er einsdæmi í veröldinni hversu vel Hinsegin dagar eru sóttir og sá mikli árangur sem náðst hefur í gegnum þá. Hvar í veröldinni annars staðar sér maður foreldra og aðra aðstandendur flykkjast tugþúsundum saman í gleðigöngur samkynhneigðra til að samgleðjast þeim.
Allar nánari upplýsingar um ráðstefnuna er að finna á heimasíðu hennar Einnig er hægt að nálgast þessa síðu í gegnum heimasíðu Hinsegin daga í Reykjavík og er tengil inn á þá síða að finna hér á síðunni.
Eitt er víst að það verður fjör í bænum helgina 7.?10. október, enda ekki á hverjum degi sem á annað hundrað ný andlit úr okkar röðum birtast í bænum.
? Guðjón R. Jónasson