Skip to main content
Fréttir

ÁST, KYNLÍF & HJÓNABAND

By 7. október, 2008No Comments

Barátta samkynhneigðra fyrir fullu lagalegu jafnrétti hefur verið nokkuð áberandi hérlendis undanfarin ár og skilað það góðum árangri að nú stendur í raun aðeins eitt stórt atriði utan garðs. Hérlendis eru nefnilega í gildi tvenn lög hvað varðar hjónabandið; ein fyrir gagnkynhneigða og önnur fyrir samkynhneigða. Baráttan fyrir sameiningu þessara tveggja laga í einn lagabálk fékk fyrir skömmu öflugan liðsauka í formi bókar sem dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, lektor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, hefur sent frá sér.

Barátta samkynhneigðra fyrir fullu lagalegu jafnrétti hefur verið nokkuð áberandi hérlendis undanfarin ár og skilað það góðum árangri að nú stendur í raun aðeins eitt stórt atriði utan garðs. Hérlendis eru nefnilega í gildi tvenn lög hvað varðar hjónabandið; ein fyrir gagnkynhneigða og önnur fyrir samkynhneigða. Baráttan fyrir sameiningu þessara tveggja laga í einn lagabálk fékk fyrir skömmu öflugan liðsauka í formi bókar sem dr. Sólveig Anna Bóasdóttir, lektor í guðfræðilegri siðfræði við Háskóla Íslands, hefur sent frá sér.

Bókin sem kom út hjá Sölku inniheldur sjö greinar og heitir: ást, kynlíf & hjónaband. Greinarnar fjalla hver á sinn hátt um eitthvert hugtakanna þriggja sem í titlinum felast eða samspil þeirra út frá ýmsum sjónarhornum. Meginþunginn er þó lagður í þann vinkil sem samkynhneigð veitir gagnvart umfjöllunarefninu.

Greinarnar sjö eru skrifaðar á árabilinu 2001-2008 og hafa allar utan þá nýjustu verið birtar á öðrum vettvangi. Aukinheldur eru þær í réttri tímaröð og má þannig að einhverju leyti fylgja því eftir hvernig umræðan um þessi mál hefur þróast á tímabilinu. Það er ekki síður fróðlegt.

Í bókinni er tekið á fleiri viðfangsefnum kynlífssiðfræðinnar heldur en hjónaböndum samkynhneigðra en ég ætla að leyfa mér að fjalla einvörðungu um það atriði enda tel ég framlag bókarinnar til þeirrar umræðu sem á sér stað í samfélagi okkar hvað hjónabandið varðar og aðkomu samkynhneigðra að þeirri stofnun ákaflega mikilvægt.

Nálgun Sólveigar Önnu er fræðileg en þó er textinn vel læsilegur og skiljanlegur þeim sem ekki notast við tungutak guð- eða siðfræðinnar dags daglega. Í því liggur styrkur að mínu viti enda auðveldar það áhrif greinanna á þær umræður og átök sem þær eru skrifaðar inn í.

Því er ekki að neita að mörg helstu vígin hvað varðar baráttuna fyrir því að sameina hjúskaparlöggjöf landsmanna og rétt samkynhneigðra til þess að fá hjúskap sinn eða samlíf viðurkennt yfir höfuð hafa verið guðfræðilegs eðlis og umræðan um þau átt sér að stóru leyti stað innan guðfræðilegra kreðsa.

Í greinum sínum tekur Sólveig Anna á allflestum þessara átakapunkta og leiðir þá til lykta með guðfræðilegum rökum svo sannfærandi er. Ef við tökum sem dæmi notkun Biblíutilvitnanna til fordæmingar samkynhneigðar sem slíkrar og samböndum samkynhneigðra einstaklinga þá segir hún á einum stað í grein sem heitir samkynhneigð og kristin siðfræði: “Kristin siðfræði sleppur aldrei undan þeirri kröfu að sýna á hvern hátt lausn Biblíunnar á siðfræðilegum vandamálum sé einnig góð lausn fyrir okkar samtíð.” (s. 71) og rekur síðan hvert dæmið á fætur öðru og sýnir fram á að þar er í raun og veru ekki verið að fjalla um samkynhneigð (hið minnsta ekki þann skilning sem við leggjum í hugtakið sem tilfinningasamband tveggja fullveðja og sjálfráða einstaklinga) og því eigi textarnir ekkert erindi inn í umræðuna.

Svona mætti rekja sig áfram í gegnum hverja víglínuna á fætur annari en látum þetta duga að sinni.

Eina mikilvægustu setningu bókarinnar er að finna í inngangi hennar en þar segir m.a.: “Eitt hið mikilvægasta í öllum siðferðilega góðum samböndum er að gagnkvæmni ríki, í merkingunni að sá sem auðsýnir réttlæti og ástundar kærleika og virðingu þiggi hið sama frá hinum aðilanum. Gagnkvæmni er hugsjón og viðmið sem gildir um öll góð sambönd, hvort sem í hlut eiga samkynhneigðir eða gagnkynhneigðir” (s. 14).

Þetta viðhorf er síðan lykillinn að þeirri leiðbeiningu sem Sólveig Anna setur fram undir lok bókar sinnar, og hlýtur að teljast ein af niðurstöðum hennar, að til þess að kirkjan geti útvíkkað skilning sinn á hjónabandinu til þess að heimila samkynhneigðum að ganga í hjónaband en ekki aðeins að staðfesta samvist sína þurfi hún að hætta að hugsa um “hneigðir” þeirra og einbeita sér að “ást” þeirra (s. 189). Mæli hún manna heilust og held ég að rétt sé að útvíkka þessa leiðbeiningu yfir á þjóðina alla enda er þessarar viðhorfsbreytingar mun víðar þörf heldur en innan kirkjunnar þar sem umburðarlyndið gagnvart samkynhneigð á víða ansi langt í land.

Þessi nýja bók dr. Sólveigar Önnu Bóasdóttur er glæsileg málsvörn fyrir rétt samkynhneigðra til hjónabands og mikilvæg undirbygging fyrir þá umræðu sem mun eiga sér stað á komandi misserum hvað varðar endurskoðun hjúskaparlöggjafarinnar með það að augnamiði að eitt gangi yfir alla íslenska ríkisborgara í þessum efnum.

Ég er sannfærður um að krafan um eina hjúskaparlöggjöf fyrir öll hjón í landinu burtséð frá kynhneigð, mun fá meira vægi í þjóðmálaumræðunni fljótlega en verið hefur til þessa enda grundallarkrafa að eitt skuli yfir alla ganga þegar kemur að lagasetningu. Það er einlæg von mín að íslensk stjórnvöld muni fylgja fordæmi Norðmanna og leiða þetta síðasta stóra úrlausnarefni hvað varðar lagalegt jafnrétti samkynhneigðra til lykta á því þingi sem hófst í vikunni sem leið.

 

Gunnar Ragnar Jónsson

Leave a Reply