Sunnudaginn 13. ágúst efna Hinsegin dagar í Reykjavík til Regnbogamessu í Hallgrímskirkju. Hún hefst klukkan 16.00 og er haldin í samvinnu við ÁST – Áhugahóp samkynhneigðra um trúarlíf. Nokkrir íslenskir prestar taka þátt í athöfninni ásamt fjölmörgu tónlistarfólki úr okkar röðum, en sr. Pat Bumgardner frá New York predikar. Hún er prestur Metropolitan Community Church í New York, en sá söfnuður var stofnaður af sr. Troy Perry fyrir nær fjörutíu árum til að styrkja og efla trúarlíf lesbía, homma og vina þeirra. Fagnaðarerindi MCC hefur síðan borist víða um lönd og undir merkjum safnaðarins er nú að finna fjölmargar kirkjudeildir vestan hafs og austan. Vefsíða MCC er www.mccchurch.org
Það er okkur heiður að mega bjóða sr. Pat Bumgardner velkomna til Íslands á hátíð Hinsegin daga í Reykjavík og við hvetjum alla Reykvíkinga til að sækja guðsþjónustuna í Hallgrímskirkju í lok hátíðarinnar í ágúst.
-Hinsegin dagar í Reykjavík