Tilkynningar Vitundarvakning Landlæknisembættisins og Geðræktar um fordóma í samstarfi við: Alþjóðahúsið, Félag eldri borgara, Félagsþjónustuna í Reykjavík, Heilsueflingu í skólum, Hitt Húsið, Jafnréttisnefnd og Stúdentaráð Háskóla Íslands, Miðborgarstarf KFUM og K og Þjóðkirkjunnar, Rauða kross Íslands, Samtökin ´78 og Öryrkjabandalag Íslands.
Ofangreind samtök og stofnanir vilja vekja landsmenn til vitundar um fordóma og fá þá til að sleppa þeim. Fordómar hafa skaðleg áhrif á heilsu og líðan, einkum þeirra sem þeir beinast gegn en líka hinna sem bera þá. Það er því þjóðarhagur að okkur takist að vekja sem flesta til vitundar um eðli og orsakir fordóma, hvernig þeir birtast og hvaða afleiðingar þeir hafa.
Vakningin er þegar hafin í ýmsum fjölmiðlum og verður á dagskrá fram í júní, en meginþungi hennar stendur frá 1. maí til 18. maí. Miðvikudaginn 1. maí hefst dreifing meðal landsmanna á 35.000 blöðrum og póstkortum á höfuðborgarsvæðinu, á Akranesi, Ísafirði, Sauðárkróki, Akureyri, Egilstöðum, Selfossi, í Vestmannaeyjum og Reykjanesbæ og stendur til 18. maí.
Blöðrurnar eru tákn fordóma en póstkortin bera boðskap sem ætlað er að vekja til umhugsunar, fá fólk til skoða hug sinn vandlega og svara spurningum um eigin fordóma. Þeir sem kannast við og viðurkenna fordóma í eigin brjósti eru um leið að stíga fyrsta skrefið til að losa sig við þá, sleppa þeim. Á táknrænan hátt geta þeir síðan sýnt það í verki og losað sig við fordómablöðruna í greinilega merkt ílát, sem komið verður fyrir á bensínafgreiðslustöðvum Skeljungs, og fá þeir að launum glaðning frá Skeljungi. Þetta þarf að gerast fyrir 18. maí, en þann dag verður fordómablöðrunum safnað saman til að blása þær upp og sleppa þeim í loft upp, samtímis á ofangreindum níu stöðum, laugardaginn 18. maí, kl. 17:00. Þetta verður hin táknræni hluti vitundarvakningarinnar.
Vakningin hefst í Listasafni Reykjavíkur við Tryggvagötu 1. maí kl: 16:00 með tónleikum valinkunnra listamanna sem allir flytja sönglög við eigin undirleik á slaghörpu. Þeir sem fram koma eru m.a.: Andrea Gylfadóttir, Ragnhildur Gísladóttir, Fabúla, Védís Árnadóttir, Egill Ólafsson, Karl Olgeirsson, Ragnar Bjarnason, Magnús Kjartansson, Stefán Karl Stefánsson, Jakob Frímann Magnússon, Pálmi Sigurhjartarson, Margrét Örnólfsdóttir, Gunnar Þórðarson, Pétur Örn Guðmundsson og Jón Ólafsson. Við það tækifæri verða fyrstu blöðrurnar afhentar ásamt kortum.
Við lokaathöfn, áður en blöðrunum verður sleppt í loftið í Reykjavík, fer fram fjölskylduskemmtun á Ingólfstorgi, 18. maí frá kl. 15:00 til 17:00, og verða þá aftur haldnir tónleikar. Verður sú samkoma auglýst nánar síðar. Allir tónlistarmenn á báðum tónleikunum leggja málefninu lið með því að koma fram án endurgjalds.
Auk ofangreindrar dagskrár verður umfjöllun um fordóma í blöðum, útvarpi og sjónvarpi allan maímánuð og fyrstu tvær vikur í júní. Talað verður við þá sem reynt hafa fordóma á eigin skinni og leitast við að kryfja hvaða áhrif fordómar hafa á heilsu og líðan og samfélagið í heild.
– – – – – – – – – – – – – – – – – – – – –
Ábyrgðarmaður fréttatilkynningar:
Jónína Margrét Guðnadóttir
Upplýsinga- og útgáfustjóri Landlæknisembættisins
Sími: 510 1900; netfang: jonina@landlaeknir.is