Tilkynningar Árið 2003 minnast Samtökin ´78 þess að hafa starfað í aldarfjórðung og af því tilefni býður félagið upp á röð hádegisfyrirlestra í Háskóla Íslands í samvinnu við félagsvísindadeild Háskóla Íslands, Mannréttindaskrifstofu Íslands og FSS, Félag samkynhneigðra og tvíkynhneigðra stúdenta.
Sex fyrirlestrar eru á dagskrá á vormisseri og sá fjórði í röðinni er haldinn föstudaginn 14. mars. Þar flytur Ragnar Aðalsteinsson, hæstaréttarlögmaður, erindi sem hann nefnir
Mannleg göfgi.
Verða sumir hópar manna sviptir hinum jafnborna rétti til mannlegrar virðingar?
Í fyrirlestri sínum mun Ragnar gera grein fyrir merkingu hugtaksins ?mannleg virðing? í skilningi lögfræðinnar og hvaða þýðingu það hefur við túlkun á þeim mannréttindum sem lýst er í stjórnarskrám ríkja og alþjóðlegum sáttmálum. Hann tengir síðan umræðuna um mannlega virðingu við stöðu og réttindi minnihlutahópa og víkur í því sambandi að sögulegum forsendum þeirrar umræðu um miðja 20. öld þegar afstaða nasista til ýmissa þjóðfélagshópa, svo sem gyðinga, samkynhneigðra, kommúnista og trúfélaga, kallaði á andsvör og varð til þess að móta afdráttarlausari viðhorf meðal ríkja heimsins til mannverndar og mannréttinda en áður höfðu þekkst.
Ragnar Aðalsteinsson hefur verið starfandi lögmaður í Reykjavík í fjóra áratugi og tekið mikinn þátt í umræðu um mannréttindamál. Hann var um árabil formaður stjórnar Mannréttindaskrifstofu Íslands og Lögmannafélags Íslands.
Fyrirlesturinn er haldinn í stofu 101 í Odda, Háskóla Íslands, og hefst kl. 12 á hádegi. Að honum loknum gefst áheyrendum kostur á að bera fram spurningar og taka þátt í stuttum umræðum.