Skip to main content
Fréttir

Akureyri – Norðurland – Mikill kraftur hjá hópi foreldra og aðstandenda samkynhneigðra

By 24. október, 2003No Comments

Frettir Fyrsti fundur hóps foreldra og aðstandenda samkynhneigðra og tvíkynhneigðra á Norðurlandi var haldinn á Sigurhæðum á Akureyri fimmtudaginn 16. október síðastliðinn. Að fundinum stóðu Sigrún Sveinbjörnsdóttir, Brynjar Ingi Skaptason og Sverrir Páll Erlendsson. Fundurinn var vel sóttur og tókst í alla staði vel svo öruggt er að framhald verður á þessu starfi.

Í upphafi kynnti Sigrún Sveinbjörnsdóttir í nokkrum orðum hvers vegna boðað var til fundarins og bauð fundargesti velkomna. Harpa Njáls, forsvarsmaður foreldrasamtaka samkynhneigðra á Reykjavíkursvæðinu kynnti því næst starf þeirra og sögu og nauðsyn og gildi þessa hóps við að tryggja fjölskyldubönd svo og félagslega stöðu sam- og tvíkynhneigðra og allra þeirra sem að þeim standa. Eygló Aradóttir gerði grein fyrir fjölbreytilegu og miklu starfi Norðurlandshóps Samtakanna 78 – sem er rúmlega eins árs gamall félagsskapur samkynhneigðra og tvíkynhneigðra á Norðurlandi – og spratt upp af mikilli þörf fyrir samstöðu og sýnileika þeirra. Að þessum erindum loknum var samræðufundur þar sem fram kom meðal annars hversu mikilvægt væri að halda uppi hópstarfi sem þessu hér á Norðurlandi þar sem fólk gæti notið stuðnings af reynslu og þekkingu hvers annars og fengið tækifæri til að fræðast í stað þess að skynja sig einsamalt frammi fyrir óútskýrðum vanda.

Ákveðið var að láta reyna á reglulegt starf í vetur og hittast á Sigurhæðum annan fimmtudag í hverjum mánuði, en Akureyrarbær hefur léð það húsnæði til fundanna. Á næsta fundi, 13. nóvember klukkan 20.00, er ætlunin að horfa saman á heimildakvikmyndina Hrein og bein, sem gerð var í tilefni 25 ára afmælis Samtakanna 78 og var frumsýnd síðastliðið vor. Hún hefur sem kunnugt er unnið til verðlauna á kvikmyndahátíðum erlendis og verið tilnefnd til Edduverðlaunanna. Nýir félagar eru sérstaklega boðnir velkomnir á þann fund og þá sem síðar verða haldnir.

Velferð samkynhneigðra ástvina okkar varðar okkur öll!

Leave a Reply