Frettir Þegar um stórmenni sögunnar er fjallað er fyrir því löng hefð í ævisagnaritun að lýsa þeim sem gagnkynhneigðum þó svo að vitnisburðir segi annað. Svo er líka um Abraham Lincoln. Þótt frekar opinská umræða hafi átt sér stað síðustu áratugi um kynhneigð forsetans, þá hefur sérhver sagnfræðingur sem um hann hefur fjallað í ljósi bestu heimilda, leitt hjá sér þá staðreynd að öll hann nánu tilfinningatengsl voru við karlmenn. Þar til núna.
Sálfræðingurinn C.A. Tripp var á sínum tíma hann einn af aðstoðarmönnum Alfreds Kinsey. Í heilan áratug rannsakaði hann gríðarlegt safn heimilda um líf og störf Abrahams Lincoln og lauk við bók sína um forsetann rétt áður en hann lést árið 2003. Bókin er nú komin út og hefur vakið mikla athygli í Bandaríkjunum, ekki síst þar sem vikið er að bréfaskiptum Lincolns við náinn vin sinn, Joshua Speed, verkamann í vöruskemmu, sem hinn verðandi forseti deildi með rúmi í fjögur ár á yngri árum. Hingað til hafa sagnfræðingar leitt hjá sér mýmarga vitnisburði um samband þeirra, enda var það ekki óvenjulegt á fyrri tímum að ungir, ókvæntir og eignalausir karlar deildu borði og sæng. Aukin heldur átti Lincoln ekki þá 17 dollara sem til þurfti að kaupa sitt eigið rúm þegar hann flutti til Springfield í Illinois vorið 1837.
Nánu sambandi slitið
Alla þessa sögu rekur C.A. Tripp í ítarlegu máli og bendir meðal annars á að þótt fátækt hafi stundum rekið unga pilta upp í sama rúm þá taldi bandarískt almenningsálit á miðri 19. öld það engan veginn viðeigandi að þeir ílentust þar í fjögur ár. Einnig rekur Tripp vitnisburði um þunglyndi, sálarkvalir og sjálfsvígshugsanir Lincolns eftir að Speed flutti frá honum árið 1841, vitnisburði sem sýna að hér hafði nánu sambandi verið slitið. Við þetta má bæta að þrívegis á lífsleiðinni deildi Lincoln rúmi með öðrum körlum um lengri tíma. Greinilega skorti hann oftar en einu sinni þessa 17 dollara sem þurfti til að fjárfesta í eigin rúmi.
Enn eftir tíu tíma í uppnámi
Þá bendir C.A. Tripp á að í bréfum sínum til Joshua Speed kveður Abraham hann alltaf með orðunum ?þinn að eilífu? ? ?yours forever?. Slíka játningu átti hann ekki til gagnvart neinni manneskju á lífsleiðinni, heldur ekki eiginkonu sinni. Báðir gengu þeir Lincoln og Speed í hjónaband og margir sagnfræðingar hafa hingað til tekið það sem sönnun þess að þeir væru ?réttu megin?. En bréfin sem varðveist hafa um það bil sem þeir stofnuðu til hjónabanda sinna lýsa einungis sorg og afbrýðisemi. Eins og Lincoln segir þegar vinur hans skrifar honum um kvonfang sitt: ?Ég opnaði bréfið með ógurlegri angist og kvíða, og svo mjög fékk þetta á mig, að þótt allt virðist betra en á horfðist, þá er ég enn eftir tíu tíma í uppnámi.? Og slúðursögur fína fólksins í Washington á forsetaárum Lincolns snúast einnig um það sama. Í sendibréfum bandaríska ?aðalsins? er hnýtt óspart í hann fyrir … já, fyrir hvað? Að hafa að sögn, boðið karlmönnum upp í hjónarúm til sín þegar forsetafrúin brá sér af bæ.
Til að skilja feril og viðbrögð þess fólks sem mótaði mannkynssöguna á afdrifaríkan hátt, er mikilvægt að skilja og þekkja einkalíf þess. Um það eru flestir sammála. Kynhneigð skiptir þar miklu máli og þar er saga Abrahams Lincolns engin undantekning.
C.A. Tripp
The Intimate World of Abraham Lincoln
New York: Free Press 2005. $27
Advocate
?ÞK