Mannréttindahópurinn Verndarvættirnar hefur haft í mörgu að snúast síðan hann var stofnaður nú á vordögum með það að markmiði að vinna að réttindum samkynhneigðra, tvíkynhneigðra og transgender fólks á alþjóðavettvangi. Stuttu eftir stofnun fór hópurinn að huga að þátttöku í gleðigöngu Hinsegin daga og má segja að aðaláherslan hafi verið lögð á þann þátt starfsins þessa fyrstu mánuði.
Óhætt er að segja að gleðigangan og aðgerðin á Arnarhóli í kjölfarið hafi þegar á heildina er litið heppnast vel. Fremst fóru vaskar Vættir með bleikan borða sem á var letrað svörtum stöfum slagorð aðgerðarinnar „Ólögleg í 100 löndum“, en það vísar til þess að samkynhneigð er með einum eða öðrum hætti ólögleg í u.þ.b. 100 ríkjum heimsins. Borðinn var þó aðeins forsmekkurinn, því bæði litirnir sem og slagorðið voru bleiki þráðurinn í öllu því sem á eftir fylgdi.
Í humátt á eftir borðanum mjakaðist bíll eftir götunni og bar hann með sér harla óvenjulegan farþega, nefnilega risastóran bleikan hnött. Þarna mátti einnig sjá fjöldann allan af bleikum helíumblöðrum sem göngumenn réttu hundruðum barna á öllum aldri. Á eftir hnettinum gengu svo skiltaberar með áletruð skilti og beindu athyglinni að ýmsum þeim málum sem brenna helst á okkur þessa dagana. Auk alls þessa dreifði hópurinn bæklingi til áhorfenda og göngufólks, sem sérstaklega hafði verið prentaður í tilefni dagsins.
Fræðsla um mannréttindi
Eftir velheppnaða Hinsegin daga má segja að Verndarvættirnar hafi tekið sér langþráð sumarfrí. Hópurinn, sem fer sífellt stækkandi, mætir því aftur á sjónarsviðið nú á haustdögum, fullur af orku og nýjum hugmyndum.
Áframhaldandi aðgerðir
Fyrsti fundur haustsins verður fimmtudaginn 6.september kl.20.00 í húsakynnum Samtakanna ´78 og verða öll fyrrnefnd mál til umræðu. Þá verður þátttakan í Hinsegin dögum krufin til mergjar og línurnar lagðar fyrir vetrarstarfið. Eftir sem áður er hægt að nálgast allar upplýsingar varðandi Verndarvættina hjá Hilmari Magnússyni, alþjóðafulltrúa hjá Samtökunum 78 (hilmar.magnusson@hotmail.com) og Írisi Ellenberger, aðgerðastjóra hjá Amnesty International (ie@amnesty.is).
-HM