Frettir Að eiga þess kost að gegna herþjónustu og njóta þar virðingar og möguleika á frama ? flestir Íslendingar eiga erfitt með að skilja hvaða þýðingu þetta hefur í huga þeirra þjóða sem alast upp við hernað og herþjónustu. Það er einfaldlega fjarlægt íslenskri þjóð að tengja slíkan starfsframa við hugmyndir um jafnrétti og mannréttindi. En að eiga jafna möguleika á að sinna hermennsku er mikilvægt mál fyrir mörgum, og víða um heim gengur t.d. margt alþýðufólk í her viðkomandi ríkja í von um að eiga þar kost á menntun og frama sem það annars hefði engin tök á að hljóta. Þar eru samkynhneigðir engin undantekning.
Í Bandaríkjaher var samkynhneigð brottrekstrarsök þar til Bill Clinton settist á forsetastól og hreyfði við þeim málum árið 1993. Reyndi hann sérstaklega að beita valdi sínu og áhrifum til þess að yfirlýst samkynhneigt fólk fengi að gegna herþjónustu óáreitt. Íhaldsöflin með varnarmálaráðuneytið fremst í flokki snerust hart gegn áformum Clintons og Pentagon lýsti því yfir að hommar og lesbíur í hernum sem ekki leyndu kynhneigð sinni yrðu til að veikja baráttuandann og rýra styrk og virðingu heraflans.
Tíu þúsund reknir úr hernum
Niðurstaða þessarar togstreitu er flestum kunnug. Til varð neyðarleg málamiðlun, ?don´t ask, don´t tell,? (ekki spyrja, ekki segja frá). Hommar og lesbíur skyldu fá að gegna herþjónustu óáreitt svo lengi sem þau vektu enga athygli á högum sínum og lífsháttum. Þessi stefna átti að heita skref í framfaraátt, viðurkenning á rétti homma og lesbía til að starfa í Bandaríkjaher, en raunin varð allt önnur og ástandið er nú jafn niðurlægjandi og fjandsamlegt samkynhneigðum og alla tíð áður. Eftir að nýju reglurnar voru viðteknar árið 1993 hefur 9.488 hermönnum, óbreyttum og yfirmönnum, verið vísað úr hernum fyrir kynhneigð sína. Þessi brottrekstrarstefna hefur kostað Bandaríkjaher um 14 milljarða íslenskra króna að því er ríkisendurskoðunin í Washington upplýsir.
Þeir drekka romm og riðlast hver á öðrum
Árið 2000 afnam breski herinn bann við því að samkynhneigðir fengju að gegna herþjónustu. Þóttu það mikil tíðindi í landi Churchills sem að sögn reyndi eitt sinn í gremju sinni yfir getuleysi flotans að niðurlægja hann með þeim orðum að breskir sjóliðar væri ekki færir til neins nema að drekka romm, riðlast hver á öðrum og ganga svipugöngin (?The Navy is nothing but rum, sodomy and the lash?). Um sannleiksgildi þessarar sögu skal ekkert fullyrt, en meint gildismat gamla þjóðarleiðtogans fylgir minningu hans um ókomin ár.
Enn merkilegri eru þau tíðindi að í byrjun árs 2005 hefur hinn konunglegi breski floti tekið höndum saman við Stonewall, helstu mannréttindahreyfingu samkynhneigðra í Bretlandi, um að vinna markvisst gegn ofsóknum og andúð á samkynhneigðum innan flotans. Meira að segja leitar flotinn nú eftir nýliðum með því að auglýsa í fjölmiðlum sem sérstaklega eru ætlaðir lesbíum og hommum, í tímaritum, á vefsíðum og sjónvarpsrásum. Með formlegum samstarfsamningi flotans við Stonewall ?hlýtur lesbíum og hommum í flotanum að líða betur og þau eiga þess nú kost að koma heiðarlega fram með kynhneigð sína ef þeim býður svo við að horfa,? segir talsmaður flota hennar hátignar. ?En engum er skylt að gera það í hernum,? bætir hann við. ?Þetta er einkamál hvers og eins.?
Margir horfa þó fram á bjartari tíð, eins og til dæmis Craig Jones hershöfðingi sem segist muna ?myrka tíma? í flotanum en tekur nú eiginmann sinn með sér á alla opinberar athafnir þar sem gert er ráð fyrir mökum hermanna. ?Víst fylgir því nokkur harka að starfa í hernum, en þar með er ekki sagt að neinn eigi að láta hvað sem er yfir sig ganga ef það misbýður manni. En ég verð að játa að ég hef ekki mætt neinu óþægilegu síðustu fimm ár.?
Hvaða læti voru þetta eiginlega?
Í breska hernum var sú tíð ? og er reyndar enn ? að yfirmenn hötuðust við Stonewall fyrir endalausa ?áreitni?, en þessi vel skipulagða mannréttindahreyfing var óþreytandi við að bera mál þeirra, sem reknir höfðu verið úr hernum fyrir samkynhneigð, upp við alþjóðlega mannréttindadómstóla í Evrópu, reyndar með takmörkuðum árangri. Samt tókst Stonewall að lokum að komast á samræðugrundvöll við yfirmenn heraflans og allt sl. ár vann forystufólk hreyfingarinnar og breska flotans með leynd að þessum samstarfssamningi sem nú er orðinn að veruleika. Vonir standa til að landher og flugher fylgi fordæminu og bjóði samkynhneigða sérstaklega velkomna til starfa án vafninga.
Þó bendir Steve Johnston, forseti félagasamtaka samkynhneigðra innan hersins, á það að flotinn taki þetta skref ekki eingöngu til að sýna ?mannlegt andlit? heldur hafi hann ótvíræða hagsmuni af hinni nýju stefnumörkun. Persónuofsóknir og brottrekstur kosta nefnilega fúlgur fjár eins og dæmi Bandaríkjamanna hér að ofan sýnir. Að ekki sé minnst á hæfileika, kunnáttu og áralanga þjálfun sem þannig fer forgörðum, en fyrir aldamót var brottrekstur samkynhneigðra úr breska hernum daglegt brauð. Hvað sem fortíðinni líður þá er þessari nýju stefnumörkun svo vel tekið að yfirmenn flota hennar hátignar líta til baka þessa dagana og spyrja allir sömu spurningarinnar: ?Hvaða læti voru þetta eiginlega í mannskapnum??
?ÞK
The Guardian / www.rfsl.se