Frettir Eftir sjö ára baráttu hefur lögum um samræðisaldur, the age of consent, loks verið breytt í Bretlandi og er nú 16 ár fyrir alla án tillits til kynhneigðar. Þrívegis reyndi lávarðadeildin að stöðva frumvarpið eftir að það hafði verið samþykkt í neðri deild breska þingsins áður en það varð að lögum.
Þar með er ekki sagt að átökum sé lokið. Helsti andstæðingur laganna, Young barónessa, sem barðist lengi gegn því að samræðisaldur samkynhneigðra yrði færður úr 18 árum niður í 16, sakar neðri deildina og ríkisstjórnina um að hafa beitt gerræði í þessu máli, en gleymir því um leið að lávarðadeildin leit þrívegis framhjá eindregnum vilja neðri deildarinnar í málinu. Nokkrir þingmenn lávarðadeildarinnar með barónessuna í broddi fylkingar hafa opnað heimasíðuna www.ageofconsent.org.uk þar sem þeir segjast vera að kanna vilja þjóðarinnar og safna ?atkvæðum? til að nota síðar þegar réttindamál samkynhneigðra koma næst á dagskrá í breska þinginu.
Fjölmiðlar samkynhneigðra hvetja sitt fólk og aðra stuðningsmenn óspart þessa dagana til að bregða sér inn á síðuna og kjósa sér og sínum í hag. Þó að gamalgróið erfðaveldi breska þingsins sé einungis svipur hjá sjón sýnir sagan það og sannar að lávarðadeildin sleppir ekki tökunum fyrr en í fulla hnefana.
Gay Times