Frettir Borgarskjalasafn Reykajvíkur varð 50 ára fimmtudaginn 7. október. Að því tilefni bauð safnið til afmælisathafnar í húsakynnum safnsins í Grófarhúsinu sem einnig hýsir Borgarbókasafn Reykjavíkur. Á afmælisdaginn afhentu Samtökin ´78 Borgarskjalasafni skjalasafn sitt frá árunum 1978-1999 til varðveislu, rúmlega 30 öskjur af ýmsu efni, fundargerðarbækur, opinber bréfaskipti, útgefið efni, bæklinga, dreifirit og fleira sem tengist sögu félagsins. Skjalasafnið verður aðgengilegt almenningi frá næstu áramótum.
Við athöfnina í Grófarhúsinu afhenti formaður Samtakanna ´78 safn félagsins, en Svanhildur Bogadóttir, borgarskjalavörður, veitti því viðtöku. Einnig ávarpaði Þórólfur Árnason borgarstjóri gesti og þakkaði Samtökunum ´78 þetta merkilega framlag þeirra til varðveislu safnfræðilegra heimilda um félagslíf og mannréttindabaráttu í Reykjavík á 20. öld.
Ómetanleg heimild
Í ávarpi sínu af þessu tilefni gerði Þorvaldur Kristinsson grein fyrir því efni sem afhent hefur verið og sagði:
?Saga Samtakanna ´78 er eitt merkasta dæmi um það frá síðari árum hverju vilji og vitsmunir fá áorkað í þágu mannréttinda. Slíkum árangri hefur starf félagsins skilað á tveimur áratugum að til þess er tekið og til þess vitnað þar sem mannréttindamál og minnihlutahópa ber á góma víða um lönd.
Þegar að því kemur að saga hinnar samkynhneigðu hreyfingar verður rituð og á hana lagt mat af sagnfræðingum framtíðarinnar hér á landi, er það eitt af frumskilyrðum ábyrgrar fræðimennsku að geta gengið að frumgögnum. Það safn fundargerða, bréfa, útgáfuefnis og annarra skjala sem við felum Borgarskjalasafni til varðveislu, er ómetanleg heimild um starfsemi Samtakanna ´78, baráttumál, umræðuefni og umsvif í tuttugu ár. Það liggur í hlutarins eðli að slíkt safn er vandmeðfarið og nú sem fyrr lítur forysta Samtakanna ´78 svo á að öll þau trúnaðarmál sem varða samskipti samkynhneigðra einstaklinga og aðstandenda þeirra við félagið gegnum tíðina séu og verði einkamál sem ekki eigi erindi á opinbert safn. Engu að síður er hér af nógu af taka af vitnisburðum um opinber samskipti um þau málefni sem skiptu sköpum fyrir sögu lesbía og homma, eins og sýnishornin hér í salnum í dag vitna um.
Eitt og annað mun hafa glatast af gögnum í áralöngu húsnæðishraki félagsins gegnum tíðina, en þó furðar mig á því þegar ég lít yfir skjölin hversu heillega sögu þau mynda og samfellda. Að því tilefni við ég þakka sérstaklega tveimur forverum mínum í formannssæti Samtakanna ´78, þeim Guðna Baldurssyni og Margréti Pálu Ólafsdóttur, fyrir sögulega fyrirhyggju þeirra og hirðusemi sem fram kemur í þessu safni sem hér er afhent til varðveislu. Án þeirra hefði það orðið langtum minna að vöxtum og lakara.
Skjölin sem hér fylgja vitna um marga svitadropa og jafnvel stöku tár. Ef grannt er að gáð vitna þau líka um blóð. Blóð, sviti og tár. Það eru engar ýkjur að þetta var sá skattur sem samkynhneigðir urðu að greiða til að þoka málefnum sínum áfram. Þeirri skattheimtu er alls ekki lokið þó að öll sé hún með snöggtum mildara móti en áður fyrr. Um leið og ég þakka fulltrúum Borgarskjalasafns fyrir fagmannlega samvinnu og alúð við móttöku þessa safns, ber ég fram þá ósk okkur hommum og lesbíum til handa að skattleysismörk þeirra megi framvegis fylgja sama marki og öðrum þegnum þessa lands þykir við hæfi að greiða fyrir tilveru sína og mannhelgi.?
Skjöl til sýnis
Eilítið sýnishorn úr skjalasafni Samtakanna ´78 verður til sýnis næstu daga í móttökusal Borgarskjalasafns og minnir á þá sögu sem lesbíur og hommar þessa lands hafa skapað saman.