Skip to main content
Fréttir

Kanarífuglar í kolanámum – Ráðstefna og Gay Pride í Færeyjum

By 1. september, 2005No Comments

Frettir ANSO, norðurlandasamtök stúdentasamtaka STK-fólks, stóð að ráðstefnunni Kanarífuglar í kolanámum í Færeyjum nýverið. Þetta var vikulöng ráðstefna sem tók á ýmsu er varðaði homma, lesbiur og tvíkynhneigða í smáum samfélögum, auk vinnu að málefnum ANSO. Ýmsir fræðimenn og -konur komu þar við sögu sem framsögufólk fyrir umræðuefnum sem spönnuðu m.a. hvernig hægt er að sameina stolt samkynhneigðra og kristna trú, hvernig kristin kirkja hefur fylgt í humátt á eftir umbótum í þjóðfélögum (a.m.k. á Norðurlöndum) en tekið sinn tíma í það þó. Gerð var grein fyrir rannsókn á lífi, högum og viðhorfum finnskra og íslenskra homma og mismuninum á milli landanna. Þá var afar athygliverður fyrirlestur um hómófóbíu frá sjónarhóli mannfræðinnar og mismunandi birtingarmyndir þessa hugtaks í ólíkum þjóðfélagsgerðum, svo og afleiðingar þessa. Færeyskur mannfræðingur talaði um nonheterosexual kynhneigð í færeysku umhverfi og spáði í spilin af hverju Færeyingar eru svona aftarlega á merinni miðað við önnur Norðurlönd hvað varðar mannréttindi homma og lesbia. Þá flutti sænskur sagnfræðingur tvo einstaklega skemmtilega fyrirlestra, annan um homma og lesbíur í sænsku þjóðfélagi fyrr á tímum, og hinn um sögu löggjafar um homma og lesbíur á Norðurlöndunum og af hverju svona vel hefur tekist til hér á norðurslóðum. Skosk-bandarísk fræðikona fjallaði um rannsóknir á nonheterosexual kynhneigð í stjálbýlli byggðum, einkum í miðvesturríkjum Bandaríkjanna en einnig í Finnlandi.

Hvað varðar fræðilega þáttinn, þá verður að segjast að fólk var almennt sammála um að það er ekki hægt að heimfæra rannsóknir úr stærri borgarsamfélögum upp á smærri dreifbýlissamfélög, en á hinn bóginn eru góðar rannsóknir á lífi og högum homma, lesbía og tvíkynhneigðra í strjálbýlli byggðalögum af mjög skornum skammti og að bæta þarf úr þeim skorti.

Það var hins vegar enginn skortur á ?félagslegheitum? meðal ráðstefnugesta og þeirra homma og lesbía færeyskra sem komu á ráðstefnuna. Ráðstefnugestir bjuggu flestir á litlu hóteli rétt við miðbæinn í Tórshavn og því stutt að skondra í bæinn til að ?rannsaka? skemmtanamenningu Færeyinga eftir að hafa safnast saman í setustofu hostelsins til skrafs og ráðagerða og ?hygge sig með en öl eller to?. Allir með tölu voru þátttakendur sér og löndum sínum til sóma, enda ungt og vel gert og greint fólk. Án efa var þó hápunkturinn hjá öllum þegar fyrsta gay pride gangan fór fram undir lok ráðstefnunnar. Það höfðu verið töluverð blaðaskrif um ráðstefnuna og samkynhneigð yfirhöfuð, ýmsir höfðu séð sig knúna til að lýsa yfir vanþóknun og vandlætingu sinni á slíku, bæði þekktir stjórnmálamenn og almennir borgarar. Það höfðu líka birst stuðningsgreinar, en þó nokkru færri.

Það var það mikill sigur fyrir færeyskar lesbíur og homma þegar gangan lagði af stað frá Norðurlandahúsinu í átt að Vaglinum (miðbæjartorgið í Tórshavn) en um 100 manns höfðu safnast saman til þess að taka þátt. Það var hins vegar miklu áhrifameira að koma eftir götunni sem liggur niður á Vaglið, að sjá mannfjöldann sem samankominn var þar að bíða eftir göngunni (líklega um 200 manns að auki) og sjá að fólk fór að klappa fyrir göngufólki er það nálgaðist torgið. Það sást engin neikvæð sál né heyrðist nokkur neikvæð rödd þegar færeyski fáninn og regnbogafánninn héngu í fyrsta sinn saman við hún á torginu í Tórshavn. Það er vonandi tímanna tákn að bakgrunnurinn fyrir dagskránni, sem fram fór á Vaglinum, er þinghús þeirra Færeyinga. Og miðað við hvernig þeir tveir stjórnmálamenn sem þarna töluðu – þeir tóku afdráttarlausa afstöðu með málefnum lesbía og homma – eru vonandi miklar líkur til þess að ómur þessarar fyrstu gay pride hátíðar Færeyinga nái inn fyrir veggi þess húss á næstu árum.

-Eygló Aradóttir

Leave a Reply