Skip to main content
Fréttir

Fylkisstjóri New Jersey kemur út úr skápnum

By 19. ágúst, 2004No Comments

Frettir James McGreevey, fylkisstjóri New Jersey, greindi frá samkynhneigð sinni hinn 12. ágúst sl. á blaðamannafundi, þar sem hann sagðist mundu segja af sér embætti 15. nóv. nk. Eiginkona hans stóð við hliðina á honum. Yfirlýsingin hefur vakið hörð viðbrögð repúblíkana sem krefjast þess að hann hætti tafarlaust og að efnt verði til kosninga. Talsmenn samtaka samkynhneigðra hafa hins vegar lýst yfir hryggð yfir því að mannréttindi séu ekki komin lengra á veg í Bandaríkjunum en svo, að slík yfirlýsing veki úlfúð og geri það að verkum að McGreevey þarf að segja af sér. Hér á eftir fer afsagnarræða McGreevay:

Allt mitt líf hef ég glímt við að horfast í augu við það hver ég er. Þegar ég var lítill hafði ég efablandnar tilfinningar um sjálfan mig, var jafnvel ráðvilltur. Viðteknar hefðir samfélagsins ollu því að ég gerði ég allt sem ég gat til að sýnast gjaldgengur hlekkur í hinu hefðbundna ameríska fjölskyldumunstri. Ég kvæntist fyrri konu minni, Kari, af virðingu og kærleika. Og saman eigum við einstaka og dásamlega dóttur. Kari kaus síðar að fara aftur til British Columbia.

Það var mikið lán fyrir mig að kvænast seinni eiginkonu minni, Dinu, en ást hennar og lífsgleði hefur verið mér ómetanlegur styrkur. Og saman eigum við yndislega dóttur. En allt frá því ég byrjaði í skóla fann ég að í mér bærðist ákveðin tilfinning um að ég væri öðruvísi en aðrir. Ég hélt að ég væri að gera rétt þegar ég einsetti mér að þröngva upp á mig öðrum raunveruleika, sem ég taldi vera tilhlýðilegan og sífellt er hamrað á; hvernig maður á að vera, hvernig rétt og eðlileg hegðun er fyrir dæmigerðan ungling og fullorðinn einstakling.

Þá komu tímabil í lífi mínu þar sem ég íhugaði nánar, jafnvel trúarlega, hvað þessi tilhlýðilegi raunveruleiki hafði í för með sér fyrir mig, hvort ég væri að flýja raunveruleikann og einnig hverjum ég væri eiginlega að þjóna?

Ég álít að guð refsi ekki nokkrum manni aðeins fyrir það hvernig hann er. Ég trúi því að guð geri mönnum kleift að gera allt til góðs. Nú þegar ég er 47 ára má halda því fram með nokkrum sanni að það sé of seint að ræða það. En ég geri það nú samt hér og nú.

Í lífi sérhvers manns kemur að því að hann verður að líta sjálfan sig í spegli, vega og meta á heiðarlegan hátt hver sannleikurinn um hann er, ekki eins og hann langar til eða vonar, heldur eins og sannleikurinn er, umbúðalaust. Sannleikurinn um mig er að ég er samkynhneigður Bandaríkja-maður. Og ég á því láni að fagna að vera hluti af frábærri þjóð sem á sér langa hefð fyrir mannréttindum og býr í gjöfulu landi.

Vegna þess sársauka, þjáninga og angistar sem ég hef valdið fjölskyldu minni sem mér þykir svo vænt um, foreldrum mínum, eiginkonu og vinum, væri auðvitað þægilegast ef hægt væri að komast hjá þessari stund. Því þessi ákvörðun er alfarið persónuleg og ekki tekin fyrir almenning. Samt er ekki hægt að komast hjá henni og það er skylda mín.

Ég er einnig hér í dag vegna þess að ég hef framið smánarlegt hjúskaparbrot þar sem ég átti í ástarsambandi við annan karlmann. Það var rangt. Það var heimskulegt. Það var óafsakanlegt.

Vegna þessa bið ég eiginkonu mína vægðar og fyrirgefningar. Hún hefur sýnt af sér einstakan styrk í þessari eldraun og það er blessun mín að hafa fengið að njóta kærleiks hennar og stuðnings. Ef kynhneigð minni og framhjáhaldi yrði áfram haldið leyndu, yrði ég -og það sem skiptir meira máli, fylkisstjóraembættið,- berskjaldað fyrir slúðri, röngum ályktunum og hættu á afhjúpun. Því vil ég eyða þessari hættu með því að segja sjálfur hreinskilnislega frá kynhneigð minni.

Ég vil taka skýrt fram að ég tek á mig fulla ábyrgð á gerðum mínum. En mér ber skylda til að gera það sem ég get til að reyna að bæta fyrir afleiðingar gerða minna og að vera þeim sem mér þykir vænt um raunsannur, vinum og fjölskyldu og einnig sjálfum mér. Sú staðreynd að ég er samkynhneigður hefur lítil áhrif á störf mín sem fylkisstjóra. Raunar hefði sú ákvörðun mín að segja í einlægni frá því hvernig ég er, gert mig betur í stakk búinn til að sinna embættisskyldum mínum.

En vegna kringumstæðnanna og þeirra áhrifa sem framhjáhaldið kann að hafa á fjölskyldu mína og aðstöðu mína til að rækja skyldur mínar, hef ég komist að þeirri niðurstöðu að í framhaldinu sé eðlilegast fyrir mig að segja af mér embætti. Til að nýskipan í embættið megi fara fram með ábyrgum hætti, mun afsögn mín taka gildi 15. nóvember næstkomandi.

Ég er afar stoltur af þeim verkefnum sem hefur tekist að koma í kring undir minni stjórn. Af auðmýkt vil ég þakka fólkinu í New Jersey fylki fyrir að hafa gefið mér tækifæri til að njóta þeirra forréttinda að gegna hinu háa embætti.

-BP

Leave a Reply