Börn samkynhneigðra foreldra eru hópur nemenda sem brýnt er að vekja sérstaka athygli á. Frásagnir þessara barna gefa til kynna að þau upplifi tómarúm og einmanaleika varðandi stöðu sína. Þögnin umlykur þeirra stöðu jafnvel enn meira en stöðu annarra sem málefninu tengjast. Þögnin um fjölskyldugerð þeirra gefur tilefni til þess að þau meti stöðu sína þannig að um hana eigi að þegja sem veldur oftar en ekki sálarkvöl á einhverju stigi.
Aðstæður þessara barna eru mismunandi, sum þeirra búa við aðstæður þar sem samkynhneigða foreldrið er opið um líf sitt. Önnur búa við mikinn feluleik á heimili sínu og taka ómeðvitað eða meðvitað þátt í honum. Hvernig sem aðstæður þessara barna eru og ekki síst vegna þeirrar óvissu sem getur ríkt um þá stöðu er mikilvægt að skólinn sýni ábyrgð. Í því felst að gera öllum fjölskyldugerðum jafnhátt undir höfði. Kennarinn verður að axla ábyrgðina. Það að segja frá getur verið barninu erfitt ef aðstæður eru þannig að ekki sé talað opinskátt um þá fjölskyldugerð sem það býr við. Þessi börn verða að fá þann stuðning sem með þarf til að þau gjaldi ekki fyrir. Því er ekki síður mikilvægt að umræðan um tilvist lesbía og homma sé hrein og bein. Til að svo megi verða verða allir sem málið varðar að taka höndum saman og þrýsta á að hið opinbera axli sína ábyrgð á faglegan hátt.
Sara Dögg Jónsdóttir í fyrirlestri á ráðstefnu á Selfossi í apríl 2004.