Skip to main content
Fréttir

HINSEGIN STJARNA Á ÍSLANDI

By 9. apríl, 2008No Comments

Það fer að verða nánast daglegur viðburður að heimsþekktir tónlistarmenn leggi leið sína hingað til lands og leyfi landanum að njóta hæfileika sinna. Það er hins vegar ekki á hverjum degi sem hinsegin stórstjörnur rekur á fjörur okkar menningarþyrstra Íslendinga. Nú vill þó svo til að hinn afar hæfileikaríki og heillandi kanadísk-bandaríski tón- og sviðslistamaður, Rufus Wainwright, hefur ákveðið að koma við á Íslandi og halda tónleika í Háskólabíói þann 13. apríl næstkomandi.

Það fer að verða nánast daglegur viðburður að heimsþekktir tónlistarmenn leggi leið sína hingað til lands og leyfi landanum að njóta hæfileika sinna. Það er hins vegar ekki á hverjum degi sem hinsegin stórstjörnur rekur á fjörur okkar menningarþyrstra Íslendinga. Nú vill þó svo til að hinn afar hæfileikaríki og heillandi kanadísk-bandaríski tón- og sviðslistamaður, Rufus Wainwright, hefur ákveðið að koma við á Íslandi og halda tónleika í Háskólabíói þann 13. apríl næstkomandi. Rufus á nú þegar fjölmargra aðdáendur hér á landi, ekki síst í hópi hinsegin fólks og hlýtur því að vera mikill fengur í komu hans hingað.

Rísandi stjarna í boði tónlistarmafíu Wainwright og McGarrigle

Rufus Wainwright fæddist 22.júlí 1973 og það má með sanni segja að krókurinn hafi beygst snemma, enda drengurinn kominn af hálfgerðri tónlistarmafíu. Þannig voru og eru foreldrar hans, þau Kate McGarrigle og Loudon Wainwright III bæði á kafi í tónlist og þekkt nöfn í tónlistarheiminum. Móðursystir hans Anna McGarrigle og föðursystirin Sloan Wainwright hafa einnig getið sér gott orð fyrir tónsmíðar sínar og tónlistarflutning og þá hefur systir hans Marta Wainwright fyrir löngu markað sín spor í tónlistarsöguna. Auk þeirra skal hér nefna hálfsystur Rufusar, Lucy Wainwright Roche, en frægðarsól hennar þykir fara rísandi.

Litli snillingurinn Rufus fór að læra á píanó aðeins 6 ára að aldri og 13 ára gamall var hann farinn að spila og lagstur í tónleikaferðalög með móður sinni, móðursystur og Mörthu systur, í hljómsveitinni The McGarrigle Sisters and Family. Árið 1989 var Rufus, þá einungis 16 ára, tilnefndur til hinna kanadísku kvikmyndaverðlauna Genie, fyrir lagið I’m A-Runnin, en það flutti hann í kvikmyndinni Tommy Tricker and the Stamp Traveller. Allar götur síðan hefur leið hans legið upp á við og má segja að aðdáendahópurinn hafi einungis farið stækkandi.

Sólóplötur og annað smálegt

Rufus gaf út fyrstu sólóplötu sína Rufus Wainwright árið 1998. Tímaritið Rolling Stones taldi plötuna vera eina þá bestu það ár og útnefndi hann sem besta nýja listamanninn. Síðan þá hefur Rufus gefið út breiðskífurnar Poses (2001), Want One (2003), Want Two (2004), Release the Stars (2007), sem rokseldist í Bretlandi og Bandaríkjunum og Rufus Does Judy at Carnegie Hall (2007). Sú síðastnefnda er upptaka frá tónleikum hans til heiðurs söng- og leikkonunni, dívunni og átrúnaðargoði hinsegin fólks um víða veröld Judy Garland. Á tónleikunum endurskapar hann endurkomutónleika Judy í Carnegie Hall í apríl 1961 sem oft hafa verið nefndir mikilfenglegasta kvöld í sögu skemmtanaiðnaðarins.

Ásamt þessu hefur Rufus gefið út smáskífur og myndbönd, leikið í kvikmyndum, sett upp sýningar, samið óperur og söngleiki og tekið lög eftir aðra listamenn. Hann kom til að mynda fram í myndunum The Aviator og Heights auk þess sem hann tók sérstaklega upp tónlist fyrir myndir eins og Brokeback Mountain, I am Sam, Moulin Rouge, Shrek, Meet the Robinsons og Leonard Cohen: I’m Your Man. Það er því löngu ljóst að maðurinn ræðst ekki á garðinn þar sem hann er lægstur og hefur náð að afkasta ótrúlegu magni af gæðaefni á stuttri ævi sinni.

Barrokkpopparinn og popperumaðurinn Rufus

Auk þess að beita barítónsöngröddinni við tónlistarflutning sinn leikur Rufus bæði á píanó og gítar og skiptir tíðum á milli hljóðfæra á tónleikum. Á meðan sum lögin eru einungis studd eigin píanóleik, styðst hann í seinni tíma verkum sínum oft við rokk- eða sinfóníuhljómsveit, þar sem fram koma flóknar lagskiptingar og hljómföll í anda óperunnar.

Wainwright hefur verið ástríðufullur óperuunnandi síðan á gelgjuskeiðinu og hefur tónlistarstefnan haft augljós áhrif á sköpunarverk hans. Einnig má í tónlistinni finna fyrir ást hans á ljóðsöngvum (Lieder) Franz Schuberts og þá gætir áhrifa frá Édith Piaf, Al Jolson og Judy Garland, en Rufus varð einnig hugfanginn af þessum listamönnum á unglingsárunum.

Sumum laga Wainwrights hefur verið lýst sem popperu (popp-óperu) eða Barrokk poppi og eru margar tónsmíða hans þannig svimandi samsuða strengja, horna, óperuviðlaga, ragtime takts og hans eigin einstaka og hlýja raddblæs.

Frá pólitík og persónum til trúar, eiturlyfja og ástar

Í verkum Wainwrights skjóta nokkur þemu endurtekið upp kollinum. Hér má nefna óperu, bókmenntir, vinsældamenningu (pop culture) og í seinni tíð pólitík (eins og í Waiting for a Dream, Gay Messiah og Going to a Town). Aðlöðun, þrá og ást (oft óendurgoldin) eru undirliggjandi þemu í drjúgum hluta verka hans og birtast í fjölbreyttum og ólíkum myndum. Hér má nefna lög eins og Harvester of Hearts, Foolish Love, April Fools, The Art Teacher, This Love Affair og Peach Trees. Wainwright syngur einnig um fjölskyldubönd og fjalla Beauty Mark, Little Sister og Dinner at Eight, í þessari röð, um reynslu hans með móður, systur og föður sínum.

Trú og trúarlegar myndir koma líka fyrir í tónlist hans (Agnus Dei, Gay Messiah og Greek Song) og þá heillast Rufus einnig af veraldarupplifunum og fjarlægum löndum (Oh What a World og April Fools). Auk þessa fjalla nokkur lög Rufusar um upplifun hans af eiturlyfinu crystal meth og reynslu hans af því að fara í meðferð (Go or Go Ahead og I don’t know What it Is).

Rufus hefur einnig tileinkað persónum og stöðum lög sín í gegnum tíðina. Þannig hefur hann samið um menntaskólann sinn (Millbrook), til heiðurs hinum látna leikara River Phoenix (Matinee Idol) og sömuleiðis hinum látna tónlistarmanni Jeff Buckley (Memphis Skyline). Innblásturinn að laginu Sanssouci (áhyggjuleysi á frönsku) á breiðskífunni Release the Stars er svo sóttur í 18.aldar rókókó-sumarhöll Friðriks mikla Prússakeisara í Potsdam fyrir utan Berlín, en hún ber einmitt sama nafn og lagið. Tiergarten sem er á sömu plötu vísar í Berlin Tiergarten og er samið um kærasta Rufusar, hinn þýska listræna stjórnanda Jörn Weisbrodt.

Erfið reynsla mótar hinsegin Rufus

Rufus Wainwright kom á unglingsárum út úr skápnum sem hommi og í viðtali við Rolling Stone árið 1999 sagði hann samkynhneigðina snemma hafa verið viðurkennda af föður hans. „Við fórum í bíltúra þar sem hann spilaði Heart of Glass og ég hreyfði varirnar og þóttist vera Blondie. Þetta var náttúrulega bara forsmekkurinn að því sem á eftir fylgdi.“ Rufus sagði síðar í öðru viðtali að „mamma og pabbi gátu ekki einu sinni höndlað að ég væri hommi. Við töluðum í raun aldrei um það.“

Einungis fjórtán ára að aldri varð Rufus fyrir kynferðislegri árás í Hyde Park í London eftir að
hafa hitt mann á bar. Haft er eftir honum að hann hafi lifað við skírlífi næstu fimm ár á eftir. Annars staðar segir hann þessa reynslu hafa gert sig lausgirtann. Í viðtali mörgum árum síðar lýsir hann atburðinum: „Ég sagði að mig langaði að fara í garðinn til að fylgjast með stórum tónleikum sem voru í gangi. Ég hélt þetta yrði rómantísk gönguferð í garðinum, en hún endaði með því að hann nauðgaði mér, rændi mig svo og reyndi að kyrkja.“ Rufus segist einungis hafa sloppið með skrekkinn með því að gera sér upp flogaveikikast.

Rufus og Ísland

Íslendingar hafa ekki farið varhluta af tónlistarsköpun Rufusar Wainwright. Hann átti til að mynda eitt af mestu spiluðu lögum síðasta árs á Rás 2, en það var lagið Going to a Town af plötunni Release the Stars. Auk þess hafa önnur lög af plötunni hljómað á öldum hins íslenska ljósvaka upp á síðkastið. Þá má ekki gleyma Lifandi útvarpi, vel sóttu tónlistarkvöldi Andreu Jónsdóttur í Regnbogasal Samtakanna ’78 í október 2007. Andrea gerði þar tónlist hinsegin listamanna skil í tali og tónum og ákvað að helga Rufusi og ættmennum hans allt kvöldið. Vakti það mikla lukku viðstaddra.

Rufus Wainwright þykir einstakur á tónleikum og nær að sögn upp mikilli nánd og stemmingu hvar sem hann kemur fram. Og nú er hann sumsé loksins kominn til að bjóða Íslendingum upp á herlegheitin. Um leið og við hvetjum alla til að flykkjast í Háskólabíó þann 13.apríl og njóta listsköpunar þessa hugljúfa hinsegin snillings, ætlum við að leyfa okkur að hamra á klisjunni um Íslandsvinina, vitna í Humphrey gamla Bogart og segja: Rufus, I think this is the beginning of a beautiful friendship.

-Hilmar Magnússon

Byggt á umfjöllun um Rufus Wainwright á:

http://en.wikipedia.org/wiki/Rufus_Wainwright
http://midi.is/tonleikar/1/5029
http://ruv.is:80/poppland/ 
http://nytimes.com/2007/06/04/arts/music/04wain.html

Myndirnar er fengnar á heimasíðu Rufus Wainwright:

www.rufuswainwright.com

 

 

Leave a Reply