Frettir Stórblaðið Boston Globe greinir svo frá að konurnar tvær sem létust í flugslysi við Íslandsstrendur 6. mars sl. ? Gwen Bloomingdale og Barbara Glad frá Provincetown Massachusetts ? hafi verið ástkonur og í fremstu röð baráttumanna fyrir mannréttindum lesbía og homma á 9. tug aldarinnar í Nýja-Englandi.
Gwen Bloomingdale sem var hæstaréttarlögmaður, vakti mikla athygli á sínum tíma í opinberri umræðu vestan hafs með því að flétta saman í ræðu og riti umræðu um almenn lýðréttindi og mannréttindi samkynhneigðra á tímum þegar mikið hugrekki þurfti til að tala máli lesbía og homma. Barbara var fyrrum majór í Þjóðvarðliði Bandaríkjanna. Þær Gwen og Barbara kynntust árið 1985 og innsigluðu samband sitt með hringum sem geymdu orðin ?Dare, dream, discover?.
Íbúar í Provincetown og gamlir samherjar í baráttuhreyfingu samkynhneigðra í Nýja Englandi eru harmi slegnir við sviplegt fráfall kvennanna. Sett hafði verið upp vefsíða þar sem bæjarbúar í Provincetown gátu fylgst með útsýninu úr flugvélinni gegnum myndavél sem var staðsett fremst á nefi flugvélarinnar. Vefsíðunni hefur nú verið breytt í minningarsíðu um þær Gwen og Barböru.