Tilkynningar
Í tilefni af sýningu bandarísku kvikmyndarinnar Bróðir og utangarðsmaður ? Bayard Rustin á Hinsegin bíódögum, mun annar höfundur myndarinnar, Bennett Singer, heimsækja Ísland og koma fram á málstofu í Háskóla Íslands laugardaginn 6. mars kl 10:30. Málstofa þessi er hluti af ráðstefnu um karlarannsóknir sem Rannsóknastofa í kvenna- og kynjafræðum (RIKK) stendur fyrir nú um helgina og er samstarfsverkefni Hinsegin bíódaga, Bandaríska sendiráðsins og RIKK. Ásamt Bennett Singer taka þátt í málstofunni dr. Deborah Hughes, sérfræðingur í afrísk-amerískum fræðum, dr. Sigríður Þorgeirsdóttir, Geir Svansson og Guðmundur Hálfdanarson. Á málstofunni verður sýnt brot úr kvikmynd þeirra Nancy Kates og Bennetts Singer, Brother Outsider, The Life of Bayard Rustin, sem einnig er sýnd tvisvar á Hinsegin bíódögum. Bennett Singer flytur stutt erindi um verk sitt og hlutskipti þeirra minnihlutamanna í Bandaríkjunum sem bæði eru svartir og samkynhneigðir. Að því loknu verða umræður og gestum gefst kostur á að leggja fyrirspurnir fyrir málshefjendur og skiptast á skoðunum við þá.
Bayard Rustin var nánasti ráðgjafi Martins Luthers King og barðist við hlið hans en starfaði þó alla tíð í skugga leiðtogans. Samkynhneigð hans þótti hreinlega of mikil ögrun við hreyfingu bandarískra svertingja. Bayard Rustin var sennilega þýðingarmesti skipuleggjandi og forvígismaður göngunnar miklu til Washington sem markar þáttaskil í sögu svartra í Bandaríkjunum. Þessi víðfræga heimildarmynd hefur unnið til fjölda verðlauna, m.a. á Sundance-kvikmyndahátíðinni í Bandaríkjunum.
Sjá upplýsingar um ráðstefnuna Möguleikar karlmennskunnar á vefslóðinni www.rikk.hi.is
Sjá einnig vefslóð Hinsegin bíódaga www.hinbio.org