Tilkynningar Dagana 7. ? 10 október næst komandi verður heimsþing InterPride haldið á Nordica hótelinu í Reykjavík. Nú þegar hafa skráð sig um 90 fulltrúar frá um 30 borgum og því ljóst að fjölbreytt sjónarmið munu koma fram á þinginu. Hinsegin dagar hafa þegar ákveðið hverjir verða formlegir fulltrúar þeirra á þinginu en þeir sem hafa áhuga á Gay Pride geta einnig sótt um til Hinsegin daga að fá að sækja þingið.
Skráningargjald er 14.400 krónur. Innifalið eru ráðstefnugögn, hádegismatur á föstudegi og laugardegi og aðgangur að þriggja rétta veislu og dansleik í hátíðarsal Nordica hótelsins á föstudagskvöldinu. Andrea Gylfa, Maríus Sverrisson og hommaleikhúsið Hégómi munu skemmta gestum ásamt fleirum.
Ráðstefnan hefst fimmtudaginn 7. október með kynningarfundi fyrir þá sem aldrei hafa sótt þing InterPride áður. Klukkan 17:00 síðdegis er svo móttaka í boði Þórólfs Árnasonar borgarstjóra í ráðhúsinu. Þingið hefst svo að fullu föstudaginn 8. október með almennum þingfundi, sem Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands mun ávarpa. Síðan heldur þingið áfram með alls kyns vinnustofum og fundum fram til hádegis á sunnudag þegar þinginu verður slitið.
Þeir sem hafa áhuga á að sækja þingið fylli út meðfylgjandi eyðublað sem nálgast má á slóðinni hér fyrir neðan og sendi það til:
heimir.petursson@interpride.org