Frettir Arnold Schwarzenegger, ríkisstjóri Kaliforníu, hvetur borgaryfirvöld í San Fransisco til þess að hætta að gefa saman fólk af sama kyni. Borgarstjórinn hefur aftur á móti lýst því yfir að hann muni halda sínu striki og sér ekki eftir ákvörðun sinni. Langar raðir samkynhneigðra para í giftingarhugleiðingum hafa myndast dag eftir dag fyrir utan ráðhúsið og ekkert lát virðist á.
Í yfirlýsingu Schwarzenegger ítrekar hann þá staðreynd að lög fylkisins banni umræddar gitingar og að ákvörðun borgarstjórans sé því lögleysa og að giftingarnar hafi ekkert lagalegt gildi. Schwarzenegger hefur skipað borgaryfirvöldum að ?snúa af þessari hættulegu braut sem grefur undan grunni samfélagsins?. Eflaust er mörgum flokksfélögum ríkisstjórans létt enda tilheyrir leikarinn fyrrverandi frjálslyndari armi Rebúblíkanaflokksins og hefur hingað til verið fremur jákvæður í afstöðu sinni til samkynhneigðra. Borgaryfirvöld hafa hins vegar varið ákvörðun sína og telja að lagaákvæði það sem Swarzenegger vísar til, það er að segja lög fylkisins sem skilgreina hjónaband sem einingu karls og konu, að það stangist á við jafnréttisákvæði stjórnarskrárinnar. Þau hafa nú þegar vísað málinu til dómstóla. Ýmsir fylgismenn giftinga samkynhneigðra óttast að ákvörðun borgarstjórans verði vatn á millu þeirra sem nú þrýsta á Bush forseta að lögfesta viðbot við stjórnarskrá landsins sem taki af allan vafa í málinu. Það er því alls ekki víst að giftingarnar í San Francisco verði á endanum málstað samkynhneigðra til framdráttar.
Heimildir: Fréttavefur BBC og Fréttablaðið