Frettir Tryggðu þér miða!
Leikhópurinn Á senunni býður upp á sérstaka Hinsegin hátíðarsýningu á söngleiknum Kabarett eftir Masteroff, Ebb og Kander í þýðingu Veturliða Guðnasonar. Sýningin verður laugardaginn 6. ágúst í Íslensku óperunni.
MIÐASALAN ER NÚ HAFIN Á WWW.KABARETT.IS
Hópurinn sem stendur að Kabarett er óneitanlega glæsilegur. Í aðalhlutverkum eru Þórunn Lárusdóttir sem leikur Sally Bowles, Magnús Jónsson sem leikur kabarettstjórann Emmsé og Felix Bergsson, en hann leikur rithöfundinn Cliff Bradshaw. Í hlutverkum Fraulein Schneider og Herr Schultz eru þau Edda Þórarinsdóttir og Borgar Garðarsson, Katla Margrét Þorgeirsdóttir leikur Fraulein Kost og Jóhannes Jóhannesson stígur nýútskrifaður út úr Listaháskólanum til að leika Ernst. Aðrir leikarar eru Vigdís Gunnarsdóttir, Birna Hafstein, Kristjana Skúladóttir, Guðjón Karlsson, Orri Huginn Ágústsson, Soffía Karlsdóttir, Agnes Kristjónsdóttir og Inga Stefánsdóttir. Hljómsveitin skipar stóran þátt í þessari uppsetningu en hana skipa þeir Sigtryggur Baldursson, Samúel Samúelsson (Sammi í Jagúar), Matthías Stefánsson, Sigurður Flosason, Valdimar Kolbeinn Sigurjónsson og Karl Olgeirsson, sem jafnframt er tónlistarstjóri sýningarinnar. Leikstjóri er Kolbrún Halldórsdóttir.
Það þarf ekki að taka fram að Kabarett er langstærsta verkefni leikhópsins Á senunni til þessa. Leikhópurinn var stofnaður af Kolbrúnu og Felix árið 1998 og setti sitt fyrsta verk, Hinn fullkomna jafningja á svið í byrjun árs 1999. Síðan hefur hópurinn sett upp sýningar sem hafa hlotið lof innan lands sem utan og fengið marga frábæra listamenn til samstarfs. Kabarett er sjöunda verkefni hópsins og hefur verið á teikniborðinu í nokkur ár. Eiginlegur undirbúningur hefur staðið frá síðasta sumri. Verkið fjallar um Berlín á uppgangstíma nasistanna í byrjun fjórða áratugar síðustu aldar. Bandaríkjamaðurinn Cliff Bradshaw kemur til Berlínar með það í huga að skrifa skáldsögu. Þar dregst hann fljótt inn í hringiðu, þar sem samfélagið sveiflast á milli öfganna. Annars vegar er partýið, kynlífið og brjálæðið í Kit Kat klúbbnum og hinsvegar eru það stjórnmálin, þar sem nasistar verða sífellt sterkari. Hann kynnist söngkonunni Sally Bowles og hún snýr tilveru hans á hvolf. Sofandi streymir veröldin að feigðarósi og Kabarettinn speglar það sem á gengur…
Kabarett verður frumsýndur í Íslensku óperunni þann 4. ágúst. Heimasíða sýningarinnar er á www.kabarett.is Þar er miðasalan hafin. Almenn miðasala opnar í Íslensku óperunni þann 26. júlí. Sími miðasölu er 511 4200.
Leikhópurinn á senunni og Gay Pride