Tilkynningar KMK, Konur með konum, er fjörugur félagsskapur lesbía á öllum aldri og starfa þær með miklum blóma í sumar. Lítum á það helsta sem þar er á döfinni, en nánari upplýsingar er einnig að finna á heimasíðu KMK www.geocities.com/konurmedkonum.
Gazellurnar
Róðrarlið KMK, Gazellurnar, stefna ótrauðar á róðrarkeppni á Sjómannadaginn, 2. júní. Fregnir herma að þær fái samkeppni í ár þannig að það stefnir í brjálaða baráttu hjá stelpunum. Þær ætla sér að vinna. Lesbíur ætla að fjölkvenna með fjölskyldur sínar og hvetja sínar konur af miðbakkanum við Reykjavíkurhöfn. Ekki er enn ljóst klukkan hvað keppnin hefst en KMK mun senda út póst þar að lútandi þegar nær dregur en dagskráin verður að vanda kynnt í dagblöðum.
Sumarhátíð lesbía á Akureyri
Helgina 7.-9. júní stendur KMK fyrir ferð til Akureyrar þar sem bærinn verður málaður í regnbogalitunum. Dagskráin hefst á föstudagskvöldi með grilli í boði fararstjórans. Á laugardeginum er ætlunin að gera sér ýmislegt til dundurs eins og að yfirtaka líkamsræktarstöðina Bjarg, www.bjarg.is, en þar verður boðið upp á jóga, nudd, heitan pott og jafnvel eitthvað fleira skemmtilegt. Að þjálfun lokinni verður Viking brugg heimsótt. Um kvöldið verður efnt til dansleikjar í Deiglunni þar sem lesbíubandið Rokkslæðan heldur uppi fjörinu. Verði einstakra uppákoma verður stillt í hóf.
KMK hvetur konur til að fjölkvenna í ferðina. Frekari upplýsingar svo sem varðandi gistingu, ferðir og frekari dagskrá verða sendar á póstlista KMK en verður einnig að finna á heimasíðu KMK (www.geocities.com/konurmedkonum) eða hjá Söru Dögg í síma 823-4291 og Ínu í síma 895-4497.
Grill í Heiðmörk
Til stendur að halda fjölskyldugrill í Heiðmörk í byrjun júlí. Stefnan er að hittast eftir vinnu, fara í ratleik og grilla saman. Frekari upplýsingar verða sendar út síðar.
Veiðiferð
Farin verður veiðiferð að Hítarvatni helgina 12.-14. júlí. Gist verður í Gangnamannaskála en einnig er mögulegt að tjalda. Verð á stöng er 2000 krónur á dag og er tjaldstæði innifalið. Verð á gistingu í skála er mjög hóflegt en fer eftir fjölda veiðikvenna. Frekari upplýsingar verða sendar út síðar.
Útilega
Útilega KMK verður helgina 26.-28. júlí. Frekari upplýsingar verða sendar út síðar.