Skip to main content
Fréttir

Samkynhneigð og kristin trú

By 26. apríl, 2006No Comments

Hvers vegna leggið þið fram þá kröfu að fólk breyti gegn trú sinni á hvað er rétt og fari fram á kirkjubrúðkaup?

Spurt: Ég hef eina stóra spurningu. Hvers vegna leggið þið fram þá kröfu að fólk breyti gegn trú sinni á hvað er rétt og fari fram á kirkjubrúðkaup? Auðvitað eiga kristnir að elska ykkur sem bræður og systur. Ef við erum kristin og lifum eftir því að guð hafi skapað okkur en ekki öfugt, þá eigum við að beygja okkur fyrir honum en ekki öfugt. Takk kærleika.

Svarað: Fyrirspyrjandi veltir því fyrir sér hvers vegna samkynhneigðir fari fram á að geta staðfest samvist sína í kirkju á sama hátt og gagnkynhneigðir geta gengið í hjónaband með kirkjulegri vígslu. Til þess að svara spurningunni, svo og vangaveltum fyrirspyrjanda um þetta efni, er nauðsynlegt að byrja á því að líta á nokkrar forsendur sem kirkjan og löggjafinn setja sér þegar rætt er um hjónaband og staðfesta samvist.

Hjónaband og staðfest samvist eru löggerningar sem tryggja tveimur einstaklingum sem skuldbinda sig hvor gagnvart öðrum viss réttindi. Hjónavígsla í kirkju er jafnframt skuldbinding parsins gagnvart guði og samfélagi kirkjunnar, loforð um að framfylgja sem hjón ekki aðeins boði löggjafans heldur einnig boðskap kristinnar trúar. Íslenska þjóðkirkjan, svo og aðrir trúarsöfnuðir, hafa fengið rétt frá löggjafanum til að annast þann hluta hjónavígslunnar sem er löggerningur auk þess hluta sem er blessun viðkomandi safnaðar, í tilviki kirkjunnar kristin blessun. Í mörgum löndum er rétturinn til að fremja löggerninginn eingöngu á hendi borgaralegra yfirvalda og kirkjan hefur eingöngu rétt til blessunar. Kirkjan hefur í dag eingöngu rétt til löggernings hjónabandsins en ekki löggernings staðfestrar samvistar.

Hér á landi geta gagnkynhneigð pör, sem ætla sér að ganga í hjónaband, valið um það að gifta sig borgaralega eða í kirkju. Þessi valmöguleiki býðst ekki samkynhneigðum sem staðfesta samvist sína. Löggerningurinn verður að fara fram hjá borgaralegum yfirvöldum. Mörg samkynhneigð pör velja þó að fá einnig blessun samvistarinnar í kirkju.

Krafan um að samkynhneigðir fái að velja milli borgaralegrar og kirkjulegrar vígslu, eins og gagnkynhneigðir, er sjálfsögð og eðlileg. Í spurningu fyrirspyrjanda kemur fram að hann telur slíka kröfu vera óréttláta vegna þess að í henni felist að fólk þurfi að brjóta gegn trú sinn. Eins og fyrirspyrjandi setur spurninguna fram gengur hann út frá því að kristnir séu einn hópur og samkynhneigðir annar. Það erum „við“ – þeir kristnu – og „þið“ – hinir samkynhneigðu – þar sem „við“ eigum trúna og „þið“ eruð einhvers konar utanveltubesefar sem „við“ þurfum að sýna umburðarlyndi!

Nú er það svo að slík aðgreining er ekki möguleg. Samkynhneigðir eru margir hverjir kristnir og iðka trú sína meðal annars í kirkjulegu samhengi. Út frá grundvallarkenningum kristninnar um almenna kirkju, eiga þeir líka skýlausan rétt til allrar kirkjulegrar þjónustu þ.m.t. vígslu staðfestrar samvistar í kirkju. Almenn kirkja þýðir það að kirkjan er fyrir alla. Það er ekki gerð nein krafa um það að fólk brjóti gegn trú sinni þegar kirkjuleg vígsla staðfestrar samvistar fer fram, þvert á móti er gerð sú krafa að fólk fylgi trú sinni og virði boð kristninnar um mannkærleika og almenna kirkju. Vígsla samkynhneigðra í kirkju er ennfremur ekkert nýtt, rannsóknir guðfræðinga sýna m.a. að kirkjulegar vígslur fóru fram milli fólks af sama kyni í árdaga kristninnar og á miðöldum.

Í hugleiðingum fyrirspyrjanda kemur einnig fram að hann telur að kristnir menn séu skapaðir af Guði og eigi að beygja sig fyrir honum. Ef gengið er út frá þessum hugleiðingum þýðir það að Guð skapaði mennina, bæði þá sem eru gagnkynhneigðir og þá sem eru samkynhneigðir. Samkynhneigðir eru með öðrum orðum óaðskiljanlegur hluti af sköpunarverki Guðs. Það að meina samkynhneigðum pörum aðgang að kirkjulegri vígslu og útiloka homma og lesbíur á annan hátt frá kirkjulegu starfi er að brjóta gegn sköpunarverki Guðs. Þeir sem standa á bak við slíka útilokun eru þá sjálfir farnir að leika hlutverk Guðs í stað þess að hlýða boðum hans.

Það væri rangt að nota orðið „umburðarlyndi“ til þess að lýsa æskilegu viðhorfi gagnkynhneigðra kristinna manna til samkynhneigðra. Slíkt felur í sér lítilsvirðandi viðhorf ráðandi hóps gagnvart minnihluta og er ekki í samræmi við grundvallarkenningu kristinnar trúar. Allir menn eru jafnir fyrir Guði og það orð sem nota ætti til að lýsa sambandi mismunandi fólks hvers til annars í kirkjulegu samhengi er orðið „virðing“. Því er það nauðsynlegt fyrir kirkjuna, og allar kristnar manneskjur, að bera virðingu fyrir sköpunarverki Guðs, í samræmi við trú sína, og útiloka ekki samkynhneigða frá möguleikanum til kirkjulegar vígslu staðfestrar samvistar.

Haukur F. Hannesson

Leave a Reply